Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 11:21:47 (3527)

2003-02-06 11:21:47# 128. lþ. 74.3 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[11:21]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir mjög málefnalega umræðu um þetta frv. og ýmsar góðar ábendingar. Hér hefur verið rætt t.d. nokkuð um vitnavernd. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir ræddi hana sérstaklega. Ég vil benda á að vitnaverndarákvæði sem var breytt fyrir nokkrum árum er í almennu hegningarlögunum þar sem það er gert að sérstöku refsiákvæði og ég tel það ákaflega mikilvægt. Jafnframt er verið að skoða nánari útfærslu á vitnavernd í dómsmrn., t.d. varðandi nafnlaus vitni í dómsal og fleira í þá veru. Það eru hins vegar ákvæði sem snerta lög um meðferð opinberra mála. Þetta eru mál sem ég hef rætt sérstaklega á fundi norrænna dómsmálaráðherra. Það er ljóst að Norðurlöndin hafa gert ýmsar breytingar í þessa veru og ég tel afskaplega mikilvægt að við bregðumst við í þessum efnum því að það hefur sýnt sig, eins og hv. þingmenn benda réttilega á, að þarna skiptir miklu máli að bregðst við skipulagðri glæpastarfsemi, ekki bara varðandi mansal, sölu á konum og börnum, heldur líka varðandi sölu og smygl á fíkniefnum. Ég tel að þetta séu ákaflega mikilvæg mál og fagna því að hv. þm. eru mér sammála um það.

Það hefur líka verið bent nokkuð á og rætt um upphæð miskabóta í tengslum við þetta mál, þ.e. dæmdar bætur vegna kynferðisbrota, og það frv. sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir mun mæla fyrir seinna í dag og ég vil taka undir það að ég tel rétt að við skoðum þessi mál. Ég hef rætt það í mínu ráðuneyti. Ég tek undir með hv. þm. Jónínu Bjartmarz sem minntist á það sérstaklega einnig að hækka bæri miskabætur í dómum, þ.e. að dómarar ættu að dæma hærri miskabætur þar sem um væri að ræða alvarleg mál eins og kynferðisbrot gegn börnum þar sem afleiðingarnar geta verið mjög alvarlegar og varað jafnvel alla ævi. Að vísu hafa þessar bætur hækkað talsvert mikið undanfarin ár en það þarf að gera betur. Ég er sammála því.

Ég vil vekja athygli á því að í 26. gr. skaðabótalaganna þar sem fjallað er um slíkar bætur er ekkert hámark. Dómarar hafa því í raun og veru algjörlega frjálsar hendur um hversu háar bætur þeir dæma. Ég þekki líka vel málið um ríkisábyrgð á dæmdum miskabótum vegna þess að ég var 1. flm. þessa máls í þinginu þegar það fór hér í gegn. Það er mál sem mér finnst sjálfsagt að við skoðum líka samhliða þessari tillögu hjá hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræddi líka um vitnaverndina. Ég get bætt því við að við höfum skoðað þessi mál, eins og ég sagði áðan, mjög vel í dómsmrn., t.d. hefur fulltrúi minn í dómsmrn. farið til Bandaríkjanna í sérstaka kynnisferð á vegum bandaríska sendiráðsins til að kynna sér þær breytingar sem stjórnvöld hafa verið að gera þar á þessum málum. Ég held að mér sé óhætt að segja að m.a. hefur það verið lagt til að ef þolandi í slíku máli vill bera vitni geti hann fengið skammtímadvalarleyfi í landinu þannig að það er alveg ljóst að það er verið að vinna víða í þessum málum.

Við höfum líka rætt þessi mál sérstaklega á fundum eins og fundi sem var í Vilnius, Konur og lýðræði, þannig að við höfum kynnt okkur þessi mál mjög vel.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á sænsku leiðina og inn á það að hún hefði viljað sjá kannski fleiri breytingar í frv., heildarendurskoðun á þeim ákvæðum sem snerta kynferðisbrot. Það má til sanns vegar færa að það þarf að fara yfir öll þessi ákvæði og ég mun óska eftir því við refsiréttarnefnd ráðuneytisins að það verði gert. Mig langar kannski aðeins til þess að víkja að þessu nánar. Það er alveg ljóst að refsiréttarnefnd hefur einmitt haft til hlíðsjónar skýrslu sem var minnst á hér áðan, bæði skýrslurnar sem fjalla um samanburð á klámi og fleiru á Norðurlöndum og líka um vændi og félagslegar afleiðingar þess. Það var m.a. skoðað sérstaklega í refsiréttarnefnd hvort ætti að fjalla um kynferðislegan lögaldur í þessu frv. Hann er bara 14 ár hér á landi en er hærri annars staðar á Norðurlöndunum, 15 eða 16 ár. Ekki náðist samstaða um það í nefndinni enda gera menn sér grein fyrir því að þetta er nokkuð vandmeðfarið.

