Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:25:36 (3469)

2003-02-05 14:25:36# 128. lþ. 73.3 fundur 482. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnaleg svör þó að þau hafi verið frekar innihaldslítil varðandi það sem spurt var um, þ.e. um fjarvinnslustörf. Ef ég hef heyrt rétt held ég að það hafi komið fram að ekkert fjarvinnslustarf hefur verið flutt út á vegum þessa ráðuneytis frekar en annarra ráðuneyta.

Ég hlustaði líka með athygli á það hvernig enn einu sinni er gripið til þeirrar varnar varðandi störfin sem átti að flytja til Ólafsfjarðar að dómsmrh. hafi stoppaði það. Það var athyglisvert. Það hefur reyndar áður komið fram.

Herra forseti. Í svari hæstv. forsrh. um sama efni kemur nokkuð fram sem ég ætla að grípa til þess og lesa upp úr, með leyfi forseta:

,,Í greinargerð með byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að forsætisráðuneytið sé sérstakur tengiliður ráðuneyta vegna verkefna af þessu tagi. Hefur ráðherra falið alþingismönnunum Halldóri Blöndal og Magnúsi Stefánssyni að vera með sér í ráðum um þau mál.``

Það eru held ég ekki nema tveir eða þrír mánuðir eftir af störfum þessarar ríkisstjórar þannig að vel er brugðist við vandanum í lok kjörtímabilsins með því að bregðast við á þennan hátt.

Vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal á að stýra þessari vinnu með öðrum fyrir hönd forsrh. er rétt að rifja það upp sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði í ríkissjónvarpi eftir borgarafundinn umrædda í Ólafsfirði 6. mars 2000, með leyfi forseta:

,,Það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um það að flytja fjarvinnsluverkefni hingað til Ólafsfjarðar og það verður staðið þannig að þeim að það verði traustur grunnur og hann standi til frambúðar.``

Herra forseti. Þó að ég eigi smávegis eftir af tíma mínum held ég að ágætt sé að stoppa við þau orð sem hv. þm. sagði um þau störf sem átti að flytja vegna þess að við höfum undanfarið og í dag farið yfir hver árangurinn hefur verið. Hann hefur enginn verið, en þetta átti að standa á traustum og góðum grunni hæstv. ríkisstjórnar. Það er margt sem hefur farið á þennan hátt.