Lífeyrisgreiðslur til Íslendinga erlendis

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:15:20 (3489)

2003-02-05 15:15:20# 128. lþ. 73.7 fundur 553. mál: #A lífeyrisgreiðslur til Íslendinga erlendis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:15]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. er rétt að gera í upphafi grein fyrir samningum um almannatryggingar sem Ísland hefur þegar gert við önnur ríki. Samningar um almannatryggingar tryggja mikilvæg réttindi Íslendinga og borgara þess ríkis sem samið er við. Á síðustu árum hafa verið gerðir samningar við þau ríki sem Íslendingar hafa mest samskipti við. Ísland hefur skuldbundið sig skv. 12. gr. félagsmálasáttmála Evrópu til að gera tví- eða fjölhliða samninga við aðildarríki sáttmálans um almannatryggingar. Felur skuldbindingin í sér að borgarar þessara ríkja fá sama rétt og íslenskir ríkisborgarar og fái bætur greiddar þrátt fyrir búsetu erlendis.

EES-samningurinn felur í sér samkomulag um réttindi einstaklinga til lífeyrisgreiðslna þegar þeir hafa unnið eða búið í aðildarríkjum EES-samningsins. Ísland hefur því á grundvelli EES-samningsins samning um almannatryggingar við 17 Evrópuríki. Þá hafa Norðurlöndin gert með sér samning um almannatryggingaréttindi þeirra einstaklinga sem falla utan gildissviðs EES-samningsins. Jafnframt hefur Ísland gert tvíhliða samninga við Austurríki, Lúxemborg og Bretland um réttindi þeirra sem falla utan gildissviðs EES-samningsins. Samningur var gerður við Kanada árið 1989 og nær hann til lífeyrisréttinda.

Á síðasta ári var EFTA-sáttmálinn endurskoðaður og tók nýr sáttmáli gildi 1. júní 2002. Hinn nýi sáttmáli felur í sér samkomulag við Sviss um almannatryggingaréttindi, þar með talin lífeyrisréttindi ríkisborgara Íslands og Sviss þegar þeir vinna og búa í ríkjunum. Þegar tíu ný ríki verða aðilar að Evrópusambandinu munu reglur Evrópusambandsins um almannatryggingar ná til ríkisborgara þeirra ríkja. Ísland á nú í samningaviðræðum við Evrópusambandið um breytingar á EES-samningnum vegna stækkunar Evrópusambandsins og ef samningar takast munu þeir væntanlega fela í sér samkomulag um almannatryggingar við nýju aðildarríkin. Ísland væri þá með samkomulag um almannatryggingaréttindi við Ungverjaland, Pólland, Tékkland, Slóveníu, Slóvakíu, Eistland, Lettland, Litháen, Kýpur og Möltu. Vegna þessara viðræðna er ekki fyrirhugað að óska eftir viðræðum við þessi ríki um tvíhliða samninga almannatrygginga heldur er rétt að bíða eftir niðurstöðu úr samningaviðræðum við Evrópusambandið.

Ísland hefur óskað eftir viðræðum við Bandaríkin um tvíhliða samning um almanntryggingar, sérstaklega lífeyristryggingar. Ísland og Bandaríkin skiptust á nótum árið 1981 sem skuldbinda ríkin til að greiða áunninn lífeyri til ríkisborgara landanna. Slík nótuskipti hafa nýst borgurum ríkjanna en æskilegt er að gera tvíhliða samning við Bandaríkin um réttindi borgara þessara tveggja ríkja.

Herra forseti. Samkvæmt framansögðu hefur Ísland gert samkomulag um almannatryggingar við 19 ríki. Ef samningar takast við Evrópusambandið og Bandaríkin bætast 11 ríki við og verða ríkin sem Ísland hefur gert samkomulag við því 30 talsins. Tvíhliða samningar byggjast ávallt á vilja beggja ríkja til að gera samninga og þótt Ísland vilji gera samninga við tiltekin ríki þá er ekki víst að það ríki sjái sér hag í því að gera samning. Oft snýst málið um fáa einstaklinga og þá getur verið að ríkið telji ekki svara kostnaði að gera samning við Ísland. Það má þó benda á að þó að einstaklingarnir séu fáir getur það skipt hvern einstakling miklu máli að fá að halda áunnum réttindum sínum þrátt fyrir vinnu eða búsetu erlendis.