Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 11:32:13 (3528)

2003-02-06 11:32:13# 128. lþ. 74.3 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[11:32]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði orð á því í ræðu minni að Danir hefðu nýlega hækkað refsirammann fyrir tiltekin ofbeldisbrot og að í greinargerð með því frv. hefði verið að finna áætlun um aukinn kostnað danska ríkissjóðsins sem því var talið samfara enda virtist vera litið til þess að hækkaður refsirammi mundi leiða til lengri fangelsisvistar og þar af leiðandi aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. Þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að spyrja þegar við erum að hækka hér refsiramma, og þá er ég ekki að tala um mansalið eins og hæstv. ráðherra nefndi hér áðan heldur fyrir þessi kynferðisbrot, hvers vegna segi í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. að ekki sé ástæða til að ætla að lögfesting frv. hafi áhrif á útgjöld ríkisins svo nokkru nemi. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra hvort hún teldi ekki að dómstólar mundu dæma þyngri refsingar á grundvelli frv. og þá með tilheyrandi auknum kostnaði.

Það má segja sem svo að hækkun refsirammans ein og sér geti haft fælandi áhrif eða forvarnaáhrif og aftrað mönnum frá því að fremja þessi brot. En þegar það fylgir svo með að ekki sé gert ráð fyrir því að hækkunin verði nýtt efast ég um að hún hafi þau fælingaráhrif sem lagt er af stað með í þessu frv.