Rannsókn sjóslysa

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 21:40:04 (3441)

2003-02-04 21:40:04# 128. lþ. 71.12 fundur 552. mál: #A rannsókn sjóslysa# (starfshættir rannsóknarnefndar, aðsetur o.fl.) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[21:40]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær undirtektir sem frv. hefur fengið, frv. um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa, og vænti þess að hv. samgn. fái færi á að fara rækilega yfir efni frv. þó að það sé ekki margar greinar eða í raun mikið efni.

Út af því sem hér kom fram, fyrst varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller um flutning verkefna og starfa út á land, er ég ánægður með að njóta stuðnings hans við staðsetningu nefndarskrifstofunnar úti á landi. Hún var áður í Hafnarhúsinu. Það vill brenna við að mikið af verkefnum, störfum og stofnunum safnist hér í Kvosinni þannig að það var mikið nýmæli að færa stofnunina, þó að hún sé ekki stór, út á land.

Ég vek athygli á því, vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. sem er auðvitað allt annað mál en það sem verið er að fjalla um hér í raun og veru, að á þskj. sem var svar frá samgrh. til þingmanns í haust kom fram að það sem af er kjörtímabilinu hafa verið færð út á land verkefni og störf sem nema 95 stöðugildum á vegum stofnana og fyrirtækja sem heyra undir samgrn. Það er því ekki hægt að segja með sanni að ekki hafi verið reynt að færa verkefni út á land á vegum samgrn. Meðal þess sem þar er nefnt er sú starfsemi sem rannsóknarnefnd sjóslysa hefur með að gera.

Hér er fjallað um heimild sem ég tel að þurfi að fara afskaplega varlega með, heimild til upptöku rannsókna sjóslysa. Ég vek athygli á því að ég skipaði sérnefnd vegna rannsóknar flugslyssins í Skerjafirði og það var eftir að rannsóknarnefndin hafði sagt sig frá frekari rannsókn. Það var ekki heimild fyrir ráðherra að hafa nokkur afskipti af því máli lögum samkvæmt, sjálfstæði rannsóknarnefndar flugslysa og sjóslysa er slíkt að ráðherra gat ekki tekið málið upp á grundvelli núverandi laga. Nefndin óskaði eftir því sjálf í því tilviki.

Sama var um rannsóknarnefnd sjóslysa. Eftir umfjöllun í siglingaráði og í samgrn. varð að ráði að rannsóknarnefnd sjóslysa tæki til við rannsókn á björgun og aðdraganda á tilkynningu vegna slyss sem varð við Snæfellsnes. Rannsóknarnefndin hefur unnið að því að undanförnu að rannsaka björgunarþáttinn í tengslum við það slys, Svanborgarslysið, sem ég tel og er kannski að hluta til ástæða þess að ég flyt þetta frv. sem snýr að frekari rannsókn björgunar.

Ég tel afar þýðingarmikið --- þetta er svo samofið allt saman, slysið, björgun og aðdragandi, að ekki er hægt að slíta það sundur --- að fá þessar heimildir sem frv. gerir ráð fyrir en undirstrika enn og aftur að afar mikilvægt er að farið sé varlega með upptökuheimildir og það verði að vera rökstudd ástæða, ný gögn sem kalla til slíkrar ákvörðunar ráðherra á grundvelli heimildar í lögum.

Síðan tek ég undir það sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Ég er sammála því að sú þáltill. sem hann hefur flutt er mjög athyglisverð og ég fagna því ef hægt er að sauma hana saman við þau ákvæði sem þetta frv. gerir ráð fyrir og tel einsýnt að hv. samgn. fari yfir það saman. Að öðru leyti þakka ég fyrir undirtektir.