Rannsókn sjóslysa

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 21:27:24 (3439)

2003-02-04 21:27:24# 128. lþ. 71.12 fundur 552. mál: #A rannsókn sjóslysa# (starfshættir rannsóknarnefndar, aðsetur o.fl.) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[21:27]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um það frv. sem hæstv. ráðherra hefur hér fylgt úr hlaði, frv. til laga um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000. Hér er verið að bæta við nokkrum þáttum sem manni finnast alveg sjálfsagðir og skrýtið að ekki hafi komið inn í síðustu endurskoðun, eins og í 1. gr. þar sem fjallað er um þagnarskylduna. Það er auðvitað sjálfsagt mál. Enn fremur í 3. gr. þar sem fjallað er um að rannsóknarnefnd sjóslysa hafi rétt til að kveðja sér til aðstoðar lögreglu, aðra opinbera aðila og annað björgunar- og hjálparlið. Auðvitað er þetta sjálfsagður hlutur og mjög í takt við það sem verið var að ræða rétt áðan um rannsóknarnefnd flugslysa og eðlilegt að þetta sé sett upp á svipaðan hátt. Það er mikilvægt, herra forseti, að þetta sé sett þannig inn og enn fremur að rannsóknarnefnd sjóslysa skuli fara yfir fyrirkomulag tilkynninga um sjóslys, um fyrirkomulag tilkynninga til leitar, björgunaraðgerða og annarra aðgerða sem ætlað er að draga úr afleiðingum sjóslysa. Síðan er í seinni málslið 4. gr. fjallað um það að samgrh. sé heimilt að fela rannsóknarnefnd sjóslysa að rannsaka atriði sem varða almennt öryggi til sjós án þess að þau tengist sjóslysi. Allt á þetta náttúrlega að vera til þess að reyna að draga úr og fækka sem mest sjóslysum, hvort sem það eru skipsskaðar eða slys um borð.

Það er rétt að fjalla hér um nokkra þá þætti sem ég hef hér rætt um, t.d. hvernig háttað hefur verið leitar- og björgunaraðgerðum. Án þess að ég ætli að fara að lengja þessa umræðu mikið hér í kvöld, það er langt liðið á dag, eru auðvitað nýleg sjóslys og ýmislegt sem þar gerðist þess eðlis að ástæða er til að fara yfir það, sem hefur líka verið gert örlítið, og minni ég á fund sem hv. samgn. átti með fulltrúum leitar- og björgunarmanna eftir sjóslys sem varð við suðurströndina og annað sem varð við norðurströndina á síðasta ári.

Það er sannarlega ástæða til að fara í gegnum það og skoða hvernig þetta átti sér stað. Þess vegna er mikilvægt að rannsóknarnefnd sjóslysa fái þessa heimild og það sé eitt af verkefnum rannsóknarnefndarinnar að fara yfir þetta atriði til þess að láta það þá koma fram í skýrslunum sem tillögu, eða hún kemur fram sem eftirlitsaðili til að slíkt hendi ekki aftur. Ég er, til þess að vera ekki með neinar véfréttir, að ræða m.a. um þegar Una í Garði sökk norðan við land og þegar björgunarbátur Slysavarnafélagsins var ekki ræstur út og þeir sem stýra því ágæta skipi fréttu þetta eiginlega í morgunkaffinu á ákveðnum vinnustað. Það hvernig þetta gerðist allt gefur okkur sannarlega fulla ástæðu til þess að skoða þessi atriði og festa þau betur í lög.

[21:30]

Jafnframt er kveðið hér á um að samgrh. hafi heimild til þess að óska eftir því eða geti falið rannsóknarnefnd sjóslysa að rannsaka nánar tiltekið sjóslys eða sérstök atriði sem tengjast sjóslysi, einkum ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn er lokið. Þetta er líka sjálfsagður þáttur og eðlilegur, og maður spyr sig frekar hvers vegna þetta hafi ekki verið áður. Nú þekki ég ekki og kynnti mér ekki áður þau lög sem við erum hér að fjalla um, lög nr. 68/2000, en inn í þetta atriði sem ég nefndi hér um heimild til samgrh. um að fela rannsóknarnefnd sjóslysa að taka upp mál kemur auðvitað upp í huga manns Æsuslysið svokallaða og mikil og góð barátta Kolbrúnar Sverrisdóttur í því máli, sú barátta að fá málið tekið upp á ný.

