Staða almannavarna

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 10:47:04 (3520)

2003-02-06 10:47:04# 128. lþ. 74.91 fundur 409#B staða almannavarna# (aths. um störf þingsins), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[10:47]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Það er greinilegt að kosningar nálgast. Ég tel að fullyrðingar hv. þm. sem hóf þessa umræðu séu ekki svara verðar vegna þess að ég er búin að skýra þetta mál. Ég vil taka það skýrt fram hins vegar út af ýmsum ábendingum sem hér hafa komið fram varðandi þessa sameiginlegu björgunarmiðstöð að þetta tvennt fer saman, þ.e. að flytja yfirstjórn Almannavarna til þessarar björgunarmiðstöðvar í Skógarhlíðinni þar sem Neyðarlínan, fjarskiptamiðstöð lögreglunnar, er jafnframt og þar sem Landsbjörg ætlar að vera með starfsemi sína. Þarna er verið að sameina alla aðila sem koma að leit og björgun af landi og sjó, alla viðbragðsaðila, til þess að treysta enn betur öryggi landsmanna, og hver getur mótmælt því? Ég bið hv. þingmenn um að athuga það.

Ég hef líka sagt að það hafi verið samráð í þessu máli. Ég hef sjálf fundað með almannavarnaráði. Ég get tekið það sem dæmi. Ég hef líka sagt frá því að það er búið að tryggja óbreytt fjárframlög til reksturs þessarar stofnunar. Þarna hafa engar breytingar orðið. Það má vel vera að það hefði verið gott ef það hefði verið búið að heildarendurskoða lögin um almannavarnir, almennt séð, en það má kannski segja að hryðjuverkin í Bandaríkjunum, árásin þar, hafi ýtt við mönnum í því að fara að skoða þessi mál og athuga hvert eigi að stefna. Það er alveg ljóst að það þarf að gera breytingar.

Ég tel nauðsynlegt að þetta mál verði afgreitt sem fyrst á hinu háa Alþingi og treysti þingmönnum í allshn. mætavel til þess að gera það.