Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 18:13:07 (3398)

2003-02-04 18:13:07# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[18:13]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að fara yfir málin með þeim hætti sem gert er í þessum áætlunum sem liggja fyrir. Ég held að þáltill. um samgönguáætlun til 2014 sé mjög gagnlegt plagg fyrir menn að hafa í höndunum. Auðvitað verða menn samt að muna sífellt eftir því að hér er um að ræða áætlun og margt fer öðruvísi en menn ætla.

Mér dettur nú í hug að nefna miklar fyrirætlanir um tengingu við Reykjavík, Sundabrautina. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum þegar ég var í samgn., líklega var það 1992 eða 1993, kom borgarverkfræðingur á fund samgn. og þá voru menn að tala um að Sundabrautin þyrfti að vera komin í gagnið eftir átta ár. Þau átta ár eru nú liðin og nokkuð mikið meira en það, og nú eru menn að tala um að hefja framkvæmdir við Sundabraut árið 2006. Þannig breytast þær hugmyndir sem menn hafa um stórar framkvæmdir og þess vegna á svona áætlun, þótt gagnleg sé, eftir að taka miklum breytingum.

Mig langar til þess að fara yfir og nefna nokkur atriði í fjögurra ára áætluninni. Ég ætla fyrst að bera niður þar sem verið er að fjalla um áhættumat á fiskiskipum. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að hér eru menn að setja sér markmið til þess að taka á mjög brýnum málum hvað varðar öryggisatriði í fiskiskipum. Ég held að rétt sé að nefna þetta hér og að ástæða sé til þess að þingmenn gefi gaum að þessu og fylgist með því sem verið er að gera á vegum hins opinbera hvað þetta varðar.

Það er margt sem menn vilja skoða, m.a. stendur hér, með leyfi forseta:

[18:15]

,,Rannsóknir sem tengjast öryggi sjófarenda.`` --- Þar er verið að setja peninga í þetta á næstu tveimur árum. --- ,,Árlegur kostnaður fyrsta árið er áætlaður 5 millj. kr. en síðar 10 millj. kr. á ári.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Á síðari tímabilum áætlunarinnar verður aukin áhersla lögð á að vinna úr niðurstöðum rannsókna á sjóslysum og kappkostað að lærdómur, sem af þeim má draga, skili sér inn í reglur um öryggi skipa og áhafna.``

Það var kannski þetta sem fékk mig til að fara að tala um þessa hluti, að mikil ástæða er til að endurskoða vinnubrögðin við rannsóknir sjóslysa og reyna að koma þeim lærdómi sem af því má draga, þegar eitthvað gerist til sjós, til þeirra sem stunda sjóinn. Ég held að oft hafi pottur verið brotinn hvað þetta varðar og það hefði mátt læra af sumum slysum meira en raunin hefur orðið á. Batnandi mönnum er best að lifa og ég vona að hið opinbera muni fylgja þessu eftir eins og þarna er full ástæða til að halda að gert verði.

Síðan eru nefnd umhverfismál, m.a. talað um að leita leiða til að farga úreltum skipum. Við ræddum það mál fyrir nokkrum dögum og það hefði verið fengur að því ef hæstv. ráðherra hefði sagt okkur hvaða ráð hann hefur undir sínum rifjum, hvaða hugmyndir hann hefur um hvernig eigi að taka á þessu máli. Það er sannarlega ástæða til að gera það, og gera það sem allra fyrst. Þessi skipakirkjugarður sem liggur við bryggju er til mikillar bölvunar.

Þá langar mig að nefna það sem mér sýnist að áætlunin beri með sér hvað tekjur snertir, að greinilega er gert ráð fyrir að óbreytt ástand ríki hvað varðar innheimtu á gjöldum af umferðinni og ekki reiknað með því að það frv. sem liggur fyrir þinginu um breytingu á þungaskattinum verði að veruleika. Nú kann vel að vera að þannig verði menn að vinna vegna þess að lögunum hefur ekki verið breytt en þetta er áætlun og mér verður á að spyrja hæstv. ráðherra: Er hann algjörlega vonlaus um að frv. um breytingarnar gangi í gegn í þinginu? Eru áætlanirnar sem þar eru þá einskis virði þegar á að skoða þessa hluti?

