Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 17:31:23 (3390)

2003-02-04 17:31:23# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[17:31]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Við erum að ræða það sem oft og tíðum er kallað mál málanna. Það má til sanns vegar færa að það sem kemur sér best fyrir alla landsmenn eru bættar samgöngur. Það er alveg sama hvert maður kemur, á Þórshöfn, Reykjanes eða hvort við erum í Reykjavík. Alls staðar er mikil áhersla lögð á þessi mál. En það verður þó að segjast að þeir hlutar landsins sem þarfnast mestra aðgerða eru Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Þar eru vegalengdir mjög miklar. Eins og hér hefur komið fram þarf að huga betur að 43% af grunnneti vegakerfisins á Norðvesturlandi. Þar er langt í land. Jafnframt verður að viðurkennast að á liðnum árum hefur, með auknum kröfum um betri vegi, betri vegarstæði og breiðari vegi, kostnaður aukist.

Ég get fyllilega tekið undir þær megináherslur sem menn hafa sett fram í þessum þáltill. í heildina frá 2003--2014 sem meginmál, að það muni ekki taka nema þrjá og hálfan tíma þegar upp er staðið að komast hvaðan sem er af landinu til Reykjavíkur.

Virðulegi forseti. Vegna umræðunnar sem hér hefur verið vil ég taka undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að ég tel að rétt hefði verið að taka ljósleiðaravæðinguna inn í þessa áætlun og örbylgjusambandið. Ef maður skoðar þetta á teikningum, eins og það liggur fyrir, sér maður greinilega hvað vantar hjá ákveðnum hluta landsmanna. Ég er tilbúinn að skilja þetta eftir þannig að menn geti velt þessu fyrir sér. Þetta eru mjög brýn verkefni sem þarf að koma í gang og tilheyra í raun öllu samgöngukerfinu.

Ég vil segja, virðulegur forseti, varðandi þessar þáltill. sem liggja fyrir varðandi árin 2003--2006 og 2003--2014, að flest sem þar er á ferðinni er kunnulegt. Áætlunin ber með sér að víða í þeim málum sem menn hafa hugsað sér að taka á eigi rannsóknir nokkuð langt í land. Þær eru skammt á veg komnar í mörgum tilvikum. Það er kannski sá hluti tillagnanna sem ástæða er til að gagnrýna. Spurningin er hvort við erum að gera rétt með því að setja aðeins 1% af því fjármagni sem til þessara verkefna fer í rannsóknir. Það eru svo gífurleg verkefni fram undan á þessu tímabili og svo margt sem breytist varðandi hagstærðir á 4--5 ára fresti. Það liggur auðvitað fyrir að endurskoða þessi mál eftir tvö ár og svo aftur eftir fjögur ár. En mér finnst þetta gagnrýniverðast eins og er. Þetta geta menn auðvitað séð með því að skoða tillögurnar, upptalningar þar. Þar má sjá að sums staðar er hönnun framkvæmda áætluð eftir því sem verkum vindur fram. Það er gengið út frá því á nokkrum stöðum. Ég gæti þess vegna tínt til þessi atriði til úr áætluninni.

Ég ætla að benda á nokkur atriði til að styðja mál mitt frekar og nefni sem dæmi hugmyndir varðandi þverun Mjóafjarðar í Djúpi um Hrútey. Ég tel augljóst af blaðafregnum frá því í gær, þar sem rætt er við eiganda Hrúteyjar, að langt ferli sé eftir varðandi endanlega ákvörðun í því máli. Þó er það svo að 1991 var sagt að árið 2000 skyldi lokið við klæddan veg um Djúp. Núna eru menn komnir niður á að það verði ekki fyrr en eftir árið 2014, að klæddur vegur verði kominn um Djúp samkvæmt þessum áætlunum.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að benda á fyrirliggjandi tillögur frá 1997, samþykktar af sveitarfélögum á Vestfjörðum, um athuganir og rannsóknir vegna hugmynda um jarðgöng og styttingu vegalengda milli svæða. Það er að mjög mörgu að hyggja. Auðvitað gera menn ekki allt í einu en það er hægt að leggja meiri fjármuni í rannsóknir til að menn eigi hægara með að taka ákvörðun.

