Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 11:56:31 (3534)

2003-02-06 11:56:31# 128. lþ. 74.4 fundur 538. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (heildarlög) frv., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[11:56]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst fagna því frv. sem hæstv. félmrh. hefur nú mælt fyrir um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins en eins og fram hefur komið fyrr við þessa umræðu þurfti að draga til baka á 126. löggjafarþingi frv. um Greiningar- og ráðgjafarstöð ásamt tveimur öðrum lagafrv. þegar ekkert varð af fyrirhugaðri yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. Þau frv. gerðu ráð fyrir að gildandi lög um málefni fatlaðra yrðu þá með þeirri gildistöku felld úr gildi.

Mig langar að byrja á að fagna sérstaklega þeirri skilgreiningu sem er að finna í 1. gr. frv. þar sem ekki er einungis talað um fatlaða einstaklinga, heldur talað um börn með alvarlegar þroskaraskanir sem geti leitt til fötlunar.

En ég ætla að fá að taka undir það sem segir í athugasemdum með frv. að full rök séu fyrir því að setja sérstök lög um Greiningar- og ráðgjafarstöðina. Við sem þekkjum til reksturs stöðvarinnar vitum að þarna er að stærstum hluta verið að staðfesta og lögbinda þá starfsemi sem verið hefur á stöðinni undanfarin ár, eins og sú starfsemi hefur verið að þróast frá því að starfssvið hennar var fyrst lögfest 1986, en jafnframt er við þetta verið að taka tillit til þróunar þjónustu annarra sem boðið er upp á, bæði á vegum ríkisins og sveitarfélaganna.

Í athugasemdum með frv. segir um þá þróun hjá öðrum sem veita þjónustu að hún gefi tilefni til að efla sérhæfingu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar umfram það sem verið hefur og auka við sérstöðu hennar sem þekkingarmiðstöðvar á sviði alvarlegra þroskaraskana barna.

Um áframhaldandi staðsetningu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar undir félmrn. segir að það sé í samræmi við þann meginskilning að fötlunarhugtakið eigi við um þá skerðingu félagslegrar aðlögunar sem leiði af viðkomandi röskun þótt orsakir röskunarinnar séu oft læknisfræðilegar og kalli jafnframt á þjónustu heilbrigðisstofnana, segir í athugasemdum, en svo er áfram gengið út frá því að stöðin hafi samstarf við ýmsar stofnanir innan menntakerfisins og líka innan heilbrigðiskerfisins. Þá erum við að tala um stofnanir bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Það er einmitt þetta tvennt, herra forseti, þessar tvær forsendur frv., annars vegar fyrir aukinni sérhæfingu stöðvarinnar og hins vegar fyrir fyrirhugað aukið samstarf mismunandi kerfa, sem eru mér áhyggjuefni þótt ég í sjálfu sér gleðjist yfir því sem þetta frv. geymir og trúi því einlæglega að það geti orðið til að efla Greiningar- og ráðgjafarstöðina sem slíka á því verksviði sem henni er ætlað að sinna.

Reyndin hefur orðið sú, ef ég horfi sérstaklega til barna í grunnskóla, að oftar en ekki er það reynsla foreldra sem eiga börn sem þurfa þjónustu vegna alvarlegra þroskaraskana, lesblindu og hvað það nú er sem háir þeim í námi og starfi, að þau falla sýknt og heilagt á milli kerfa. Og þeir sem eru í forsvari fyrir kerfin vísa hver á annan og eins og við vitum er nú engin keðjan sterkari en veikasti hlekkurinn í henni.

En það kemur fram í frv. að frumgreiningin sem slík á að fara fram annars staðar, og jafnframt er gert ráð fyrir því nema í undantekningartilvikum að eftirfylgni fari líka fram annars staðar. Þess vegna segir það sig sjálft hversu miklu máli það skiptir með aðra en þá sem þurfa mesta þjónustu og fá eftirfylgnina á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni, að sú þjónusta sem frv. gengur út á sé til reiðu og standi undir nafni, hvort sem það eru aðrar stofnanir á vegum ríkisins eða sveitarfélaga sem eiga að veita hana.

Við þekkjum það mörg að með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna var sett ný reglugerð um sálfræði- og sérfræðiþjónustu barna í grunnskóla. Með þeirri reglugerð var verulega dregið úr þeirri þjónustu sem börn áttu rétt á, og þau eiga í sjálfu sér samkvæmt þeirri reglugerð einungis rétt á greiningu, sem er þá frumgreining, og síðan ekki á nokkurri meðferð. Það er heldur ekki talað um neina eftirfylgni.

Það sem við verðum líka að horfast í augu við er að ef sveitarfélög fara einungis að lágmarkskröfum þeirrar reglugerðar erum við að tala um einn sálfræðing sem á að þjóna 1.400 börnum fyrir utan kennslufræðilega ráðgjöf sem hann á að veita, fyrir utan það sem segir í reglugerðinni um að hann eigi að veita foreldrum sem eftir því óska ráðgjöf í uppeldishlutverki sínu, sinna forvarnastarfi í skólanum o.s.frv.

En eins og ég sagði, á sama hátt og ég fagna þessu frv. og því sem það kveður á um --- ég tel að það styrki starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar --- verðum við líka að reyna að sjá þessa hluti svolítið heildstætt og vera vel vakandi yfir því að aðrar stofnanir á vegum ríkisins og sveitarfélaga þurfa líka að standa sig í stykkinu og passa að börn falli ekki á milli þessara kerfa og þau séu að vísa börnunum og foreldrum þeirra með þau á milli sín öllum stundum.