Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 11:34:58 (3530)

2003-02-06 11:34:58# 128. lþ. 74.3 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[11:34]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra sem kom fram í ræðu hennar um að hún hygðist fela refsiréttarnefnd endurskoðun kynferðisbrotakafla hegningarlaganna en eins og ég vék að í ræðu minni er það orðið löngu tímabært.

Það er eitt sem mig langar í því sambandi til að hvetja til. Mig langar til að hvetja hæstv. ráðherra til að tryggja að við þá endurskoðun verði haft öflugt samráð við það fólk sem starfað hefur í þessum geira, t.d. samtök kvennahreyfinga --- ég nefni sérstaklega Stígamót sem hæstv. ráðherra gat líka um í ræðu sinni --- þannig að það fólk sem starfað hefur úti á akrinum í þessum málum fái öfluga aðkomu að þeirri endurskoðun.

Að lokum langar mig líka til að hvetja hv. allshn. til að skoða vel þessa umræðu sem ég er sammála hæstv. ráðherra um að hafi verið gagnleg. Í henni hafa komið fram ýmsar ábendingar og ég treysti því að hv. allshn. taki þær ábendingar og hugmyndir sem hér hafa komið fram í umræðunni inn á sitt borð og skoði þær. Í því sambandi langar mig sérstaklega til að nefna það, af því að hv. þm. Jónína Bjartmarz talaði hér um orðalag og þýðingar, að það er auðvitað til vansa að við skulum ekki hafa í gögnum okkar þýddan samninginn frá Palermo og bókanirnar við hann. Það verður auðvitað að vinda bráðan bug að því. Þegar við fjöllum um svona mikilvæga samninga sem við erum að fullgilda verður auðvitað að liggja frammi aðgengileg íslensk þýðing þannig að allur almenningur geti fylgst vel með og þingmenn eigi þá líka auðveldara með að nýta sér þessi þungu gögn.