Heilsugæslumál á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:04:42 (3484)

2003-02-05 15:04:42# 128. lþ. 73.6 fundur 502. mál: #A heilsugæslumál á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir að vekja athygli á þessu viðkvæma máli. Ég þakka einnig hæstv. heilbrrh. fyrir svör hans því að vissulega er ófremdarástand í heilbrigðismálum á Suðurnesjum. Eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra hafa læknar á Suðurnesjum, flestir læknar ekki viljað koma aftur til starfa þrátt fyrir að þeim hafi verið boðin sömu kjör og ríkja á markaðinum á Íslandi. Þess eru dæmi að þessir sömu læknar hafi síðan farið að vinna annars staðar á þeim kjörum sem þeim voru boðin á Suðurnesjum.

Í svari hæstv. ráðherra kemur fram að hann leitar lausna á þessum málum og vill styrkja heilsugæslu á Suðurnesjum. Einnig er full ástæða til að þakka því góða fólki sem er að vinna að heilsugæslumálum á Suðurnesjum undir gríðarlega miklu álagi og mikilli pressu fyrir hvernig það hefur staðið að þeim málum. Það er auðvitað von mín sem annarra að lausn náist sem fyrst í þessu máli.