Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:04:23 (3457)

2003-02-05 14:04:23# 128. lþ. 73.2 fundur 470. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:04]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er eiginlega með ólíkindum hvað það er orðið algengt á hinu háa Alþingi að hv. þm. virðast ekki skilja það sem um er verið að tala. Hér er verið að ræða um fjarvinnsluverkefni og hvort einhver störf hafi verið flutt til að sinna þeim. Það er því miður þannig í svörum ráðuneyta að engin slík störf voru flutt á síðasta ári, engin. Hins vegar minnir mig að það hafi verið eitt eða eitt og hálft starf eitthvert árið sem flutt var. Það ber auðvitað að þakka þótt lítið sé. Spurningin sem stendur þó eftir í þessu máli --- það hefur nefnilega hvað eftir annað komið fram að hæstv. ráðherrar eru fullir áhuga og átta sig algerlega á því að hér er um nýja tækni að ræða sem skapar ýmsa möguleika --- er: Hvernig stendur á því að ekkert gerist þrátt fyrir þennan mikla áhuga hæstv. ráðherra? Við þeirri spurningu verður að fást svar.