Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 18:37:30 (3403)

2003-02-04 18:37:30# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[18:37]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á margt í ræðu sinni og m.a. gat hann um Sundabraut og talaði um þann tíma sem væri liðinn frá því talað hefði verið um að ráðast í þær framkvæmdir. Þetta er alveg rétt. En ef við rifjum það aðeins upp þá hefur nú gengið á ýmsu í skipulagsmálum og ákvarðanatöku borgaryfirvalda, þ.e. Samfylkingarinnar eða R-listans, um það hvernig skuli með fara.

Það er dálítið athyglisvert líka að hlusta á þá umræðu sem fram hefur farið í dag um skiptingu fjármagns til framkvæmdanna. Þingmenn hafa auðvitað talað mest um það sem snýr að þeim, þeirra eigin kjördæmi, en kannski ekki litið yfir veginn allan. Þegar til þess er litið að við höfum ekki nema takmarkað fjármagn til skiptanna þá er afar brýnt og mikilvægt að horft sé á hvar þörfin er mest. Svo hefði Reykjavíkurborg eða borgaryfirvöld mátt standa betur að málum en raun ber vitni, t.d. varðandi Sundabraut og allan þann drátt sem þar hefur orðið á og mislæg gatnamót Kringumýrarbrautar og Miklubrautar. Fleiri verkefni mætti telja.

Síðan er athyglisvert að fulltrúar Samfylkingarinnar, R-listans í Reykjavík, koma og segja: ,,Ja, við viljum bara byggja einhverja heljarmikla járnaborg upp í loftið til að brúa hér sundin.`` En þegar bent er á að þessi leið er þremur milljörðum dýrari en ef farin væri hin eðlilega leið þá er sagt: ,,Þrír milljarðar, hvað er það? Það er bara ekki neitt.`` Á sama tíma segja þessir sömu borgarfulltrúar: ,,Við ætlum að loka barnaheimilunum hérna í sumar í einn mánuð til að spara 12 millj.`` En hér er verið að tala um þrjá milljarða. Allt skiptir þetta máli fyrir samgöngumál okkar Íslendinga. Það skiptir máli hvernig haldið er á, hvernig raðað er upp og auðvitað eigum við að horfa á forgangsverkefni.