Gerð neyslustaðals

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 13:49:42 (3450)

2003-02-05 13:49:42# 128. lþ. 73.1 fundur 500. mál: #A gerð neyslustaðals# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[13:49]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég nefndi það sérstaklega varðandi svar mitt við 3. lið að ég teldi að sá þáttur ætti í rauninni heima hjá sveitarfélögunum og ætti ekki að þurfa að koma neinum á óvart, síst hæstv. fyrrv. félmrh., að þetta hefur verið verkefni sveitarfélaganna, þessi þáttur mannlífsins frá gamalli tíð, frá upphafi hreppaskipunar í landinu, allt frá því að landnámsmenn komu hingað hefur þessi þátturinn verið settur á herðar sveitarfélaganna í landinu. Það ætti ekki að þurfa að koma mönnum neitt á óvart, sú langa reynsla sem er á því.

Að öðru leyti varðandi umræðuna, við höfum sjálfsagt öll lent í því sem lengi höfum verið í stjórnmálum að þegar innhringingaþættir, eins og Þjóðarsál og hvað þeir hétu allir saman, voru upp á sitt besta var gjarnan hringt inn og við spurð að því hvort við gætum lifað af þessum og hinum upphæðunum. Auðvitað verður manni svo sem fátt um svör og maður veltir því fyrir sér. Í einum slíkum þætti áttaði ég mig reyndar á því að sennilega hefði ég ásamt móður minni lifað af slíkum tekjum í eina tíð, eða slíkum upphæðum. En það hefur sjálfsagt ekkert verið létt, ég á ekki von á því. Og fyrir okkur sem höfum vanist öðru er það örugglega mjög erfitt.

Það er þó fagnaðarefni að kaupmáttur bóta, atvinnuleysisbóta til að mynda, hefur vaxið um 13% á undanförnum árum. Kaupmáttur slíkra bóta hefur aldrei verið hærri þannig að í tíð annarra hefur verið enn þá erfiðara að lifa af slíkum bótum en er þó núna. Þetta er reyndar dæmigerð umræða sem kemur alltaf upp fyrir kosningar, þá eru menn spurðir slíkra spurninga. Þó á ég ekki von á því að neinn stjórnmálaflokkur ætli að lofa því að tvöfalda slíkar bætur sem sjálfsagt yrði að gera til þess að menn gætu lifað sæmilegu lífi af bótum. Þá yrðu þær komnar upp fyrir lægstu laun þannig að þetta er þessi venjulega yfirborðspólitík sem kemur fyrir kosningar. Kannski er mönnum vorkunn að fara í það farið, þetta er tiltölulega einfalt og ekki létt við að eiga.