Það slær mig að þannig sé þetta því að hæstv. ríkisstjórnir sl. tólf ár hafa allar gefist upp við það að koma þessu máli í gegn. Stundum hafa verið samþykkt lagafrv. og dregin til baka aftur en aldrei hefur mönnum tekist að sigra þennan andstæðing sem virðist vera einhvers staðar og kemur í veg fyrir að menn geti gert slíka breytingu á innheimtunni.

Þá langar mig að nefna framlög vegna jarðganga. Hér stendur, með leyfi forseta, á bls. 92:

,,Við afgreiðslu vegáætlunar 2000--2004 á Alþingi vorið 2000 var tekin ákvörðun um að veita umtalsvert fjármagn úr ríkissjóði til vegamála og þar á meðal til jarðgangagerðar. Fjár til jarðgangagerðar var ætlað að afla meðal annars með sölu ríkiseigna. Gert er ráð fyrir að 1.200 millj. kr. komi á árinu 2003, 1.500 millj. kr. árin 2004 og 2006 en 2.200 millj. kr. árið 2005.``

Hér virðist vera átt við að um sé að ræða fjármuni sem koma vegna sölu ríkiseigna, og allt á þetta fé að renna til jarðgangagerðar á þessum árum sem segir okkur að allir þessir fjármunir fari til jarðgangagerðar á norðausturhluta landsins. Nú ætla ég ekki að gera athugasemdir við það. Ég geri hins vegar athugasemdir við að ekki skuli vera gert ráð fyrir að nota neina fjármuni vegna sölu ríkiseigna til samgöngu- eða annarra mikilvægra mála sem varða byggðarlögin annars staðar á landinu. Mér finnst það ekki vansalaust að menn skuli standa frammi fyrir því að öllum þessum gífurlegu fjármunum sé þarna varið í þessi efni, sem enginn er að mótmæla út af fyrir sig að sé gert, en að þess sé ekki gætt að benda á að teknar verði ákvarðanir um að nýta fjármuni vegna sölu ríkiseigna annars staðar á landinu líka.

Hæstv. forseti. Það er margt ánægjulegt í þessari áætlun og ég verð að segja að mér finnst gaman að því að nú skuli það liggja fyrir að bjóða eigi út framkvæmdir við mikilvæga vegi á Vesturlandi. Brattabrekka, það sér fyrir endann á þeirri góðu framkvæmd, og fyrir liggur að nú eigi að fara að bjóða út veginn yfir Kolgrafarfjörð. Það er auðvitað hið besta mál og mun gera allt samstarf og samgöngur milli sveitarfélaganna á Snæfellsnesi miklu betri en þær hafa getað orðið fram að þessu.

Talað er um að bjóða út tvær framkvæmdir, þ.e. veginn yfir Kolgrafarfjörð --- það hefur verið nefnt sem hluti af flýtingu framkvæmda. Ég get ekki litið þannig á að þar sé um að ræða flýtingu framkvæmda vegna þess að yfirlýsingar lágu fyrir um það að fara í þá framkvæmd nokkru fyrr heldur en nú liggur fyrir að gert verður. En nú er það að gerast og allt gott um það að segja. Ég hefði áhuga á að heyra hjá hæstv. ráðherra svolítið betur hvaða framkvæmdir það eru sem hann telur að muni verða hraðað eitthvað sem heitir, eitthvað sem munar um, og hvað mikla fjármuni hann sér fyrir sér sem muni koma í þær framkvæmdir eða flýting fjármuna í þær framkvæmdir sem mest munar þá um í þessu.