Rannsóknarvinnunni væri hægt að sinna með því að taka fólk af atvinnuleysislistunum sem núna liggja fyrir. Það er staðreynd að fjöldi fólks með tækniþekkingu er atvinnulaust. Það gæti unnið undir stjórn sérfræðinga við þessi verk sem fyrir liggur að fara þarf í. Það er svo gífurleg vinna að gera úttektir á þeim möguleikum sem menn hafa verið að ræða um og m.a. liggja fyrir í þessari tillögu frá sveitarfélögunum á Vestfjörðum frá 1997. Ég hvet eindregið til að hraða vinnu sem er nauðsynleg varðandi ákvarðanatöku um tillögur að vegarstæðum, hvort sem menn eru að ræða um að fara gegnum fjöll, yfir fjöll eða yfir firði.

Ég tel einsýnt og vil koma því að strax, virðulegi forseti, að menn verði að horfa á tillögur um veg um Arnkötludal sem mikilsverða leið úr Ísafjarðardjúpi til suðvesturs sem mundi stytta vegalengdina um nákvæmlega 44 km eftir því sem mér er sagt. Umræðan um að þarna sé mikið og erfitt snjóasvæði fer engan veginn saman við það sem heimamenn sem þarna hafa alist upp segja. Orkubúsmenn sem farið hafa þessa leið segja að þarna sé ótvírætt vegarstæði sem skoða þurfi möguleikann á og ég hvet eindregið til þess að menn fari að vilja heimamanna og samþykktum varðandi þetta mál. Ég tel að þetta vanti inn í þær tillögur sem við höfum í höndunum núna. Ég verð að segja að mig grunar að á leiðinni frá Brú í Hrútafirði til Hólmavíkur séu tálmar sem mjög erfitt verður að ráða við. Ég tel að menn muni þurfa að endurskoða ákvarðanir varðandi þá leið. Tálmarnir sem ég er að tala um eru Ennishálsinn og Stikuhálsinn. Menn þurfa að setjast niður og velta fyrir sér hvernig hægt er að leysa þetta.

Um veg um sunnanverða Vestfirði er margt að segja. Rannsóknir um möguleika á jarðgöngum úr Dýrafirði í Arnarfjörð og fleiri hugsanlega möguleika, svo sem eins og hér hefur verið getið um, þ.e. frá Ísafirði í Djúp til Kollafjarðar. Ég tel reyndar að það þurfi að kanna möguleika á jarðgöngum úr Dýrafirði í Vatnsfjörð og reikna út hagkvæmni frá öllum þekktum staðreyndum. Ég er, virðulegi forseti, ekki að segja að hefja þurfi framkvæmdir við þetta en þessa möguleika þarf að rannsaka. Þess vegna er ég að tala um að leggja þurfi meiri fjármuni í rannsóknir.

Við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur veglínu sem gæti þverað Þorskafjörð úr Skálanesi til Reykhóla sem oft hefur verið talað um. Þetta eru auðvitað framkvæmdamöguleikar sem menn þurfa að skoða þó þeir séu ekki næstir á dagskrá, það er mér alveg ljóst.

Við getum litið til Norðurlands. Þar hafa menn vakið máls á mörgum möguleikum sem ekki hafa verið mikið skoðaðir svo sem styttingu á leiðinni til Reykjavíkur í nágrenni Blönduóss, hraða gerð vegar um Þverárhlíðarfjall, sem mundi stytta ferðatíma til Reykjavíkur verulega. Það hafa verið vangaveltur um styttingu vegarins á milli Hofsóss og Sauðárkróks meðfram ströndinni með brú á Kolku úti undir ósnum svo að eitthvað sé nefnt. Það hefur svo sem ekki verið rætt mikið um viðhald en það er þáttur sem nauðsynlegt er að endurskoða. Þá er ég að tala um viðhald vega um sumarhúsabyggðir víða á landinu. Þeir hafa horfið úr viðhaldi raunverulega vegna þess að jarðir sem voru á svæðinu áður hafa lagst í eyði. Þar með hefur viðhaldið fallið niður. Ég get nefnt dæmi um þetta frá Vesturlandi, upp með Langá á Mýrum inn í Skorradal og fleiri stöðum svo að eitthvað sé nefnt.

Þjóðvegir á Vesturlandi eru auðvitað þáttur sem nauðsynlega þarf að skoða. Þar er fyrst að nefna veg um Svínadal sem er á áætluninni. Menn eru orðnir langeygir eftir þeim vegi og veginum um Skógarströnd, um Snæfellsnes, þ.e. innan Snæfellsbæjar. Þar liggur fyrir að menn geta gripið til atvinnuátaks nú þegar. Þar eru margir kaflar nánast tilbúnir fyrir framkvæmdir ef menn vilja setja í það fjármuni.

