Rannsókn flugslysa

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 21:18:01 (3434)

2003-02-04 21:18:01# 128. lþ. 71.11 fundur 523. mál: #A rannsókn flugslysa# (heildarlög) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[21:18]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka þau viðbrögð sem hér hafa orðið við þessu frv. Ég vil aðallega nefna tvennt. Í fyrsta lagi tek ég undir að það er afar mikilvægt að skilið sé á milli starfsemi rannsóknarnefndar og Flugmálastjórnar, og það er vissulega gert og lögð mjög mikil áhersla á að það séu skýrar starfsreglur --- og það er í framkvæmd --- um aðgang milli aðila, annars vegar þeirra sem rannsaka flugslys og hins vegar þeirra sem sjá um framkvæmd flugmála, og flugöryggisþáttanna sérstaklega. Það er afar mikilvægt og nauðsynlegt að trúnaður ríki um þau samskipti.

Hvað varðar hins vegar 19. gr. sem hv. þm. nefndi hér sérstaklega tel ég að það sé afar mikilvægt að þær leiðir séu farnar við rannsókn flugslysa og raunar sjóslysa einnig sem leitt geta til þess að sem mestur trúnaður sé um störf þessara rannsókna og að meginatriðið sé að grafast fyrir um orsakir sem geti leitt til þess að koma megi í veg fyrir slys í framtíðinni. Ég tel að ef trúnaður er nauðsynlegur sé afar mikilvægt að lagaumgjörðin sé þannig að hann sé tryggður.

Ég tek að sjálfsögðu undir að samgn. fái færi á að fara yfir þetta mál, m.a. þau atriði sem hér eru nefnd. Ég ítreka hins vegar það sem fram kom í ræðu minni að starfshópurinn sem vann þetta frv. hafði að sjálfsögðu til hliðsjónar í vinnu sinni og tók mið af alþjóðaflugmálasáttmálanum sem er grundvöllur að rannsóknum flugslysa.