Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:27:18 (3413)

2003-02-04 20:27:18# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:27]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það væri ánægjulegt og gagnlegt ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar væru jafneinarðir í því að mæla fyrir vegabótum þar sem verulega þarf á því að halda í öðrum kjördæmum til þess að saman lægju betur hin nýju kjördæmi.

Ég tel að það sé ekki frágangssök fyrir íbúa í Suðurkjördæmi þó að eitthvað hægi örlítið á framkvæmdum við Suðurstrandarveginn miðað við þær miklu og góðu samgöngur sem eru á því svæði, miðað við það sem er t.d. í Norðvesturkjördæmi eða á Austurlandi þar sem samgöngur eru eins og þær eru. Mér finnst skjóta mjög skökku við þegar hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson lætur að því liggja að það sé forsendan fyrir kjördæmabreytingunni að Suðurstrandarvegurinn komi. Auðvitað á hann að koma og hann mun koma. Og það eru yfir 100 millj. nú þegar til framkvæmda á Suðurstrandarvegi. Það verður á þessu áætlunartímabili sem nú er, fyrsta fjögurra ára tímabilinu, hægt að hefja framkvæmdir þar fyrir það fjármagn sem til er. En það liggur alveg ljóst fyrir að við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti í því sem öllu öðru. Ég held að hv. þm. ætti að snúa sér til þess verks, ef ekki eru fyrirmæli um annað frá æðri máttarvöldum Samfylkingarinnar, að standa með okkur að uppbyggingu vegakerfisins í öðrum kjördæmum þar sem samgöngurnar eru miklu verri en er í Suðurkjördæmi þar sem samgöngur eru mun betri en víðast hvar annars staðar.

Hvað varðar hafnasamlag Suðurnesja veit ég að þar eru viss vandamál vegna fjárfestinga. En það er alveg ljóst að engin fyrirheit liggja af hálfu samgönguyfirvalda, svo ég viti, til að standa fyrir einhverjum stuðningsaðgerðum umfram það sem reynt er að sjálfsögðu að gera gagnvart höfnunum, og verður ekki síst gert ef okkur tekst að breyta hafnalögunum.