Ég nefndi tæknifólkið fyrr í ræðu minni, virðulegur forseti. Nú nefni ég til sögunnar fjölmarga vinnuvélaverktaka sem ekkert hafa haft að gera fyrir tæki sín um langt skeið og hafa orðið að segja upp fólki í stórum stíl, fólki sem hefur unnið hjá viðkomandi fyrirtækjum í áraraðir. Þetta kallar á ákvarðanir. Ég hef ekki nefnt það sem mér er mjög hugleikið og hef flutt tillögu um, þ.e. brú yfir Grunnafjörð og rannsóknir og úttektir sem þarf að gera þar vegna þess að það svæði er svonefnt Ramsar-svæði. Það er margt sem þarf að skoða í því samhengi.

Ég vil segja, vegna orða hv. þm. Halldórs Blöndals þar sem hann er að velta fyrir sér vegi yfir hálendið, að ég mun leggjast gegn vegi þar um þar til fullkomlega er lokið við hringveginn. Rannsóknir geta farið fram, ég get fallist á það, eins og í mörgum öðrum tilvikum en ég tel að það sé ekki á dagskrá að svo komnu máli.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ræða mál sem mér er ákaflega hugstætt, þ.e. gjaldtöku vegna umferðar um Hvalfjarðargöng. Mig langar að nota þetta tækifæri til að benda á nokkur atriði sem rökstuðning fyrir lækkun á gjaldi gegnum göngin. Ef sá sparnaður sem ríkissjóður hefur af þessari samgöngubót kæmi til stuðnings við greiðslur Spalar hf. af stofnfjárkostnaði þessa samgöngumannvirkis mætti ugglaust lækka gjöldin í gegnum göngin umtalsvert. Rökstuðningur minn fyrir þessu á hendur ríkissjóði er eftirfarandi: Fjárveiting til Akraborgar sem ríkisstyrkur hefur fallið niður. Viðhald vegar um Hvalfjörð hefur snarminnkað, samanber niðurfellingu fjárveitingar til byggingar tvíbreiðrar brúar yfir Laxá í Kjós. Slysahætta hefur minnkað og það skilað miklum fjármunum sem betur. Ég veit að það hefur sparað ríkinu ómældar fjárhæðir.

Mér finnst, virðulegur forseti, álitamál hvort íbúar Vestur- og Norðurlands eigi að bera mesta hitann og þungann af þessari samgöngubót. Í því sambandi vil ég minna á að þegar Reykjanesbraut var lögð bundnu slitlagi átti að greiða þá framkvæmd með vegtolli. En því var hætt eftir nokkur ár að kröfu Suðurnesjamanna sem töldu að þeim bæri ekki að bera hitann og þungann af þeirri framkvæmd. Það eru nákvæmlega sömu rök og ég er hér að leggja fram. Ég get líka bent á að nýhafin er framkvæmd við tvöföldun Reykjanesbrautar, alfarið á kostnað ríkisins eins og verið hefur með allar aðrar ganga- og vegaframkvæmdir á Íslandi til þessa.

Ég benti á að ríkið sparar sér ómældar krónur í viðhaldi og rekstri þessa hluta þjóðvegakerfis landsins. Allt það sem ég hef talið upp sem rök tel ég fullgilda kröfu um að ríkið komi á móti þeim óumdeilda sparnaði sem það hefur haft af þessu samgöngumannvirki. Einn möguleikinn er að greiða styrk til Spalar sem mundi þá lækka gjöld vegna umferðar um göngin sem styrknum næmi. Ég bendi á það enn sem áður að fjölmargir einstaklingar sækja nám eða vinnu frá Akranesi til Reykjavíkur eða öfugt. Þeir greiða hátt í 300 þús. kr. á ári í ferðakostnað vegna umferðar um göngin. Þessu tel ég að menn verði að taka á. Ég tel að þessi krafa sé sanngjörn og get ekki annað en tekið undir með þeim áhugahópum sem nú þegar eru farnir að vinna og ræða þessi mál. Ég held að ég hafi verið með þeim fyrstu sem setti fram í grein rök fyrir því að skoða þyrfti þessi mál. Ég hef ekki sett fram stífar kröfur en ég bendi á þessi rök sem ég hef tínt til.