Efling fjarnáms

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:31:11 (3495)

2003-02-05 15:31:11# 128. lþ. 73.9 fundur 534. mál: #A efling fjarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli og vil vekja athygli á því að í meðförum fjárln. hefur verið lögð mikil áhersla á að efla símenntunarmiðstöðvar í landinu og ég tel að það sé mjög mikilvægt.

Í svari frá hæstv. menntmrh. um daginn þar sem ég spurði einmitt um fjarnámið kom fram að nemendum í fjarnámi á háskólastigi hefur fjölgað um 500% á síðustu árum, nám fer fram í átta háskólum og á 33 námsbrautum. Það er alveg gríðarlega mikilvægt hve boðið er upp á fjölbreytt nám. Á framhaldsskólastigi eru nemendur um 2.000 og ég tel að það sé afar mikilvægt hvernig þessi þróun hefur orðið og hvað hún er sérstaklega mikilvæg fyrir þá sem búa fjarri menntastofnunum og geta vegna sérstakra aðstæðna aðeins stundað fjarnám.