Lífeyrisgreiðslur til Íslendinga erlendis

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:20:13 (3491)

2003-02-05 15:20:13# 128. lþ. 73.7 fundur 553. mál: #A lífeyrisgreiðslur til Íslendinga erlendis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingar um þau ríki sem við erum að gera samninga við. Það eru að koma inn viðbótarríki. Þegar Evrópusambandið stækkar fara nýju ríkin undir sömu samninga og EES-ríkin.

Auðvitað er það mikið atriði fyrir hvern og einn einstakling hvort hann fær lífeyrisréttindi sín greidd eftir að hann fer á ellilífeyrisaldur, réttindi sem hann hefur áunnið sér t.d. á Íslandi fyrir þá sem flytja héðan. Þess vegna er þetta mikilvægt fyrir hvern og einn einstakling þó þetta geti þýtt kostnað fyrir hvert ríki. Ég nefndi sem dæmi Íslendinga búsetta í Ástralíu en þó nokkur fjöldi Íslendinga býr í Ástralíu og við Ástralíu er enginn slíkur samningur. Þar er verið að greiða sumum Íslendingum sinn lífeyri úr almannatryggingunum og öðrum ekki. Ég bið hæstv. ráðherra um að athuga þessi mál því þarna gætir ákveðins ójafnræðis meðal íslenskra þegna í Ástralíu og eflaust er það víðar. Ég tel því mjög mikilvægt að annaðhvort verði gerður gagnkvæmur samningur við þessi ríki eða að sömu reglur verði látnar gilda um alla þá sem eru búsettir í þessum löndum. Það er auðvitað ekki hægt að búa við það að einn fái greiddan sinn áunna rétt en annar ekki í sama landinu. Vissulega eigum við að tryggja að þeim einstaklingum sem hafa áunnið sér ákveðinn lífeyrisrétt hér á landi sé unnt að fá hann greiddan þótt þeir kjósi að búa annars staðar í ellinni. Ég hvet því hæstv. ráðherra, um leið og ég þakka honum fyrir þau svör sem hann gaf hér, til þess að huga að þessum málum og sjá til þess að þeim Íslendingum sem búa erlendis og fá ekki notið þess lífeyrisréttar sem þeir hafa áunnið sér, verði gert það kleift.