Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 11:10:36 (3525)

2003-02-06 11:10:36# 128. lþ. 74.3 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[11:10]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Við ræðum frv. um breytingar á almennum hegningarlögum. Ákvæði frv. lúta að því annars vegar að hækka refsimörk vegna kynferðisafbrota sem beinast að börnum og hins vegar að því að lögfesta nýtt sérstakt ákvæði sem leggur refsingu við mansali. Samkvæmt greinargerð frv. er stefnt að því með breytingunum á kynferðisbrotakaflanum að veita brotaþola, sem er barn í þessu samhengi, rýmri refsivernd vegna kynferðisbrota.

Það segir jafnframt í greinargerðinni að á undanförnum árum hafi orðið betur ljós sá mikli skaði, oft langvarandi og jafnvel varanlegur, sem börn geta orðið fyrir vegna kynferðislegrar misnotkunar. Í alvarlegustu tilvikunum sé varla ofsagt að velferð og framtíð barna hafi verið lögð í rúst. En þetta held ég, herra forseti, að sé ekki of sterkt til orða tekið og það blasir við hverjum þeim sem kynnst hefur barni sem orðið hefur fyrir slíku broti eða fullorðnu fólki sem orðið hefur fyrir slíku broti sem barn eða unglingur, að slík brot skilja eftir sig alvarlegan varanlegan skaða og andleg sár sem aldrei gróa um heilt. Um fjölgun dómsmála vegna þessara brota á síðustu 10--15 árum segir í greinargerðinni að ekki sé einhlítt hvernig hægt sé að skýra eða hvernig beri að skýra en fjölgunin geti bæði verið rakin til þess að brot þessi hafi áður verið dulin og eins til þess að fleiri brot séu nú framin. En meginmarkmið okkar hlýtur að vera að reyna að leita allra leiða til að fækka slíkum brotum og helst að koma í veg fyrir þau brot og hækkun refsimarka er ein þeirra leiða sem að margra mati er til þess fallin að draga úr brotunum og fækka þeim eða helst að koma í veg fyrir þau.

Ef á hinn bóginn sú er raunin og skýringin á fjölgun dómsmála að jafnvel fleiri kynferðisbrot séu framin gagnvart börnum nú heldur en fyrr þá finnst mér einsýnt að leita þurfi annarra leiða og fara jafnframt í gagngera skoðun á ástæðum og orsökunum fyrir því að brotunum sé að fjölga. En um hækkun refsimarka vegna grófustu kynferðisbrota gagnvart börnum segir í greinargerðinni, með leyfi forseta, að gert sé ráð fyrir að dæmd verði þyngri refsing vegna þessara brota. Þyngri refsingum er ætlað að hafa forvarnaáhrif. Þeim mun ætlað að fæla menn frá því að fremja þessi brot, og við getum í sjálfu sér ekki annað en vonað að sú verði raunin ef frv. verður að lögum og kemur til framkvæmda. En á hinn bóginn meðan við vitum ekkert um hvort fjölgun dómsmála skýrist af fjölgun brota eða hvort ástæðan sé sú að nú séu þau frekar kærð en fyrr, þá lít ég svo á að það verði seint séð eða því haldið fram af nokkru viti að hækkun refsiramma og þyngri refsingar skili tilætluðum árangri.

Þyngri refsingar þýða lengri fangelsisvist og lengri fangelsisvist fylgir aukinn kostnaður ríkisins. Frændur okkar Danir gera a.m.k. ráð fyrir því að þynging refsinga kalli á aukinn kostnað í rekstri fangelsa. Í greinargerð með dönsku lagafrv. með sams konar ákvæði um mansal og það sem við erum að ræða um hér og jafnframt ákvæðum um hækkun refsimarka fyrir ýmis ofbeldisbrot, þá rakst ég m.a. á áætlun um aukinn kostnað danska ríkissjóðsins vegna lagabreytinganna og hækkaðs refsiramma. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. um þetta frv. okkar segir hins vegar, með leyfi forseta: ,,Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs svo að nokkru nemi.`` Því hlýt ég að spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hún geri fyrir fram ráð fyrir því að dómstólar nýti ekki nýjan og hærri refsiramma sem leiði til þyngingar refsinga.

