Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 16:24:38 (3379)

2003-02-04 16:24:38# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[16:24]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það var fróðlegt að hlýða á lok ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals sem saknar augljóslega Verðlagsstofnunar og ríkisverðs þannig að það sé hægt að ákveða bara tiltekið verð og menn þurfi þá ekki að hafa áhyggjur af verðmyndun að öðru leyti. Það er dálítið sérstakt þegar fulltrúi þess flokks sem á hátíðarstundum ber sér á brjóst og lýsir yfir dásemd frelsis og almennra viðskipta skuli koma hingað upp og horfa til þess með miklum söknuði þegar við höfðum Verðlagsstofnun til að ákveða hvað hlutirnir ættu að kosta.

Virðulegi forseti. Við erum ekki að ræða hér verðlagsmál eða Samkeppnisstofnun eins og mátti ætla af ræðu síðasta ræðumanns, heldur samgönguáætlun. Kannski er það svo í reynd í því víðfeðma landi og strjálbýla sem við búum í að samgönguáætlun sé okkar helsta byggðamál og hafi mest áhrif á það hvernig byggðaþróun verður. Með samgöngu\-áætlun og almennri umræðu um atvinnumál erum við að ræða hin raunverulegu byggðamál. Í þessu ljósi hefur mér alltaf fundist dálítið sérstætt að byggðamálum skuli síðan komið fyrir hjá hæstv. iðn.- og viðskrh. sem í reynd hefur minnst áhrif á þessi mál. Það sýnir kannski hversu klókir menn geta verið þegar þeir koma sér undan erfiðum málum, að vísa þeim í ráðuneyti sem hafa lítið sem ekkert um þessi mál að segja.

Almennt vil ég segja að ég fagnaði þegar hugmyndir um samræmda samgönguáætlun komu fram. Ég tel skynsamlegt að setja fram almenna áætlun á þessu sviði, að menn horfi yfir allt sviðið í einu, þ.e. siglingarnar, vegina og flugið, og reyni að samræma útgjöld til þessara málaflokka. Almennt að segja tek ég undir þá hugmynd og þá hugmyndafræði sem þessi hugsun byggir á og ég held að hún sé skref fram á við.

Kannski er það samt dálítið sérstætt að hæstv. samgrh. skuli koma með svona langtímaáætlun á einni af síðustu vikunum sem hann situr í embætti. En það er síðan allt önnur umræða sem (Gripið fram í: Hver mun taka við?) við eigum sjálfsagt eftir að fara í. Þá er augljós sú hætta að þegar menn leggja upp með langtímaáætlun þrátt fyrir augljósar breytingar í nánd hljóti einhverjar breytingar að verða á þessu gerðar.

Hins vegar má sjálfsagt nýta þessa vinnu til góðra verka í framtíðinni, ég er ekki í nokkrum vafa um það.

Eins og hér hefur komið fram horfa kannski þingmenn hver um sig aðeins heim í hérað og velta fyrir sér hvernig kjördæmi þeirra kemur út úr þeirri skiptingu fjár sem hér er lögð til. Ég vil segja það hér í upphafi máls míns, og það er ekkert launungarmál, að sérstaklega gamla Suðurlandskjördæmið hefur ekki farið vel út úr þessari skiptingu undanfarin ár. Ef maður tekur aðeins þær hugmyndir sem hér koma fram, þ.e. þær framkvæmdir sem ætlað er að ráðast í á landsbyggðinni með jarðgangakostnaði, er hlutur Suðurlands frá 2003 til ársins 2014 7,2% af fyrirhuguðum heildarútgjöldum. Lengd stofnvega á Suðurlandi er u.þ.b. 15% og meðallengd tengivega á Suðurlandi er u.þ.b. 26% af þessum vegaflokkum á öllu landinu þannig að hlutur Suðurlands er augljóslega mjög rýr í þessari áætlun. Það ber vissulega að harma. Ég harma það hér.

Hins vegar vil ég taka fram að ég sit í hv. samgn. og þar munum við leggja okkur fram um að ná fram breytingum á þeirri áætlun sem hér liggur fyrir. Það lýtur kannski frekar að forgangsröðun á einstökum verkefnum en almennt að þeirri hugmyndafræði sem ég þó tek undir að sé skynsamlegt að vinna í.

