Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 10:51:28 (3522)

2003-02-06 10:51:28# 128. lþ. 74.3 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[10:51]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Með frv. eru annars vegar lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum laganna sem fjalla um kynferðisbrot gegn börnum og hins vegar er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði sem leggi refsingar við svokölluðu mansali eða verslun með fólk.

Tilgangur þessa frv. sem samið var af refsiréttarnefnd er í fyrsta lagi að auka refsivernd barna gegn kynferðisbrotum. Á undanförnum 10--15 árum hefur dómsmálum vegna þessara mála fjölgað mikið. Erfitt er að segja til um hvort þá þróun megi rekja til þess að fleiri brot séu framin eða hvort þau hafi komið upp á yfirborðið í ríkari mæli við opnari umfjöllun um þessi mál. Engum dylst þó sá mikli skaði sem börn geta orðið fyrir þegar þau eru misnotuð kynferðislega og geta afleiðingarnar oft verið langvarandi og í sumum tilfellum varað alla ævina. Þá er hér um að ræða brot sem eru þess eðlis að brotið er gegn trúnaðarskyldu gagnvart barninu. Rétt þykir að alvarleiki þessara brota verði virtur í þessu ljósi og er því lagt til að refsimörk vegna grófustu kynferðisbrota gegn börnum verði hækkuð.

Í þessu skyni er lögð til breyting á 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um samræði eða önnur kynferðismök við eigið barn eða annan niðja. Varðar slíkt athæfi nú fangelsi allt að sex árum, og allt að tíu árum sé barn yngra en 16 ára. Sömu refsingu varðar brot samkvæmt 1. mgr. 201. gr. hegningarlaga, en þar er fjallað um samræði eða önnur kynferðismök við barn eða ungmenni yngra en 18 ára sem er kjörbarn viðkomandi, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis.

Með breytingunni er lagt til að refsimörkin í báðum ákvæðunum verði hækkuð þannig að þessi brot varði fangelsi allt að átta árum, en tólf árum sé barnið yngra en 16 ára.

Hér er farin sú leið að hækka refsiramma í kynferðisbrotum gegn börnum og þannig er gert ráð fyrir að refsingar fyrir þau brot verði þyngri. Þetta er tiltölulega einföld breyting sem getur náð þeim markmiðum sem að er stefnt, að þyngja refsingar fyrir kynferðisbrot gegn börnum.

Þegar réttarstaðan annars staðar á Norðurlöndunum er borin saman við Ísland er ljóst að meira samræmi er almennt þar en hér á landi milli refsiramma fyrir nauðgun annars vegar og kynferðislega misnotkun barna hins vegar. Rétt er þó að benda á að hafi barni verið nauðgað er ákært fyrir nauðgun samkvæmt 194. gr. hegningarlaganna en hámarksrefsing fyrir það brot er 16 ára fangelsi og refsilágmark eitt ár. Hámarksrefsing fyrir kynferðislega misnotkun barna er ekki almennt lægri hér á landi en annars staðar en hafa verður til hliðsjónar að annars staðar á Norðurlöndunum, að Danmörku undanskilinni, eru ákvæði um lágmarksrefsingar sem stuðla vitaskuld að þyngri refsingum. Lágmarksrefsingar heyra þó til undantekninga í íslenskum refsirétti og því þótti refsiréttarnefnd ráðuneytisins rétt að fara þá leið sem farin er í frv.

Í 202. gr. laganna er lögð til sú breyting að það verði refsivert að tæla ungmenni yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka. Eins og lagaákvæðið hljóðar í dag er refsivert að tæla barn á aldrinum 14--16 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka. Með breytingunni er því börnum fengin ríkari vernd á þessu sviði.

Aðrar breytingar sem gerðar eru á kynferðisbrotakafla almennu hegninarlaganna í frv. eru eingöngu lagatæknilegs eðlis og miða að því að gera tilvísun til ákvæðanna auðveldari í ákæruskjölum og dómum.

Annar megintilgangur þessa frv. er að festa í hegningarlög sérákvæði sem lýsir mansal refsivert, sbr. 5. gr. frv. Verslun með fólk er alvarlegt vandamál sem steðjar að alþjóðasamfélaginu í dag. Menn hafa smám saman áttað sig á því hversu útbreitt þetta vandamál er, og þá einkum verslun með konur og börn. Sameinuðu þjóðirnar áætla að árlega sæti yfir 4 millj. manna mansali og að ágóðinn af þessari starfsemi sé yfir 5--7 milljarðar bandaríkjadala, þ.e. meiri en ágóðinn af ólöglegri fíkniefna- eða vopnasölu heimsins. Norðurlandaþjóðirnar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun og því ákváðu jafnréttisráðherrar og dómsmálaráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna að berjast sameiginlega gegn vandamálinu. Liður dómsmrh. í átakinu var m.a. að sjá til þess að verslun með fólk væri refsivert brot samkvæmt lögum.

Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að refsivert verði að útvega, flytja, hýsa eða taka við einhverjum sem beittur er eða beittur hefur verið ólögmætri nauðung, frelsissviptingu, hótun, ólögmætum blekkingum eða annarri ótilhlýðilegri aðferð ef það hefur verið gert í þeim tilgangi að notfæra sér viðkomandi kynferðislega eða til nauðungarvinnu eða til að nema á brott líffæri hans. Sé um að ræða einstakling yngri en 18 ára þarf ekki að beita þeim aðferðum sem lýst er í ákvæðinu til að um refsiverðan verknað sé að ræða. Brot gegn ákvæðinu getur varðað allt að átta ára fangelsi. Þótt sú háttsemi sem hér er lýst sé í flestu tilliti þegar refsinæm er með þessu verið að leggja sérstaka áherslu á þessi brot og auka refsivernd gegn þeim. Var við samningu ákvæðisins höfð hliðsjón af 3. gr. bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi sem nefndur hefur verið Palermo-samningurinn. Þess má geta að Danir fóru þessa sömu leið þegar þeir lögfestu ákvæði um mansal í löggjöf sinni nýverið.

Herra forseti. Ég hef nú í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.