Flutningskostnaður

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:41:33 (3475)

2003-02-05 14:41:33# 128. lþ. 73.4 fundur 434. mál: #A flutningskostnaður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:41]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er staðfest í umræddri skýrslu sem margir höfðu séð fyrir, að skortur á samkeppni í þessari atvinnugrein hefur leitt til að flutningskostnaður hefur hækkað. Það er ljóst að af einhverjum ástæðum hefur ekki tekist að koma á samkeppni í þjóðfélaginu í þessari atvinnugrein eins og mörgum öðrum. Við búum þar við fákeppni, jafnvel einokun, og stjórnvöld verða auðvitað að hafa leikreglur sem settar eru fyrir þessa atvinnugrein með hliðsjón af þeirri staðreynd. Ég vil brýna hæstv. ríkisstjórn í að velta málinu fyrir sér og koma sem fyrst með tillögur eða aðgerðir sem mættu verða til að lækka flutningskostnað. Það sem beðið er eftir eru aðgerðir en ekki skýrslur.

Mig langar að biðja hæstv. samgrh. að upplýsa, ef hann hefur upplýsingar um, hversu stór hluti þungaskattur er áætlaður af flutningskostnaði.