Gerð neyslustaðals

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 13:35:52 (3444)

2003-02-05 13:35:52# 128. lþ. 73.1 fundur 500. mál: #A gerð neyslustaðals# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[13:35]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Fyrir tveimur til þremur árum flutti ég á Alþingi tillögu um að unninn yrði samræmdur neyslustaðall um framfærslukostnað heimila eftir fjölskyldugerð sem yrði leiðbeinandi fyrir stjórnvöld og ýmsar ákvarðanir er lúta að fjárhæð bóta og styrkja velferðarkerfisins. Tilgangurinn með þessari tillögu var að gerður yrði samræmdur neyslustaðall sem stjórnvöld ættu að nota sem viðmiðunargrundvöll við ýmsar ákvarðanir sem tengdust rétti til bóta samkvæmt skatta- og almannatryggingalögum sem og fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum. Ekki síður átti þessi neyslustaðall að vera grundvöllur greiðsluáætlunar og greiðslumats hjá lánastofnunum, þar með talið Lánasjóði íslenskra námsmanna, og við innheimtu vangoldinna opinberra gjalda, t.d. skattaskulda og meðlagsgreiðslna. Slíkur neyslustaðall er víða til, t.d. í Evrópu, og hefur þann tilgang sem ég hef hér lýst.

Hér á landi tekur hið opinbera mið af a.m.k. fimm mismunandi framfærslugrunnum við ákvörðun bóta, lána, fjárhagsástæðna og styrkveitinga svo og við mat á greiðslugetu vegna fjárhagserfiðleika. Má þar nefna tryggingakerfið, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, Lánasjóð íslenskra námsmanns, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Íbúðalánasjóð og lánastofnanir. Að auki má nefna tekjutengdar bætur skattkerfisins. Allur gangur virðist vera á því að hve miklu leyti kannanir liggja að baki nauðsynlegum framfærslukostnaði hverrar fjölskyldugerðar. Mikilvægt er að gerður verði hér einn samræmdur neyslustaðall sem opinberir aðilar byggi á við ákvarðanir sem tengjast framfærslu og tekjum. Annars staðar á Norðurlöndum og reyndar víða í Evrópu hefur verið farin sú leið að þróa neyslustaðal sem framfærslukostnaður eftir fjölskyldugerð og stærð byggist á og er notaður við ýmsar stjórnvaldsákvarðanir. Alþingi gekk skemur en tillagan kvað á um sem ég og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar fluttu.

Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. forsrh. fyrirspurn um efni þessarar tillögu eins og hún var samþykkt frá Alþingi og ég spyr hæstv. ráðherra hvort gerð hafi verið könnun á notkun neysluviðmiðana í nágrannalöndum okkar við ákvarðanir er lúta að fjárhæðum bóta og styrkja í velferðarkerfinu, við mat á greiðslugetu við innheimtu vangoldinna opinberra gjalda og meðlagsgreiðslna og við ákvarðanatöku við lánveitingar úr opinberum sjóðum, svo sem lánasjóðum námsmanna og íbúðalánasjóðum í samræmi við þál. þar að lútandi sem samþykkt var á Alþingi 19. maí 2001. Hefur verið tekin ákvörðun um að samræma slíkar neysluviðmiðanir hér á landi, notkun þeirra eða aðferðir við gerð þeirra í samræmi við sömu þál.? Og loks spyr ég hvort hæstv. ráðherra telji rétt að lágmarksframfærslukostnaður eftir fjölskyldugerð verði skilgreindur og gerðar tillögur til úrbóta sem miði að því að enginn hafi sér til framfærslu tekjur undir skilgreindum framfærslumörkum.