Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 18:31:21 (3400)

2003-02-04 18:31:21# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[18:31]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst ekki boðlegt að það verði frítt í göngin fyrir austan en menn haldi áfram að borga svona háar fjárhæðir fyrir að nýta göngin undir Hvalfjörðinn. Mér finnst það ekki boðlegt. Ég held að menn þurfi að endurskoða það áður en þau göng verða opnuð.

Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum með seinna svarið --- hitt vissi ég nú nokkuð fyrir --- að það sé einungis verið að flýta af stað þeim framkvæmdum sem eigi að fara í gang á þessu ári. Það er út af fyrir sig hið besta mál að menn reyni að koma þeim sem allra fyrst af stað. En við þingmenn Samfylkingarinnar af norðvestursvæðinu fluttum þáltill. í haust með það í huga að reynt yrði að taka inn og flýta framkvæmdum, og þá á ég ekki við að flýta þeim innan ársins, ekki bara það, heldur flýta framkvæmdum sem lægju fyrir og hægt væri að vinna að, hægt væri að setja aukna fjármuni í og nota það svigrúm sem nú er áður en aðalframkvæmdakúfurinn kemur í virkjununum fyrir austan og þannig væri tekið virkilega á í einhverjum samgöngubótum sem væru nú þegar í gangi. Ég nefni dæmi. Það mætti t.d. kannski herða verulega á framkvæmdum við Þverárfjallsveg eða einhver slík önnur mannvirki sem eru í gangi eða einhverjar af þeim framkvæmdum á Vestfjörðum sem eru þegar í gangi, setja viðbótarpeninga í að hraða þeim verkum. Það gæti þá komið til baka jafnvel eftir tvö eða þrjú ár vegna þess að þá væri búinn hluti af þeim verkum sem þar hefðu verið áætluð.

Mér finnst einhvern veginn að ekki sé alveg nógu hratt tekið til handa hjá hæstv. ráðherra og ég skora á hann að sjá til þess að það verði.