Siglingastofnun Íslands

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 21:03:29 (3429)

2003-02-04 21:03:29# 128. lþ. 71.10 fundur 539. mál: #A Siglingastofnun Íslands# (vaktstöð siglinga, EES-reglur) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[21:03]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er kannski ekki um mikið eða stórt mál að ræða, en þó. Hér á að koma á fót tiltekinni stofnun sem á að fjalla um þessi verkefni, þ.e. að vera vaktstöð fyrir siglingar.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra, m.a. sökum þess að hann dreifði hér í dag svari við fsp. hv. þm. Kristjáns Möllers um það hversu mörg störf ráðuneytið hefði fært út á land, hvort til álita komi að þessari stofnun verði komið á fót úti á landi. Ýmis byggðarlög gætu tekið við þessari stofnun og þetta er þannig starfsemi að hún gæti vel átt heima úti á landi. Það er ekki kannski verið að tala um að flytja stofnun heldur að fara með þessi verkefni út á land. Ég veit að Vestmannaeyjar gætu vel tekið við þessum störfum og sjálfsagt fleiri byggðarlög.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort til álita komi að skoða það að þessi starfsemi yrði færð eitthvert út á land og kannski í umhverfi sem vel er til þess fallið að taka á móti svona starfsemi.