Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 17:10:51 (3387)

2003-02-04 17:10:51# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[17:10]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Háttv. forseti. Hvað varðar þessi jarðgöng verður ekki aftur snúið með þær ákvarðanir. Öll gögn og útboðslýsingar liggja fyrir þannig að það er ljóst hvaða leiðir hafa verið valdar. Ég tel að ekki sé lengur margra kosta völ í því.

Aðeins vildi ég nefna varðandi það sem kom fram hjá hv. þingmanni um flugvöllinn á Þingeyri. Það kemur fram í áætlununum að ráðgert sé að undirbúa framkvæmdir við lengingu Þingeyrarflugvallar þannig að hann geti nýst sem varaflugvöllur fyrir Ísafjarðarflugvöll. Í rauninni verða þeir þá reknir saman sem er afar mikilvægt fyrir svæðið, að Þingeyrarflugvöllur og Ísafjarðarflugvöllur geti virkað saman sem flugbrautir og þannig geti verið lengur opið. Ég geri ráð fyrir því að þegar rannsóknum verður lokið --- það þarf að undirbúa þær ákvarðanir mjög vel, það liggja ekki fyrir endanlegar rannsóknir um hvaða lausn eigi að velja í lengingu flugvallarins á Þingeyri --- eigi að undirbúa lengingu þess flugvallar við endurskoðun á áætluninni eftir tvö ár.

Hvað varðar flugvöllinn á Patreksfirði er Flugmálastjórn í vandræðum með reksturinn á ýmsum flugvöllum sem eru lítið notaðir. Ég tel að endurmeta þurfi hugmyndir og tillögur rekstrarmanna hjá Flugmálastjórn um að taka burt lýsinguna þar. Ég hef ekki fengið neina skýrslu um þær ákvarðanir frekar en hef gert ráðstafanir til að láta skoða það. Sá flugvöllur er að sjálfsögðu mikilvægur sem sjúkraflugvöllur en ég minni þó á það að þyrluþjónustan er í vaxandi mæli sú lausn sem sjúkraflutningarnir ganga út á.