Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 13:52:10 (3451)

2003-02-05 13:52:10# 128. lþ. 73.2 fundur 470. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Á þessu kjörtímabili hefur mikið verið rætt um flutning fjarvinnsluverkefna til landsbyggðarinnar í samræmi við byggðaáætlun sem á að hafa verið í gildi á þessu kjörtímabili. Það má eiginlega segja að þessi hugmynd um flutning hafi átt að vera ein aðalskrautfjöður ríkisstjórnarflokkanna í byggðamálum þessara ára. Í upphafi kjörtímabilsins sem nú er senn á enda voru opnaðar fjölmargar stöðvar úti um allt land þar sem miklar væntingar voru vegna stefnu stjórnvalda og vegna starfa fyrirtækja sem fóru um landsbyggðina og stofnuðu útibú, settu upp fjarvinnslustöðvar sem treystu á og vildu fá verkefni sem þeim var lofað og gefið undir fótinn með, m.a. vegna þess að oddvitar ríkisstjórnarflokkanna höfðu fögur orð um þessa nýju byggðastefnu, þessi nýju tækifæri landsbyggðarinnar, sem átti að verða til þess að skapa störf. Tilvitnun í orð hæstv. utanrrh., Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsfl., úr Ríkisútvarpinu frá 15. ágúst 1999 sem hann viðhafði við opnun starfsstöðvar Íslenskrar miðlunar á Stöðvarfirði segir það sem segja þarf, og ætla ég að fá að lesa þessa tilvitnun upp, með leyfi forseta:

,,... og ég tel sjálfsagt að ríkið kaupi þjónustu af þessum aðilum, af þessum einkaaðilum sem sýna þetta frumkvæði og hrinda þessu af stað. Það eru miklir möguleikar á því sviði að ríkisstofnanir geti keypt þjónustu, fækkað störfum t.d. á Reykjavíkursvæðinu og fjölgað úti á landi með þessum hætti.``

Hæstv. forsrh. sagði skömmu seinna í viðtal við Dag, með leyfi forseta, ,,... að þarna væru á ferðinni ný hugsun og ný vinnubrögð sem ættu að gagnast landsbyggðinni til sóknarfæra í atvinnu- og byggðamálum, þarna sé því um að ræða virka byggðastefnu.``

Í framhaldi af þessu vildi ég leggja fyrir hæstv. utanrrh., sem talaði svo fallega um þetta verkefni, eftirfarandi fyrirspurn:

Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja sem heyra undir ráðuneytið voru flutt út á land árið 2002, sundurliðað eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.

Herra forseti. Vegna hinna ágætu tilvitnana sem ég las bíð ég spenntur eftir að vita hve mikið hefur gerst á vegum utanrrh.