Úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:37:44 (3499)

2003-02-05 15:37:44# 128. lþ. 73.95 fundur 407#B úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Úrskurðar setts umhvrh., Jóns Kristjánssonar, í kærumálum vegna fyrirhugaðrar Norðlingaölduveitu var beðið með eftirvæntingu, enda var og er ljóst að niðurstaðan, á hvern veg sem hún yrði, mundi sæta tíðindum og marka ákveðin kaflaskil í umhverfisverndarmálum hér á landi. Því er ekki að leyna að niðurstaða ráðherrans olli ræðumanni vonbrigðum. Ég hafði bundið vonir við það eins og margir fleiri að ráðherra einfaldlega hafnaði öllum hugmyndum um miðlunar- eða veitulón á Þjórsársvæðinu og felldi úrskurð skipulagsstjóra sem féllst á lón reyndar bæði í 575 og 578 metra hæð yfir sjó, svo ótrúlegt sem það í sjálfu sér var, úr gildi. Ég er þeirrar skoðunar að mannvirkjagerð á og í nágrenni við þetta einstaka svæði sé einfaldlega tímaskekkja.

Hitt er annað mál að skilyrði sem ráðherra setur verða vissulega til þess að framkvæmdin með miklu minna lóni í minni hæð sem ekki nær inn í núverandi friðland er miklum mun skárri en óbreytt niðurstaða Skipulagsstofnunar og plön Landsvirkjunar hefðu falið í sér. Ég vil taka það fram að ég tel að settur umhvrh., Jón Kristjánsson, eigi hrós skilið fyrir þá miklu vinnu og alúð sem hann lagði í þetta verkefni. Þegar ráðherra var að rökstyðja niðurstöðu sína m.a. með því að tiltekinni hagkvæmni væri fórnað í þágu náttúruverndar og til þess að unnt væri að virða friðlýsinguna og alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt Ramsar-sáttmálanum fannst mér um sinn eins og þjóðin hefði loksins eignast eiginlegan umhverfisráðherra en því miður aðeins tímabundið og í þessu eina máli.

Enginn vafi er á því að sá árangur sem þó náðist með úrskurði setts umhvrh. í baráttunni fyrir verndun Þjórsárvera, því miður langt í frá fullur sigur en ákveðinn varnarsigur getum við sagt, er uppskera þeirrar miklu og staðföstu baráttu sem háð hefur verið að undanförnu. Um leið sýnir þetta okkur hversu gríðarlega mikilvægt er að halda áfram varðstöðunni um hálendið og náttúruperlurnar því að þeim er sótt víða og úr ýmsum áttum. Þetta mál á einnig að kenna okkur hversu háskalegt er að vaða áfram í málum af þessu tagi og gefa sér ekki tíma til að skoða til þrautar alla möguleika og kosti, bæði mismunandi tæknilegar útfærslur viðkomandi framkvæmda og eins hvort hreinlega aðrir og heppilegri virkjunarkostir séu í boði. Væri það ekki þess virði hvað varðar hin gríðarlegu framkvæmdaáform á norðausturhálendinu að gefa sér tíma til að fara rækilega yfir þau hvað varðar aðra mögulega kosti og útfærslu?

En úrskurður ráðherra vekur einnig margar spurningar og veldur áhyggjum af ýmsum ástæðum. Fyrst ber að nefna að það hefur lengi verið baráttumál að færa út mörk friðlandsins og láta það taka til Þjórsárvera sem landslags- og vistfræðiheildar. Verði ráðist í framkvæmdir eins og þær sem lýst er í úrskurði ráðherra eru möguleikar á stækkun friðlandsins nánast úr sögunni. Landsvirkjun fær heimildir til að athafna sig á svæðinu og Þjórsárver verða römmuð af með mannvirkjagerð á þrjá vegu. Núverandi Kvíslaveituframkvæmdum að austan, setlóni og veitum að norðan og hinu fyrirhugaða en minna Norðlingaöldulóni að sunnan. Einnig vekur athygli og spurningar að ráðherra skuli fara þá leið að fallast á niðurstöður Skipulagsstofnunar um lón í 575 metra hæð en búa með skilyrðum í reynd til algerlega nýja framkvæmd. Hefði ekki verið eðlilegra að fella þennan úrskurð úr gildi en benda þá framkvæmdaraðila á að hann gæti látið reyna á hvort annars konar framkvæmd með minni lónhæð fengist samþykkt og stæðist mat á umhverfisáhrifum?

Því hljóta að vera einhver takmörk sett hversu gerbreytta framkvæmd er hægt að heimila í gegnum skilyrðingu af þessu tagi. Tæplega gæti ráðherra þannig fallist á tiltekna virkjun í Þjórsá með því skilyrði að virkjað yrði í Skaftá. Þá vekur einnig spurningar að ráðherra heimilar setlón norðan Þjórsárvera og veitur úr því lóni yfir í Þjórsárlón, þ.e. í reynd 6. áfanga Kvíslaveitna að meira eða minna leyti sem búið var að falla frá og virðist sú framkvæmd ekki þurfa í mat á umhverfisáhrifum þar sem um einhvers konar mótvægisaðgerð sé að ræða. Hversu langt er hægt að teygja sig eða ganga einnig að þessu leyti?

Þá er fróðlegt að velta því fyrir sér hvort úrskurður ráðherra sé fordæmisgefandi hvað varðar stöðu friðlanda og alþjóðlegra skuldbindinga. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. settan umhvrh. í máli þessu:

1. Kom ekki til álita að fella hinn kærða úrskurð Skipulagsstofnunar frá 12. ágúst sl. úr gildi í heild sinni en benda framkvæmdaraðila þess í stað á aðra mögulega útfærslu framkvæmdarinnar, þ.e. þá sem lýst er í úrskurði ráðherra með lægri lónhæð o.s.frv. sem lyti þá sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum?

2. Er ráðherra í úrskurði sínum í reynd að fallast á svonefndan 6. áfanga Kvíslaveitna, (Forseti hringir.) samanber skilyrði nr. 2., og það án mats á umhverfisáhrifum? (Forseti hringir.) --- Ef ég mætti ljúka síðustu spurningunni, hún er stutt, virðulegur forseti, ég held að það komi betur út þegar hæstv. ráðherra fer að svara.

3. Telur ráðherra úrskurð sinn fordæmisgefandi hvað varðar stöðu friðlýstra svæða og alþjóðlegra skuldbindinga í umhverfismálum?

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þingmenn á að það er ákveðinn ræðutími og hefur færst í vöxt upp á síðkastið að hv. þingmenn taki ekki tillit til þess.)