Mig langar til að nefna eitt vegna þess að hv. þm. Gísli Einarsson fjallaði hér nokkuð veggjaldið. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra og bæta aðeins við þá umræðu hvernig hann sjái fyrir sér þau nýju göng sem nú stendur til að fara að vinna við austur á landi, hvort einhvers konar veggjald verði innheimt í gegnum þau eða hvar það mál sé á vegi statt. Liggur fyrir hvað menn ætla sér með það? Ég tel nefnilega að þegar þau göng verða tekin í notkun muni menn standa frammi fyrir því að þurfa að hafa uppi einhverja stefnu hvað varðar innheimtu gjalds vegna nýtingar á slíkum mannvirkjum. Ég hef áður bent á að vel mætti hugsa sér að einhvers konar sjóður sem sæi um slík mannvirki tæki að sér rekstur allra þessara mannvirkja, og þá yrði hægt að innheimta miklu lægra gjald en nú er innheimt í gegnum Hvalfjarðargöngin í þau nýju göng sem um væri að ræða, líka þau fyrir austan. En það yrði þá auðvitað miklu lægra gjald en hér er verið að tala um. Þetta er leið sem ég tel ástæðu til að skoða, og líka hina leiðina að leggja af að innheimta gjöld fyrir að fara í gegnum Hvalfjarðargöngin. Auðvitað er hægt að taka þetta gjald allt saman í þeim tekjustofnum sem fyrir hendi eru.

Samgöngumálin eru náttúrlega fyrst og síðast byggðamál og undirstaða þess að búa í landinu. Mér finnst að það sé hlutur sem allir þingmenn skilja og ég held að engin ástæða sé til að tortryggja nokkurn mann á hv. Alþingi um góðan vilja til þess að taka á í samgöngumálum. Þetta eru gífurlega dýrar framkvæmdir sem um er að ræða og menn getur auðvitað greint á um forgangsröðun og hvar eigi að bera niður. Mér finnst samt sem áður að dálítið vanti í þessa vegáætlun og sjálfsagt vantar það víðar. Mér finnst að líta þurfi yfir málin í heild á svæðum með tilliti til byggðanna. Ég held að það sé ekki vansalaust að menn hafi ekki látið fara fram skoðun á því hvernig má best tengja Vestfirði við landsnetið og ég held að það sé ekkert einsýnt að þær áætlanir sem hafa verið uppi séu þær einu réttu í því efni. Maður gæti jafnvel látið sér detta í hug að einhvers konar samkeppni milli manna sem kunna fyrir sér í þessu efni væri bara látin fara fram og í þeirri samkeppni væri gert ráð fyrir tiltölulega grófum kostnaðaráætlunum þannig að menn gætu skoðað hina ýmsu kosti og menn létu þarna gamminn geysa því að þetta eru auðvitað gífurlega dýr verkefni sem um er að ræða, að tengja þennan landshluta almennilega við landskerfið og tengja byggðarlögin saman sem þarna eru á þessu svæði. Mér finnst að það þurfi á því að halda að farið sé yfir þessa möguleika. Þeir eru fjölmargir, menn ræða þetta sín á milli og velta þessu fyrir sér fram og til baka, en það er ekki til heildstæð samantekt á þessum möguleikum og það væri virkilega gaman að sjá nokkrar hugmyndir settar saman um það hvernig hagkvæmast væri að vinna að þessum málum.

Ég tók eftir því að sjálfstæðismenn á Vestfjörðum héldu fund og gerðu harða hríð að félögum sínum, nú þyrfti að standa við stóru orðin og gera betur hvað varðar vegtengingar til Vestfjarða. Sjálfstæðismenn brugðust við hratt og sendu samgöngunefnd sína vestur á firði og þar hélt hún fund til að fara yfir þessi mál. Ég veit ekki hvað hefur komið út úr þeim fundi en ég minnist þess að hafa rekist á hv. formann samgn. á þessum slóðum þar sem hann var að ræða við sína menn um það hvernig ætti nú að taka á þessum málum. Það verður auðvitað gaman að sjá hvað kemur upp úr þeim poka. En mér finnst vera full ástæða til þess að menn yfirfari þessa hluti virkilega vel og setji þessi mál fram upp á nýtt. Ég legg til að menn leiti leiða til að skoða nokkrar hugmyndir þannig að menn geti borið þær saman og að reynt verði að finna fjármuni til að setja í þessa hluti, og því ekki eitthvað af þeim peningum sem koma inn fyrir sölu ríkiseigna?