Rannsókn flugslysa

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 21:20:42 (3435)

2003-02-04 21:20:42# 128. lþ. 71.11 fundur 523. mál: #A rannsókn flugslysa# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[21:20]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svo sem ekki að leggja til annað en það varðandi þá leynd sem mun hvíla yfir rannsóknarnefnd flugslysa, verði þetta frv. óbreytt að lögum, að nefndin fái aukinn trúverðugleik. Ef menn geta haft aðgang að þeim gögnum sem hún vinnur með --- hættan er sú að ef allt verður lokað inni sem þessi nefnd vinnur með verði niðurstöður hennar þá frekar til þess fallnar að menn gagnrýni þær. Ég er ekki að tala um óheftan aðgang. Ég er aðeins að tala um að í tilteknum tilvikum getur verið mikilvægt að hægt sé að veita þennan aðgang og með því að taka svo til orða, eins og frv. leggur til, að það sé óheimilt að veita þennan aðgang geti komið upp sú staða að niðurstöður nefndarinnar verði frekar dregnar í efa en hitt.

Ég nefni þetta kannski fyrst og fremst til þess að rannsóknarnefndin fái enn frekari trúverðugleik og menn trúi enn frekar og treysti niðurstöðum hennar. Það er þess vegna sem ég vildi nefna þetta í þessari umræðu, virðulegi forseti.