Auðvitað geta komið upp atriði á seinni stigum þar sem aðilar, tengdir eða ótengdir, koma með nýjar upplýsingar og þá er mikilvægt að hægt sé að leggja þær í hendur einhvers aðila og þá er eðlilegt að það sé samgrh. sjálfur, yfirmaður þessara mála, og hann hafi heimild til þess að óska eftir því að málið verði tekið upp.

Að lokum, herra forseti, er í umsögn fjmrn. fjallað um að þetta hafi ekki kostnaðarhækkanir í för með sér, það sé þegar gert ráð fyrir kostnaðinum. Ég get samt ekki látið hjá líða að nefna það sem ég hef heyrt meðal útgerðarmanna --- náttúrlega væri full ástæða til að skoða það sem segir okkur þá kannski að rannsóknarnefnd sjóslysa hafi ekki næga peninga til þess að sinna starfi sínu --- og það er að rannsóknarnefnd sjóslysa hafi á árum áður --- nú kann ég ekki að segja fyrir hve mörgum árum eða hvort það er enn við lýði --- hringt í útgerðaraðila um landið til þess að safna fé til að gefa niðurstöður nefndarinnar út í bókarformi árlega. Ég tel, herra forseti, að það eigi að vera eitt af hlutverkum nefndarinnar og eigi að falla undir fjárhagsramma hennar að hægt sé að gera það, og dreifa til þeirra aðila sem vilja fá niðurstöðurnar, að maður tali ekki um að það sé gert á netinu líka til þess að sem flestir geti séð gögnin ef ske kynni að hægt væri að nýta upplýsingar sem þar koma fram til þess e.t.v. að fyrirbyggja slys eða skipsskaða.

Að lokum, herra forseti, er hér ein lítil málsgrein í 1. gr. um að aðsetur rannsóknarnefndar sjóslysa sé í Stykkishólmi nema ráðherra ákveði annað. Ég get ekki annað en fagnað því og hælt ráðherra fyrir það. Það er ekki svo oft sem maður getur hælt ráðherrunum --- ég er ekki endilega að tala um þann hæstv. samgrh. sem situr hér nú, heldur ráðherrum ríkisstjórnarinnar almennt --- fyrir það að flytja störf út á land. Þarna var rannsóknarnefnd sjóslysa flutt til Stykkishólms og við sem eigum sæti í samgn. áttum þess kost að heimsækja þá ágætu menn sem hjá nefndinni starfa í gömlu flugstöðina á Stykkishólmsflugvelli og sáum hve vel fór um nefndina þar. Flugstöðin hefur fengið nýtt hlutverk, að hýsa rannsóknarnefnd sjóslysa, og það er hið besta mál. Ég get ekki annað en fagnað því að einhver verkefni eru flutt út á land og það sé gert á þennan hátt en það sýnir okkur líka að það er víða hægt að taka til hendinni við að flytja störf út á land.

Ég ætla ekkert að spilla gleði kvöldsins, hvorki þingmanna né hæstv. ráðherra, með því að fjalla um svar sem dreift var á borð okkar þingmanna í dag eða kvöld sem svari við fyrirspurn minni um flutning fjarvinnsluverkefna og -starfa út á land á síðasta ári. Mér sýnast flestöll svörin vera að koma frá ráðherrunum og ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég get ekki undir neinum kringumstæðum hælt hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni fyrir þau verkefni sem þeir hafa flutt út á land á sviði fjarvinnsluverkefna á síðasta ári eða annarra starfa vegna þess að það er lítið sem ekki neitt. (Samgrh.: Þá gleymirðu fyrra svarinu.) Gleymi ég hverju? (Samgrh.: Fyrra svarinu.) Sem var hvenær? Í haust? (Gripið fram í.) Já, við skulum bara fara yfir það, það er þá eitthvað sem hefur farið algjörlega fram hjá mér eða ég man ekki eftir núna. En eins og ég segi, ég vil endilega nota þau tækifæri sem gefast til þess að hæla ráðherrum þegar þeir flytja störf út á land þó að þau séu allt of fá, en hvetja þá jafnframt til dáða, að það beri að gera meira af því.