Flutningskostnaður

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:45:12 (3477)

2003-02-05 14:45:12# 128. lþ. 73.4 fundur 434. mál: #A flutningskostnaður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:45]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Að vísu kom ekki mjög mikið á óvart það sem hv. þm. Kristján L. Möller sagði, þ.e. að ekki væri hægt að fræða hann mikið um þessi mál. Engu að síður liggur samt fyrir að ríkur vilji stendur til þess, eins og fram kom í svari mínu áðan, að leita leiða til þess að lækka flutningskostnað. Stóra aðgerðin í þeim efnum er sú sem rætt var hér mjög ítarlega í gær, þ.e. að byggja upp vegakerfið. Það er mjög mikilvæg aðgerð. Hins vegar liggur alveg fyrir að við getum ekkert komist undan þeim kostnaði sem flutningum fylgja um landið. Ef við ætlum að greiða það allt úr ríkissjóði yrði úr mjög vöndu að ráða og ekki alveg ljóst hvernig ætti að standa að því.

En það kemur m.a. fram í skýrslunni og er mjög athyglisvert að meginþorri dagvöruverslunar á landsbyggðinni er rekinn af stórum verslunarkeðjum og u.þ.b. 90% af landsmönnum hafa aðgang að slíkri dagvöruverslun innan 50 km radíuss sem er auðvitað mjög mikilvægt og vekur athygli á því og beinir sjónum okkar að því að verslunarþjónustan, dagvöruverslunin hefur náð mjög miklum árangri í lækkun á vöruverði. Það er meira og minna svo að þessar stóru keðjur jafna vöruverðið á þessum svæðum --- það skiptir miklu máli --- og taka þar með flutningskostnaðinn inn í jöfnun.

En hvað um það. Þessi skýrsla sem nú liggur fyrir er grunnur þeirra aðgerða eins og fram kom hjá hæstv. iðnrh., byggðaráðherra, aðgerða ríkisstjórnarinnar til að lækka flutningskostnað og að því verður unnið á næstu vikum.