Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:55:40 (3425)

2003-02-04 20:55:40# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:55]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en tel þó mikilvægt að koma að nokkrum atriðum.

Ég vil byrja á að nefna það að ég hef minni áhyggjur af því hvað á að selja og sé ekki ástæðu til að spyrja hæstv. núv. samgrh. um hvað eigi að selja allt til ársins 2010. Ég verð nú að játa að það heldur ekki fyrir mér vöku. Ég hef trú á að hæstv. ráðherra klári þetta kjörtímabil og síðan ber ég þær vonir í brjósti að aðrir muni taka við þessu embætti. Mér finnst því ástæðulaust að reyna að kvelja hæstv. núv. samgrh. með því að þaulspyrja hann út í hvaða eignir eigi að selja.

Ég get hins vegar upplýst það að oddviti ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., hefur sagt að þær eignir sem verið er að selja núna fari allar í að greiða niður erlendar skuldir, meira og minna. Það er a.m.k. ekki hugmyndin sem fram hefur komið, að fjármagna þá jarðgangagerð sem hæstv. ráðherra talaði um áðan af þeirri sölu. Ég held að síðari tíma sala verði ekki á könnu hæstv. ráðherra. hvort eð er.

En varðandi það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan í ræðu sinni og hefur talað talsvert um í dag, að aldrei áður hafi jafnmiklir fjármunir verið lagðir í samgöngumál, verð ég að segja að ég held að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra. En við verðum líka að hafa í huga að hagkerfið hefur þanist verulega út undanfarin ár. Ríkissjóður er að véla um hærri fjárhæðir. Ég held að hækkun á útgjöldum ríkissjóðs frá 1996 séu um 130%. Maður skyldi því ætla að hærri fjárhæðir færu í samgöngubætur frá því sem áður var.

En ég vil líka segja, þegar maður dregur saman þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram og verður nú sjálfsagt breytt í vor, eru þetta u.þ.b. 15--17 milljarðar á ári næstu fjögur árin. Og hvað er það miðað við núverandi útgjöld? Eru það 5, 6, 7% af útgjöldum ríkissjóðs?

Ég segi, virðulegi forseti, að mér finnast það alls ekki háar fjárhæðir. Mér finnst engin ástæða til þess að þenja sig hér í ræðustól Alþingis og gorta sig af því að þessar fjárhæðir fari í vegabætur og alls konar samgöngubætur á landinu. Eins og ég sagði fyrr í dag í ræðu minni held ég að samgöngubætur séu eitthvert stærsta byggðamál sem við fjöllum um hér. Mér finnast þessar fjárhæðir ekki vera þess eðlis að það sé ástæða til þess að vera að berja sér mikið á brjóst af þeim sökum. (KHG: Þið eruð svo vanir háum tölum, Vestmannaeyingar.)