Enn fremur var rædd sú gagnrýni sem hefur komið fram á þennan greinarmun sem gerður er á nauðgun annars vegar og kynferðislegri misnotkun á börnum hins vegar í almennum hegningarlögum. Samkvæmt frv. sem við ræðum hér er ekki hróflað við þessari uppbyggingu hegningarlaganna eins og hún kemur hér fram þar sem slíkt krefst mun viðameiri athugunar og undirbúnings. En refsiréttarnefnd mun innan skamms verða falin gagnger endurskoðun á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna þar sem þessir þættir verða sérstaklega skoðaðir.

Með þessu frv. er hins vegar á skjótan hátt verið að senda út þau skilaboð að það beri að þyngja refsingar fyrir kynferðislega misnotkun á börnum og færa refsiramma fyrir kynferðislega misnotkun gegn börnum nær refsirammanum í nauðgunarákvæðinu.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz kom með ágæta ábendingu, eins og ég reyndi að koma að í framsögu minni, þ.e. spurningu um það hvort ekki þurfi að skoða nánar ástæður þess að ákærum og dómsmálum sé að fjölga í þessum málaflokki. Ég tel alveg ljóst að öll sú opinbera umræða sem hefur átt sér stað og allt það góða starf sem er unnið víða í þjóðfélaginu, bæði hjá Stígamótum, í grasrótarsamtökum og neyðarmóttöku slysadeildar Borgarspítalans sem ég tel að hafi unnið mjög gott starf á þessu sviði og áhersla lögregluyfirvalda á þessi mál hafi þarna haft ákveðin áhrif. Það er auðvitað ekki sami þagnarmúr í kringum þessi afbrot í dag eins og var. Það er ekki langt síðan þessi mál, t.d. sifjaspellsmál, voru ekkert rædd opinberlega.

Hv. þm. minntist líka á að Danir hafi bent á það sérstaklega þegar var verið að ræða um mansalsákvæðið og koma því í gegn um danska þingið að það mundi væntanlega hafa í för með sér hækkun útgjalda ríkissjóðs, sem sé útgjalda sem tengjast fangavist. Þetta er athyglisverð ábending hjá hv. þingmanni. Ég vona svo sannarlega að ef þetta frv. verður að lögum hafi það ákveðin varnaráhrif í för með sér þannig að vonandi gæti þessum brotum fækkað. Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því að þarna getum við séð kannski einhver aukin útgjöld hjá ríkissjóði sem þarf þá vissulega að bregðast við. Danir eru ekki bara að hugsa um kostnaðinn af þessum málum vegna þess að þeir hafa nýverið hækkað refsirammann vegna nauðgunarákvæðisins. Refsiréttarnefnd ráðuneytisins telur greinilega að markmið frv. um þyngingu refsinga eigi að nást ef þetta frv. verður að lögum með því að hækka refsirammann og því er ég sammála.

Hér var líka rætt sérstaklega um mansal, þ.e. þetta ákvæði og dönsku lögin og hvernig þýðingin væri í þeim efnum. Það er auðvitað rétt að þetta sé skoðað í hv. allshn. En ég tel að með þessu ákvæði séum við í fullu samræmi við skilgreiningu 3. gr. bókunar við Palermo-samninginn sem fjallar um baráttu gegn verslun með fólk og undir ,,aðra ótilhlýðilega aðferð`` sem getið er í ákvæðinu mundi t.d. falla það að maður misnoti sér það að einstaklingurinn sé honum háður.

Eins og ég sagði í upphafi, herra forseti, þakka ég hv. þingmönnum fyrir málefnalega umræðu um frv. Ég veit að hv. allshn. mun fara vel yfir málið og ég treysti því að það komi til 2. umr. frekar fyrr en seinna vegna þess að skammur tími er til stefnu á þinginu eins og við öll vitum.