Persónulegur talsmaður fatlaðra

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:54:34 (3480)

2003-02-05 14:54:34# 128. lþ. 73.5 fundur 498. mál: #A persónulegur talsmaður fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég sé að hann hefur verið með ákveðna tilburði í þá átt að koma á aukinni réttargæslu fyrir fatlaða. Ég get alveg tekið undir þá niðurstöðu nefndarinnar sem samdi frv. sem lá fyrir þinginu að það er e.t.v. of viðamikið kerfi sem Þroskahjálp leggur til. En ég tel mjög brýnt að komið verði á svipuðu kerfi hér og á Norðurlöndunum, þ.e. að hægt sé að skipa fötluðum, þá þeim sem ekki geta sinnt sínum málum sjálfir, ekki geta gætt réttar síns sjálfir, persónulegan talsmann. Það er ekki viðunandi að það sé einn talsmaður eða einn umboðsmaður fyrir stóran hóp, eins og einn í hverju kjördæmi. Ég get ekki sætt mig við það, en tel e.t.v. rétt að hinkra eftir ráðunum frá Brussel eins og Öryrkjabandalagið hefur lagt til því eins og við þekkjum hafa mjög margar réttarbætur í kerfinu einmitt komið þá leið og ef það kemur þaðan ættum við að geta lögfest það sem fyrst. Engu að síður vil ég gjarnan, ef tilskipunin er á leiðinni, að hún verði tekin strax og menn fari síðan í þá vinnu að koma á þessari skipan mála, þ.e. eins og er á Norðurlöndunum. Ég hvet hæstv. ráðherra, ef tilskipunin kemur á meðan hann situr í embætti, til þess að taka til hendinni og koma þessum réttindum á hér á landi svipað og er á Norðurlöndunum. Ég þakka honum annars svörin.