Rannsókn flugslysa

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 21:07:32 (3432)

2003-02-04 21:07:32# 128. lþ. 71.11 fundur 523. mál: #A rannsókn flugslysa# (heildarlög) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[21:07]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um rannsókn flugslysa. Frv. er afrakstur starfshóps sem skipaður var í ágúst 2001 til þess að endurskoða núgildandi lög um rannsókn flugslysa, nr. 59/1996. Starfshópurinn tók m.a. í störfum sínum mið af alþjóðaflugmálasáttmálanum, svonefndum Chicago-sáttmála, en í viðauka 13 er sérstaklega fjallað um rannsóknir flugslysa.

Markmið flugslysarannsókna samkvæmt frv. er að koma í veg fyrir að slys endurtaki sig og stuðla að auknu öryggi í flugi. Rannsóknarnefnd flugslysa ber ábyrgð á flugslysarannsóknum og ákveður hvenær rannsóknar er þörf og gerir skýrslur um niðurstöður sínar. Þá er rannsóknarnefndin í rannsóknum sínum óháð öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Hún ákveður sjálf hvenær efni eru til rannsóknar flugslyss.

Lagt er til að nefndin verði skipuð þremur mönnum í stað fimm áður.

Stjórnskipulagi flugslysarannsókna verður breytt og sjálfstæði nefndarinnar verður treyst í sessi með því að skipa henni forstöðumann er annist daglegan rekstur, stjórni rannsóknarverkefnum og verði rannsóknarstjóri hennar. Sem rannsóknarstjóri verður forstöðumaðurinn ábyrgur fyrir stjórnun á vettvangi flugslysa.

Í frv. er fjallað um tilkynningar um slys og um framkvæmd rannsóknar. Þá er fjallað um skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa sem skal greina orsakaþætti slysa í þeim tilgangi að koma í veg fyrir önnur flugslys.

Helstu nýmæli önnur sem frv. hefur að geyma eru að lagt er til að heimilt verði að fela öðru ríki að annast rannsókn flugslysa á íslensku yfirráðasvæði að hluta eða öllu leyti. Þetta getur átt við þegar önnur ríki hafa verulega hagsmuni af rannsókn máls eða hún verður fyrirsjáanlega svo yfirgripsmikil að rannsóknarnefnd flugslysa hafi ekki aðstöðu til að annast hana.

Þrátt fyrir meginregluna um að rannsóknarnefnd ákveði sjálf hvenær tilefni er til rannsóknar flugslyss --- og ég undirstrika: Þrátt fyrir meginregluna --- er gert ráð fyrir að samgrh. geti falið rannsóknarnefndinni að rannsaka tiltekin flugslys eða atriði er tengjast flugslysi, auk þess sem hann getur falið nefndinni að rannsaka atriði sem varða almennt flugöryggi án þess að það tengist flugslysi.

Rannsókn flugslysa skal jafnframt ná til þess hvernig fyrirkomulag hefur verið á tilkynningum um flugslys og hvernig háttað hefur verið leitar- og björgunaraðgerðum. Lagt er til að rannsóknarnefndinni verði veitt lagaheimild til að fá aðgang að ýmsum upplýsingum svo sem frá Flugmálastjórn, lögreglu og heilbrigðisstarfsfólki. Þá er kveðið á um skyldu þessara aðila til þess að aðstoða við rannsókn máls ef þörf krefur. Jafnframt er kveðið á um sérstaka þagnarskyldu nefndarinnar og þeirra sem starfa fyrir hana. Rétt er að vekja sérstaka athygli á takmörkunum á afhendingu gagna sem rannsóknarnefndin aflar. Slík gögn eru alfarið undanþegin upplýsingalögum.

Rannsóknarnefndin hefur aftur á móti jafnframt sérstaka skyldu til þess að birta opinberlega tillögur sínar til Flugmálastjórnar um úrbætur í flugöryggismálum eftir því sem rannsókn á flugslysum gefur tilefni til.

Að lokum er bent á að ríkisstjórnin hefur samþykkt til framlagningar á Alþingi frv. til laga um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa, þar sem lagðar eru til sambærilegar breytingar á framkvæmd rannsókna sjóslysa og mun ég mæla fyrir því frv. hér í kvöld.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.