Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 10:58:37 (3523)

2003-02-06 10:58:37# 128. lþ. 74.3 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[10:58]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Í dag er tími til að fagna þessu frv. hæstv. dómsmrh. Það er auðvitað afrakstur mikillar vinnu sem hefur verið lögð fram, m.a. þeirrar skýrslu sem sú sem hér stendur óskaði eftir um samanburð á lagaumhverfi Norðurlandanna. Ég fæ ekki betur séð en að við séum að færa okkur verulega í þá átt með þeim tillögum sem hérna liggja fyrir. Það er afar mikilvægt að þessi löggjöf og allt er varðar börn sé börnum hliðhollt og að við stöndum með þeim í einu og öllu. Það er spurning líka um ákveðið forvarnagildi og fælingaráhrif hvað þetta varðar.

Ég fagna því líka sérstaklega að mansalið skuli vera komið inn í lagatexta og jafnframt fagna ég því að búið er að setja inn ákvæði varðandi það að nema brott líffæri. Það mál herjar t.d. meira eða minna á alla Suður-Ameríku. Við vitum aldrei hvenær þetta vandamál berst hingað til okkar. Við hér heima erum líka í heiminum sjálfum og þannig ekki óhult fyrir svona vandamálum og ég fagna sem sagt þessu nýmæli.

Það eina sem ég man ekki alveg til --- það var frv. um sérstaka vernd, vitnaverndina og annað sem er afar mikilvægt í mansalsmálunum. Það hefur komið fram á öllum þessum ráðstefnum, bæði stóru kvennalýðræðisráðstefnunni og eins ráðstefnu í Kaupmannahöfn með lögreglu og annars staðar þegar við ræddum þar mansalið fyrir tveimur árum eða svo, að vernd gagnvart þessum konum sé sérstaklega brýn. Það er eitt af því sem m.a. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt ríka áherslu á þannig að við tryggjum í rauninni kannski að upplýsingar fáist, bæði um þá hópa og aðra sem stunda mansalið.

Eins og ég segi fagna ég öllu því sem snýr að börnum og tel að í frv. sé falin mun ríkari vernd gagnvart þeim en áður var.

Það er líka annað sem tengist órjúfanlega þessu máli og það eru bætur til þolenda kynferðisafbrota. Hér á dagskrá í dag er lítið frv. frá mér sjálfri um breytingu á lögunum um bætur til þolenda afbrota. Ég ákvað bara að flytja það ein og sér og mun sennilega senda það umræðulaust til nefndar vegna þess að það er ekki nægilegt að við séum með góð lög sem tryggja refsingu við kynferðisafbrotum gegn börnum ef við erum ekki með nægilega styrkar stoðir til að tryggja þeim bætur sem fyrir þessu tjóni verða. Árið 1996 var samþykktur hér ákveðinn bandormur í ríkisfjármálum og þessar bætur voru lækkaðar um helming á þeim tíma en áttu að leiðréttast aftur árið 1997. Það hefur aldrei orðið af þeirri leiðréttingu og þess vegna flutti ég nákvæmlega þá tillögu sem var ætlast til að yrði flutt 1997 í tengslum við fjárlög. Þá var þetta allt skorið niður um helming og átti að leiðrétta eins og kemur fram í gögnum þingsins og öllum ræðum tengdum þessum máli. Ég vil því minna á tengslin --- það eru órjúfanleg tengsl þarna á milli um bætur til þolenda kynferðisafbrota. Það þýðir ekki bara að tala um brotin sjálf, heldur líka bætur til þeirra sem fyrir þeim verða og það er auðvitað þyngra en tárum taki því þær bætur sem nú eru ákvarðaðar í lögum duga varla fyrir sálfræðiviðtölum, svo ekki sé meira sagt. Ég vil minna á það mál. Það fer líka umræðulaust til nefndar. Allt hangir þetta saman. Við munum fara yfir þetta mál í allshn. og ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu að þetta verði samþykkt með bros á vör og sól í sinni.