Ég vil líka taka undir það með hv. þm. Kristjáni Möller sem sagði í ræðu sinni að framlög til umferðaröryggismála væru vitaskuld í engu samræmi við þörfina. Það er kannski ekki endilega við hæstv. samgrh. að sakast í þeim efnum en það breytir ekki því að framlög í þennan málaflokk eru ekki eins og þau þyrftu að vera.

Í svo stuttri ræðu sem leyft er að flytja hér um þessi mál er aðeins hægt að staldra við í nokkrum einstökum verkefnum. Það var hins vegar fróðlegt að hlýða á hæstv. forseta þingsins sem taldi mikilvægast að leggja vegi helst eins fjarri byggð og kostur væri og, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að þeim mun færri sem um þá færu þeim mun hagkvæmari gætu þeir verið. En það er ekki sú hugsun sem hér býr að baki.

[16:30]

Við hljótum að staldra við það sem sagt er í þessari samgönguáætlun um Suðurstrandarveg sem menn hafa haft hástemmdar yfirlýsingar um að nauðsynlegt væri að ráðast í og ekki síst hæstv. samgrh. og fyrrv. formaður samgn. Menn hafa gefið hástemmd loforð um að í þennan tiltekna veg yrði ráðist innan ekki langs tíma. Það er því eftirtektarvert að menn virðast ekki hafa hugsað sér að standa við gefin loforð í þessum efnum. Ég varð var við það í ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar áðan að hann hafði fyrirvara við að styðja þá samgönguáætlun sem hér liggur fyrir, þ.e. að kveðið yrði nánar á um Suðurstrandarveg. Það er kannski ekki nema von miðað við þau hástemmdu loforð sem gefin hafa verið um að í þennan veg yrði ráðist.

Það kom í fyrsta lagi fram í nál. er laut að kjördæmabreytingu að í þennan veg yrði ráðist. Hann var ekki síður áberandi í loforðum sem voru gefin á árinu 2000, þar sem menn héldu fundi með pomp og prakt, núv. hæstv. samgrh. og þáv. formaður samgn., þar sem lofað var háum fjárhæðum, 400 millj. eða svo til þessara vegaframkvæmda á næstu 2--3 árum. Auðvitað hljóta menn að kalla eftir efndum á slíkum loforðum. Eftir því verður að sjálfsögðu gengið þegar um þetta verður fjallað í hv. samgn.

Einnig er vert að nefna hér svokallaðan Ósabotnaveg milli Sandgerðis og Hafna sem ekki er inni á þessari áætlun. Einnig eru endurbætur á Hellisheiði, sem hæstv. ráðherra kom þó hér að í sinni framsöguræðu, sama marki brenndar. Ætlunin er ekki að ráðast í framkvæmdir þar þó að hér hafi verið gefin fögur fyrirheit um eitthvað slíkt. Um það er fátt að finna í þessari samgönguáætlun.

Í fjórða lagi vekur tenging Vestmannaeyja við fastalandið athygli. Ég tel, virðulegi forseti, að þessar byggðir eigi gríðarlega mikið undir því að ráðist verði í verulegar umbætur á þessu sviði. Það er hægt að taka undir það að hæstv. samgrh. brást við kröfu Vestmannaeyinga um fleiri ferðir á þann hátt að þeim var fjölgað. En ég held að flestir séu sammála um að núverandi fyrirkomulag er ekki í samræmi við þær kröfur sem menn gera til þessara mála, til samgangna á árinu 2003. Það er mikið áhyggjuefni að í áætlun til ársins 2014 skuli hvergi gert ráð fyrir bótum á þessu sviði. Hæstv. ráðherra talaði að vísu um í ræðu áðan að hann mundi beita sér fyrir rannsóknum á Bakkafjöru sem er út af fyrir sig góðra gjalda vert. Reyndar hefur það verið í umræðunni í nokkur ár en lítið orðið um efndir þannig að óþarft er að gera ráð fyrir að þau fyrirheit séu annað en innantóm kosningaloforð.

