Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 18:35:43 (3402)

2003-02-04 18:35:43# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[18:35]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég reiknaði bara með því að menn væru búnir að taka saman og fara yfir þau verk sem væru á því stigi að búið væri að ljúka þessum hlutum sem hæstv. ráðherra nefndi og að þar væri nú af einhverju að taka. Ef menn settu umtalsverða fjármuni í þessa hluti núna, eins og þeir eru tilbúnir að gera í önnur verkefni sem eru mjög skammt undan, þá væri um að ræða möguleika til þess að flýta mikilvægum framkvæmdum. Það finnst mér skipta verulega miklu máli, sérstaklega vegna þess að allir gera ráð fyrir því eins og sakir standa að afturkippur muni verða hvað svona verkefni varðar þegar hæsti kúfurinn verður í framkvæmdunum fyrir austan. Ég tel þess vegna fulla ástæðu til þess að brýna hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina til að taka nú á eins og mögulegt er á meðan sá möguleiki er fyrir hendi. Greinilegt er að þjóðfélagið þolir prýðilega innspýtingu núna þessi missiri sem fram undan eru. Atvinnuleysi er að aukast og verktakar bíða verkefnalitlir og jafnvel verkefnalausir sumir hverjir og það mun örugglega sjást á þeim áhuga sem mun koma fram í þeim útboðum sem fram undan eru.