Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:27:41 (3470)

2003-02-05 14:27:41# 128. lþ. 73.3 fundur 482. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka fram að hv. þm. spyr mig ekki bara um fjarvinnslustörf. Hann spyr líka um störf á vegum ráðuneytisins og stofnana þannig að það eru útúrsnúningar að telja að ég hafi verið að fara út fyrir mitt svið þegar ég svaraði fyrirspurn hans.

Einn hv. þm. af sjö samfylkingarmönnum sem hér komu upp til þess að tala og hafa uppi stór orð, sagði um að þetta væri sorglegt. (Gripið fram í: ... Einar væri úr Sjálfstæðisfl.) Ég segi við þessa hv. þingmenn að þó að alltaf megi standa sig betur í þessum efnum --- það skal ég segja --- finnst mér sorglegt að sjö þingmenn Samfylkingarinnar komi hér upp til þess að kvarta yfir því að illa sé staðið að málum gagnvart landsbyggð þegar Samfylkingin hefur tekið þá ákvörðun að það halli svo á Reykjavík gagnvart landsbyggðinni í stjórnmálaumræðu á Íslandi að þeir setja borgarstjórann í framboð til þess að verja (Gripið fram í.) hagsmuni Reykjavíkur. (Gripið fram í.) Það er yfirlýst af hálfu Samfylkingarinnar að borgarstjórinn er farinn (Gripið fram í.) í framboð til þess að ...

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja um betra hljóð í salnum.)

(Gripið fram í.) (EKG: Samfylkingin þolir ekki sannleikann.) Það er ótrúlegt, hæstv. forseti, að ef eitthvað er sagt hér sem kemur illa við þessa hv. þingmenn þá heldur maður ekki orðinu. Þetta kom virkilega illa við þá. Þeir settu borgarstjórann í framboð til að berjast fyrir hagsmunum Reykvíkinga. Þetta sagði hún sjálf og ég skil það vel að þeim líði illa yfir þessu en (LB: Ætlarðu að skrifa Halldóri?) svona er þetta. Svo koma þessir hv. þingmenn í stólinn á hv. Alþingi, berja á brjóst sér og þykjast öllu geta bjargað á landsbyggðinni.

Ég veit það svo vel að ef Samfylkingin kemst hér að völdum þá yrði enn minna um árangur. Ég er ekki að segja (Gripið fram í: Hvernig er það hægt?) að árangurinn sé mikill vegna þess að þegar oft og tíðum ... (Gripið fram í.) Hvaða samkoma er þetta hérna, hæstv. forseti? Er þetta ekki Alþingi Íslendinga þar sem einn hefur orðið í einu?