Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:20:22 (3465)

2003-02-05 14:20:22# 128. lþ. 73.3 fundur 482. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér er spurt um fjarvinnslustörf og flutning þeirra út á land eða tilkomu þeirra úti á landi. Að sama skapi væri áhugavert, herra forseti, að vita hversu mörg störf sem áður voru unnin úti á landi hafa á um það bil einum eða einum og hálfum áratug flust til höfuðborgarinnar einmitt vegna hinnar nýju tækni. Hin nýja tækni hefur gert það kleift að störf og stofnanir dragist saman og einatt hefur það verið svo að allt hefur endað suður í Reykjavík.

En þegar kemur að ríkinu og því að ýta hlutum í hina áttina þá eru svörin alltaf keimlík. Það vantar alltaf aðeins meiri tækni, aðeins lengri ljósleiðara, aðeins betra samband. Alltaf vantar, herra forseti, aðeins meira eitthvað, en bara þegar það fer í þá áttina.

Herra forseti. Það sem mér finnst einna athyglisverðast í allri þessari umræðu er að þegar um einkaaðila er að ræða, þegar samkeppni er á ferðinni og krafa um hagkvæmni, þá virðist sambandið virka í báðar áttir.