Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 17:50:22 (3392)

2003-02-04 17:50:22# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[17:50]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir svarið en það sem ég er að setja fram hér með umræðum um örbylgjuloftnet og ljósleiðaravæðingu --- ég er raunverulega að gefa ábendingu um að þessi fyrirtæki, sem eru í samkeppni, sinna aðeins þeim stöðum sem þeir telja sér hagstætt. Þess vegna verður ljósleiðarakerfið svo götótt sem sjá má af þessari teikningu sem ég er með hér. Örbylgjuloftnetskerfið er götótt og þess vegna tel ég að við þurfum að setja fram kröfu um að ef þessir aðilar eru hér á markaði verði þeir að gjöra svo vel að ganga til þess verks að veita þjónustu, eins og yfir til Hólmavíkur, Drangsness og fleiri staða þar sem eru göt í kerfinu. Og ég get farið allan hringinn og sýnt götin.

Varðandi gjaldið gegnum Hvalfjarðargöng, það sem ég var að ræða um tel ég vera þung og mikilvæg rök fyrir því að setja þessa kröfu fram sem ég hef verið hér með, að vigta upp þann sparnað sem hefur orðið vegna þessarar gangagerðar og að menn reikni það inn og lækki gjaldið sem því nemur. Ég er ekki að tala um að fella niður gjald, ég er að tala um að skoða þann sparnað sem orðið hefur vegna ganganna. Það er ekkert eðlilegt að fyrirtækið Spölur gangi fram fyrir skjöldu og geri þessa kröfu. Það er eðlilegt að fólkið í Norðvesturkjördæmi, á Vesturlandi og á Norðurlandi, geri hana. Og ég hef tínt hér upp veigamikil rök sem lúta að ferðamannaiðnaðinum. Vesturland er sannarlega skert vegna þess að fólk lítur til kostnaðar að fara í gegnum göngin fyrir 2.000 kr.