Það er ljóst að það þarf að ráðast í breytingar á þessu sviði. Þar hafa menn nokkra valkosti. Menn geta farið í að kaupa og endurbæta þá ferju sem nú fer á milli til að ná skemmri tíma á þeirri leið sem nú er siglt um, þ.e. Vestmannaeyjar/Þorlákshöfn og stytta siglingatímann sem er algerlega nauðsynlegt. Þessi tæplega þriggja tíma sigling hefur gert það að verkum að sú náttúruparadís sem Vestmannaeyjar eru hefur að miklu leyti dottið út af landakortinu að því er varðar ferðamenn sem til landsins koma. Það stafar fyrst og fremst af því að ferðaskrifstofur sem flytja fólk til landsins segja einfaldlega að það sé svo erfitt að skipuleggja ferðir til Eyja. Þangað sé ekki hægt að treysta á flug og svona langur tími í siglingu þýði að þarna þurfi menn að dvelja í heilan sólarhring, sem ferðaskrifstofurnar hafa ekki viljað leggja áherslu á. Þetta hefur gert það að verkum að Vestmannaeyjar hafa gefið mjög eftir í baráttu sinni við að fjölga ferðamönnum. Samkeppnisstaða þeirra hefur ekki verið sem skyldi. Ég met það svo að í raun sé þetta það fyrsta sem ég tel að við eigum að ráðast í, þ.e. að reyna að stytta leiðina á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar eins og kostur er. Menn hafa bent á ýmsar leiðir í þeim efnum, m.a. á framfarir í gerð ferja sem hægt væri að skoða mjög vandlega. Þess vegna þykir mér sorglegt að hvergi skuli koma fram í áætlun til ársins 2014 nokkrar hugmyndir um að ráðist verði í umbætur á þessu sviði.

Það er kannski fjarlægra en þó veit maður aldrei, þ.e. möguleiki á göngum sem væri vissulega varanleg lausn í þessum efnum. Engar alvörurannsóknir hafa farið fram á því sviði og því kannski erfitt að fullyrða um möguleikann. En það er einu sinni þannig að orð eru til alls fyrst og til að fá svör við því hvort möguleiki sé á að ráðast í slíka framkvæmd þurfa að fara fram rannsóknir.

Í þriðja lagi gefst leið sem hæstv. samgrh. gaf að því er mér fannst örlítið undir fótinn áðan í andsvari sínu, þ.e. að lausnin væri fólgin í að ráðast í hafnarframkvæmdir við Bakkafjöru. Ég held, virðulegi forseti, að ef sú ákvörðun verður ofan á séum við að tala um rannsóknir og framkvæmdir sem muni taka mörg ár. Ég met það svo að ekki sé hægt að bíða svo lengi. Það verður að ráðast í framkvæmdir eða aðgerðir sem tryggja að siglingaleiðin milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja verði styrkt með kaupum á öflugri og betri ferju. Hvort við eigum möguleika á göngum eða bættri hafnaraðstöðu við Bakkafjöru tel ég þurfa að skoða í framhaldi af slíkum úrbótum. Svona sé ég þetta.

Það er líka verðugt umhugsunarefni, þegar menn eru að tala um fjárhæðir á þessu sviði og hvernig forgangsröðun er oft og tíðum í framkvæmdum í þessum efnum, að menn hafa fullyrt í umræðu um þessi mál, þar hafa framsóknarmenn gengið hart fram, að hægt sé að fá mjög öflugar ferjur núna fyrir um það bil 500 millj. Það er brot af því sem kostar að ráðast í ýmsar framkvæmdir sem hér hafa verið kynntar. Ég held, virðulegi forseti, að forgangsröðunin sem birtist í þessari samgönguáætlun hvað þetta varðar sé algerlega óásættanleg. Ég trúi ekki öðru en að aðrir þingmenn úr Suðurkjördæmi, þingmenn Sjálfstfl. og Framsfl., muni leggja þessari baráttu lið. Það sér hver maður að þessi forgangsröðun er algerlega óásættanleg.

Ýmislegt annað má nefna í þessu sambandi, virðulegi forseti, en eins og ég nefndi horfa menn kannski fyrst og fremst hver á sitt kjördæmi og velta fyrir sér fjárframlögum sem til þess kjördæmis renna, hvernig þau eru nýtt og hvernig forgangsröðin er hugsuð. Þrátt fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar, sem ber að fagna, verður því vart á móti mælt að Suðurkjördæmið situr talsvert eftir í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir. Við munum án efa leggja því lið í meðförum samgn. að annaðhvort verði lagt meira fé til verkefnisins eða að forgangsraðað verði á annan hátt.