[11:15]

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir hafði orð á því áðan að hún hefði lagt fram frv. um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota sem hún vonaðist eftir að fengi afgreiðslu í þinginu. Í því frv. er gert ráð fyrir að miskabætur skuli hækka. En í lögunum eins og þau eru í dag, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, er gert ráð fyrir því að miskabætur geti ekki orðið hærri en 1 millj. kr. Mig langar í tilefni af þessu að hafa orð á því hér að þetta frv. eða þessi lög fjalla fyrst og fremst um ábyrgð ríkisins í þeim tilvikum sem brotamaður er ekki fær um að greiða eða er ekki gjaldfær, að ríkið komi þá inn í það og sjái til þess að brotaþolinn fái bæturnar greiddar. Það sem þarf hins vegar að huga að og er kannski til þess fallið að leggja frekari áherslu til viðbótar hækkuðum refsiramma og vegna alvarleika þessara brota og alvarlegra afleiðinga fyrir þá sem fyrir þessum brotum verða, andlegum og félagslegum, er að breyta þeirri dómvenju sem ríkt hefur hér um langt árabil, þ.e. að einungis er verið að dæma bætur upp á 500, 600 eða 700 þús. hæstar. Þar af leiðandi greiðir ríkissjóður ekki hærri bætur á grundvelli þessara laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. En ég held að ef þetta tvennt fer saman, bæði hækkaður refsrammi og að dómstólar fara að hafa víðari sýn á afleiðingar þessara brota, geti það orðið til þess að bæturnar hækki samkvæmt dómum. Þá þarf náttúrlega líka að fylgja að ríkissjóður ábyrgist þær hærri bætur ef dæmdar verða. Þetta var um tillögur frv. að breytingum á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.

Frv. geymir líka sérstakt nýtt ákvæði sem leggur refsingu við mansali. Í sjálfu sér, að óbreyttum lögum, getur mansal skilgreint sem hagnýting á manni varðað við ýmis ákvæði almennra hegningarlaga, svo sem 206. gr. Jafnframt getur mansalsbrot varðað við ákvæði laganna um brot gegn frjálsræði manna. Með þessu frv. er hins vegar sú leið farin, með hliðsjón af svokölluðum Palermo-samningi Sameinuðu þjóðanna og sérstakri bókun við hann um aðgerðir gegn mansali, að leggja til að við lögfestum sérstakt ákvæði um mansal. Ákvæði frv. geymir skilgreiningu á mansali og það geymir tvær mismunandi verknaðarlýsingar eftir því hvort brot beinist að einstaklingi yngri eða eldri en 18 ára, þ.e. eftir því hvort brot beinist að barni eða fullorðnum einstaklingi. Ef mansalsbrot beinist að fullorðnum er áskilið að beitt sé við það tilteknum öðrum brotum hegningarlaganna, ólögmætri nauðung, frelsissviptingu eða hótun eða, eins og segir í niðurlagi 1. tölul. 2. mgr. 5. gr. frv., ,,ólögmætum blekkingum með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér villu viðkomandi`` --- og síðan segir --- ,,eða annarri ótilhlýðilegri aðferð``.

Í dönsku refsilögunum sem geyma samhljóða sérstakt ákvæði um mansal heitir ,,önnur ótilhlýðileg aðferð`` ,,anden utilbørelig fremgangsmåde``. Ég hef í sjálfu sér ekkert við þessa þýðingu að athuga en það bíður vitaskuld dómstólanna að skýra og túlka hvaða háttsemi það er sem fellur undir þetta orðalag. Hins vegar má velta því fyrir sér hvers vegna þetta orðalag er valið bæði í danska ákvæðinu og í þessu frv. í stað beinnar þýðingar á orðalagi í mansalsbókuninni við Palermo-samninginn þar sem talað er um ,,abuse of power or of a position of vulnerability``. Það heitir á dönsku ,,ud\-nyttelse av en sårbar stilling``. Það orðalag tekur ólíkt betur yfir þær tvíhliða og fjölþjóðlegu skyldur aðildarríkjanna að bókuninni, þ.e. að grípa til forvarnaaðgerða gegn mansali og ráðstafana á sviði mennta- og félagsmála sem ráðast að rótum mansalsins sem er fátækt og bágt efnahagsástand í þessum löndum þaðan sem þeir sem fyrir þessu verða koma. Lögfesting þessa frv. mun vera ein forsenda þess, alla vega hvað þessa bókun varðar um mansalið, fyrir því að hægt sé að fullgilda Palermo-samninginn sem fjallar náttúrlega um fleira og að lögfestu þessu ákvæði um mansalið munum við geta fullgilt hann þegar búið er að huga að öðru því sem Palermo-samningurinn fjallar um.

Ég geri ráð fyrir, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. þar sem ég vænti þess að það fái vandaða umfjöllun. Ég vænti þess líka að við hugum þar vel að orðalagi þessa ákvæðis og reynum þá að tryggja að við séum með því að veita frekar ríkari vernd heldur en rýrari.