Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 18:33:32 (3401)

2003-02-04 18:33:32# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[18:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ekki alls fyrir löngu kom fram hjá vegamálastjóra --- það mun raunar í hafa verið framhaldi þess að núgildandi vegáætlun til fjögurra ára var samþykkt --- að hann hefði nokkrar áhyggjur af því að afkastageta tæknimanna í landinu, verkfræðistofanna og Vegagerðarinnar, væri ekki meiri en svo að menn væru í hálfgerðum vandræðum með að ljúka undirbúningi og hönnun við öll þau verk sem vegáætlun gerir ráð fyrir. Ég held að enn þá sé svo að heilmikið sé til í þessu. Vegagerðarmenn og hönnuðir vinna núna hörðum höndum að því að undirbúa öll þessi verk. Þau gerast stöðugt flóknari. Umhverfismatið flækir málið afar mikið. Ég vil bara segja að þó umhverfismat sé jákvætt þá flækir það og seinkar öllu í kringum þessar framkvæmdir. Það liggur alveg fyrir. Og skipulagsmálin, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, hafa seinkað þessum verkum.

Aðalatriðið er að ríkur vilji er til þess að koma þessum verkum af stað og í útboð. Ég held að þegar á heildina er litið og sanngirni gætt í þessu mati þá standi menn allbærilega að því að koma verkum af stað. En auðvitað er mikil óþreyja hjá fólki sem vill sjá verkin komast af stað og þeim lokið. Við sjáum bara framkvæmdir eins og við Bröttubrekku, við breikkun Reykjanesbrautarinnar, mislæg gatnamót o.s.frv. Það er af nógu að taka. En aðalatriðið er að þessar stofnanir samgöngumála og þeir starfsmenn sem þar eru leggja sig mjög fram um að undirbúa og ljúka því sem þarf áður en framkvæmdir geta hafist.