Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 18:09:41 (3396)

2003-02-04 18:09:41# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[18:09]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þm. nefndi hv. þm. Hjálmar Árnason, já, þá var ég hér í salnum þegar hann hélt sína ágætu ræðu. Hann kvað alveg skýrt á um að hann hefði fyrirvara á stuðningi við þessa þáltill. ríkisstjórnarinnar og hæstv. samgrh. og sagði það fullum fetum. Það gerði hv. þm. Kjartan Ólafsson ekki. Mig langar þess vegna að árétta þessa spurningu: Gerir hann fyrirvara um stuðning sinn við þessa skammtíma- og langtímaáætlun hæstv. samgrh.?

Að sönnu er hárrétt að auðvitað mun þingið fara höndum um málið og gera vonandi nokkrar lagfæringar á áætluninni. Sumpart er hún ágæt og sumpart er hún gölluð eins og önnur mannanna verk. En það stendur upp úr að Suðurstrandarveg vantar. Og ekki nóg með það, í langtímaáætlun er gert ráð fyrir því að eingöngu helmingur þess fjár sem þörf er á verði til staðar á þessum næstu 12 árum. Með öðrum orðum, ef haldið verður áfram með sama hraða tekur það 24 ár að ganga frá Suðurstrandarvegi sem gefin voru fyrirheit um í þingskjali þegar gerð var breyting á kjördæmaskipan á síðasta kjörtímabili.

Það verður að vera nokkuð skýrt, herra forseti, og það verður að vera hægt að taka menn trúanlega þegar þeir koma í þennan stól. Menn verða að skilja nákvæmlega hvað þeir eru að segja. Þess vegna árétta ég spurningu mína til hv. þingmanns og undirstrika enn og aftur að ég er honum hjartanlega sammála: Ætlar hann að fylgja eftir sannfæringu sinni í þessu máli eða láta duga að slá hér úr og í og lýsa því yfir hvað hann vildi helst sjá? Hann má ekki gleyma því að hann er hluti af þessu stjórnarmeirihlutaliði hér. Ætlar hann að standa fast í báða fætur og láta sannfæringu ráða för eða ætlar hann að guggna á miðri leið?