Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 11:03:06 (3524)

2003-02-06 11:03:06# 128. lþ. 74.3 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[11:03]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér leggur hæstv. dómsmrh. fram afar þarft frv. með þörfum breytingum sem ber að fagna en hér eru líka á ferðinni ákvæði við hegningarlögin sem beðið hefur verið eftir með nokkurri óþreyju og á ég þar kannski sérstaklega við ákvæðið sem lýtur að mansali. Ég fagna því að það skuli vera gert að sérstöku atriði núna í hegningarlögum að hverjum þeim sem gerist sekur um mansal verði refsað en það er allt í samræmi við umræðu sem átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar á síðustu árum. Síðan 1996 hefur verið unnið ötullega að því í ýmsum Evrópulöndum að finna leiðir til að stemma stigu við vaxandi glæpastarfsemi sem tengist innflutningi fólks á milli landa, ekki hvað síst sölu aðallega kvenna og barna frá Austur-Evrópu og Asíu til kynlífsþrælkunar á Vesturlöndum.

Í nýjum skýrslum frá þrýstihópum um málefni kvenna innan Evrópusambandsins og í málum sem komið hafa fyrir Evrópuþingið upp á síðkastið má greina mjög mikla hreyfingu í þá átt að finna leiðir til að koma í veg fyrir mansalið en ekki síður hugmyndir og kröfur um að fórnarlömbum mansalsins verði sinnt á viðunandi hátt. Þar er fyrst og fremst um að ræða vitnavernd og síðan það sem kalla má fórnarlambavernd eða eins og það kallast á engilsaxneskri tungu ,,witness protection`` og ,,victim protection`` því það vandamál fer nú vaxandi í Evrópulöndum að konum sem smyglað hefur verið yfir landamæri og eru því ólöglegar í viðkomandi landi þarf að beina aftur til baka þangað sem þær komu en þar bíður þeirra ekkert annað en að lenda aftur í klóm glæpamannanna sem upphaflega hnepptu þær í þrældóm kynlífsiðnaðarins.

Þess vegna hvílir nú sterk krafa, herra forseti, á ríkisstjórnum Evrópulandanna að leiða í lög þannig vernd að konurnar sem leita ásjár, oft kvennasamtaka eða kvennaathvarfa, fái vernd í viðkomandi landi, dvalarleyfi og jafnvel atvinnuleyfi, í öllu falli það öryggi sem nægir til að gera þær löglegar í landinu. Ég hvet íslensk stjórnvöld og allshn. Alþingis til að athuga vel þá þróun og athuga hvort ekki er tímabært fyrir okkur að innleiða þessa umræðu hér og vera þannig í samfloti við nágrannalönd okkar.

Innan Sameinuðu þjóðanna hefur verið unnið talsvert starf til að koma í veg fyrir mansal og eins og hæstv. dómsmrh. gat um var samþykktur samningur gegn skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi, Palermo-samningurinn og bókanirnar við hann. Ein bókunin lýtur sérstaklega að verslun með konur og börn til kynlífsþrælkunar. Sú bókun felur í sér skuldbindingar aðildarlandanna um að allra leiða sé leitað, m.a. með lagasetningu, til að stemma stigu við þeirri glæpastarfsemi sem þrífst undir hatti kynlífsiðnaðar vítt og breitt um heiminn. Glæpastarfsemi þar sem söluvaran er fólk, oftar en ekki bláfátækt fólk, konur og börn sem eiga ekkert val í heimalöndum sínum og ýmist knúið til að samþykkja verslunina nauðugt eða viljugt.

Ísland hefur staðfest þennan samning, herra forseti, og hæstv. dómsmrh. er nú að leitast við að leiða hann að hluta til í lög. Hæstv. ráðherra hefur í umræðum á Alþingi sagt að ekkert sé því til fyrirstöðu að sá samningur verði fullgiltur enda sé það vilji velflestra ríkja að undirgangast hann. Ég vil lýsa yfir ánægju með þessa afstöðu hæstv. ráðherra og ég fagna því að sú lagabreyting sem lögð er til í því frv. sem við nú ræðum skuli hafa litið dagsins ljós.

Ég lýsi því þó um leið yfir að ég hefði gjarnan viljað sjá gengið skrefi lengra í þessu máli. Ég hef reyndar sagt að full þörf sé orðin á að taka allan kynferðisbrotakafla hegningarlaganna til rækilegrar endurskoðunar og raunar hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir að slík endurskoðun sé á döfinni, en ég fæ ekki betur séð en þetta þing muni líða áður en til slíkrar endurskoðunar komi. Ég vil segja varðandi þetta sérstaka ákvæði um mansalið að það hefði að ósekju verið í lagi að fá inn frekari ákvæði og vil ég þá vísa til hugmynda sem koma fram í skýrslu nefndar sem falið var að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis, en sú nefnd lagði einmitt til að ákvæði á borð við þetta yrði sett í lögin. Jafnframt eru í skýrslu nefndarinnar hugleiðingar um sænsku aðferðina, sænsku leiðina, og við verðum að athuga það að eitt öflugasta tækið í baráttunni gegn mansali og kynlífsiðnaði almennt er að gera það refsivert að kaupa þjónustuna.

Sannleikurinn er sá að umræðan eins og hún hefur átt sér stað í Evrópu upp á síðkastið allt síðasta ár hefur miðað í þá átt að hvetja ríkisstjórnir landanna til að fara að dæmi Svíþjóðar og lögleiða hina svokölluðu sænsku leið. Hæstv. ráðherra hefur sjálf sagt í blaðaviðtali og ég er hérna með úrklippu úr Fréttablaðinu frá 18. september 2002 þar sem hún segir, með leyfi forseta:

,,Íslendingar horfa til reynslu nágrannaríkjanna í þessum málum, einkum Svíþjóðar en þar hefur verulega dregið úr verslun með konur síðan lögum var breytt.``

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að sænska aðferðin er að virka í Svíþjóð og hún virkar ekki hvað síst á mansalið. Sannleikurinn virðist vera sá að þeir sem stunda þessa glæpastarfsemi, að selja konur milli landa, hafa strikað Svíþjóð út af viðkomulista sínum. Svíþjóð er orðið það land sem þessir glæpamenn forðast. Þó að ýmislegt megi kannski segja um þessa sænsku aðferð þá er þó samdóma álit manna sem um hana hafa fjallað þar að hún virki á glæpamenn sem stunda mansal.

Í því sambandi vil ég minna á frv., herra forseti, sem ég ásamt tveimur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hef lagt fram á þinginu ítrekað, og liggur frammi á þessu þingi á þskj. 39, þar sem lögð er til þessi sænska leið. Og ég get ekki betur séð, herra forseti, en að það hefði verið ágætistækifæri fyrir hæstv. ráðherra að fara nú að dæmi Svía nákvæmlega í því frv. sem hún flytur og leggja það til að kaup á hvers konar kynlífsþjónustu verði lýst refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum á Íslandi. Ég lýsi því yfir, herra forseti, að það eru hálfgerð vonbrigði að slíkt skyldi ekki hafa verið upp á teningnum hér. Það hefði verið betra að fara dýpra í saumana á málinu þó svo ég fagni að sjálfsögðu þeirri viðleitni sem fram kemur í frv. hæstv. ráðherra.