Rannsókn flugslysa

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 21:11:11 (3433)

2003-02-04 21:11:11# 128. lþ. 71.11 fundur 523. mál: #A rannsókn flugslysa# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[21:11]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil segja það í þessari umræðu að ég held að það frv. sem hér er mælt fyrir sé óhjákvæmileg afleiðing eða afsprengi þeirrar umræðu sem fram hefur farið undanfarin missiri um flugöryggismál.

Við fyrstu yfirferð á þessu frv. finnst mér hér vera margt til bóta. Ég held að hægt sé að hrósa hæstv. samgrh. fyrir að láta þessa vinnu fara fram og vinna þetta í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið og að mörgu leyti taka mið af henni. Að því leytinu til vil ég segja að það er ánægjulegt til þess að vita að umræðan hafi orðið til góðs og að hún hafi skilað okkur áfram. Mér fannst nú reyndar sjálfum að kannski hefði mátt láta þess getið í greinargerð af hvaða orsökum þessi vinna fór af stað o.s.frv. Ég held að það hefði verið við hæfi. Ég ætla samt ekki að gera mikið úr því í þessari umræðu en vil nefna það hér að ég held að það verði að teljast hæstv. samgrh. til hróss að hafa tekið á þessum málum með þessum hætti og komið fram með þetta frv. í kjölfar þeirrar umræðu sem fram hefur farið, því að sú braut sem hæstv. samgrh. gekk í þeirri umræðu var oft og tíðum grýtt og erfið.

En aðeins um frv. Eins og fram kemur í frv. þá er inntak og markmið rannsóknar flugslyss að afla upplýsinga um það hvers vegna slysið átti sér stað og að reyna að tryggja að af því megi læra og að slíkt slys endurtaki sig ekki. Undir það taka held ég allir sem vilja fjalla um þessa hluti.

Mig langaði að nefna það aðeins í þessu samhengi, þó að það komi ekki fram í frv., að ég held að það sé mjög mikilvægt að Flugmálastjórn og rannsóknarnefnd flugslysa geri með sér tiltekinn samning um það hvernig samskiptum þessara aðila skuli háttað og á sama hátt verðum við ætíð að hafa í huga vegna eðlis starfa Flugmálastjórnar að skilið sé vandlega á milli Flugmálastjórnar og rannsóknarnefndar flugslysa. Vegna hlutverks Flugmálastjórnar hljóta störf hennar ætíð að koma til skoðunar þegar eitthvað kemur upp á. Flugmálastjórn hefur með höndum eftirlit og ýmislegt sem tengist flugi og það hlýtur ætíð að koma til skoðunar þannig að ég held að nauðsynlegt sé að þarna sé skilið mjög vandlega á milli. Ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem við munum taka til skoðunar þegar málið kemur til samgn. Ég sit í samgn. og mun því fá betra tækifæri til þess að fjalla um frv.

Hér eru augljóslega nokkur ákvæði sem eiga rót sína að rekja til þeirrar umræðu sem fram hefur farið og ég ætla nú ekki að rekja frekar. En mig langaði aðeins að beina athygli hæstv. ráðherra að 19. gr. frv. Þar er með skýrum hætti tekið fram, með leyfi forseta:

,,Óheimilt er að veita aðgang að eftirfarandi gögnum`` --- þau eru rakin þar í nokkrum stafliðum --- ,,sem rannsóknarnefnd flugslysa aflar við rannsókn flugslyss eða upplýsingar um þau, ...``

Þó er talað um einhverja undantekningu í þeim efnum.

Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi og eins í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór hvort ekki sé dálítið hart fram gengið að kveða á um þetta með þeim hætti sem hér er gert, kannski ekki síst í því ljósi að mjög víða annars staðar í heiminum er veittur aðgangur að slíkum gögnum. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða rök það eru --- ég er reyndar búinn að lesa greinargerðina og sé hvað þar kemur fram --- en ég átta mig ekki alveg á því hvaða rök standa til þess að menn gangi svona fram, að undanskilja þennan aðgang. Nú veit ég að í Bandaríkjunum --- en það hefur nú oft verið horft til þeirra við rannsókn á flugslysum --- er aðgangur heimilaður og þeir ganga ekki svona hart fram. Vissulega eru sjónarmið með og móti. En ég held að það væri öllum mikið aðhald, og nú er ég ekki að tala um að menn hafi að þessu óheftan aðgang, en ég held að það gæti verið gott aðhald fyrir rannsókarnefndina að þurfa að hafa það á bak við eyrað að þau gögn sem hún vinnur með kunni síðar að koma til skoðunar. Ég held að það sé ekki gott fyrir nefndina sjálfa að vinna hennar og þau gögn sem hún aflar séu lokuð þar inni og aldrei komi til þess að aðrir geti skoðað þau.

Ég vil hins vegar líka segja að ég á eftir að fá tækifæri til þess að fara betur yfir þetta. Kannski koma þá fram rök og sjónarmið sem skýra það og upplýsa um af hverju við förum þessa leið. Kannski höfum við hugsað þetta lengra en Bandaríkjamenn. Ég skal ekkert um það segja. En þetta eru atriði sem mig langaði að nefna við 1. umr. málsins um leið og ég vil ítreka ánægju mína yfir því að hæstv. ráðherra hafi látið vinna þessa vinnu. Ég held að ekki leiki nokkur vafi á því að stærstur hluti þessa frv., ef ekki allt frv., er til mikilla bóta fyrir þessi málefni.