Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 12:16:05 (3539)

2003-02-06 12:16:05# 128. lþ. 74.5 fundur 550. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímatilskipun, EES-reglur) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[12:16]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Frv. með sama nafni hafa verið lögð fram á 126. og 127. löggjafarþingi en urðu ekki útrædd. Þau fjölluðu eingöngu um fullgildingu tilskipana frá Brussel. En eftir umföllun í þinginu sl. vor var málið tekið til endurskoðunar í ráðuneytinu. Þetta frv. er talsvert breytt frá fyrri frumvörpum og er tekið á miklu fleiri atriðum.

Meðal breytinga sem lagðar eru til í frv. þessu eru breytingar á skipulagi Vinnueftirlitsins. Þær fjalla m.a. um stefnu stjórnvalda hvað varðar verkaskiptingu forstöðumanna stofnana og stjórna þeirra í ljósi breytinga sem orðið hafa á skipulagi hinnar íslensku stjórnsýslu og gildisitöku laganna. Markmiðið er að samræma stöðu og ábyrgð stofnana sem best við sjónarmið ráðherrastjórnsýslu annars vegar og nýrri áherslur um sjálfstæði stofnana, árangur og ábyrgð hins vegar.

Lagt er til að Vinnueftirlit ríkisins verði áfram sérstök stofnun sem er lægra sett stjórnvald. Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar sem ætlað er að bera lagalega og rekstrarlega ábyrgð á stofnuninni. Hlutverk og ábyrgð stjórnar Vinnueftirlitsins er skilgreind með öðrum hætti en verið hefur. Gert er ráð fyrir að stjórnin beri ábyrgð á faglegri stefnumótun Vinnueftirlitsins og sé ráðherra og forstjóra til ráðgjafar í málum er tengjast vinnuvernd. Er m.a. lagt til að hún geri tillögur til ráðherra um úrbætur en mikilvægt er að náið samráð sé haft við aðila vinnumarkaðarins um þetta efni.

Ekki er gert ráð fyrir að stjórnin komi að daglegum rekstri stofnunarinnar, enda er hann í höndum forstjóra. Til samræmis við framangreint er enn fremur lögð til sú breyting frá gildandi lögum að félmrh. verði falið að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laganna í stað stjórnar. Það er viðurkennt sjónarmið að framsali lagasetningarvalds skuli þröngar skorður settar. Þykir í því sambandi eðlilegra að framsalið nái einvörðungu til ráðherra fremur en sérstakrar stofnunar eða fjölskipaðs stjórnvalds, enda ber ráðherra ætíð ábyrgð á efni stjórnsýslufyrirmæla.

Þá er lagt til að ráðherra geti skipað vinnuverndarráð einstakra starfsgreina, en tilgangur þess er sá sami og liggur að baki stofnunar öryggisnefndar samkvæmt gildandi lögum. Er því samhliða gert ráð fyrir að 11. gr. laganna um öryggisnefndir falli brott.

Frv. er einnig lagt fram til innleiðingar á tilskipun nr. 93/104/EB um ákveðna þætti er varðar skipulag vinnutíma. Lagt er til að lögfestar verði meginreglur tilskipunarinnar sem gera aðildarríkjunum skylt að tryggja starfsmönnum rétt á 11 klukkustunda daglegum hvíldartíma, rétt á hvíldarhléi ef daglegur vinnutími er lengri en 6 klukkustundir, samfelldum 24 klukkustunda hvíldartíma í viku hverri sem tengist daglegum hvíldartíma, að virkur vikulegur vinnutími sé takmarkaður og að meðalvinnustundafjöldi fari ekki yfir 48 stundir að yfirvinnu meðtalinni. Einnig er gert ráð fyrir að tryggt verði fjögurra vikna árlegt launað orlof.

Venjulegur vinnutími næturvinnustarfsmanns fari að jafnaði ekki yfir 8 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili, og að þetta viðmið sé hámark ef starfi fylgir mikið andlegt eða líkamlegt álag. Ókeypis heilsufarsskoðun næturvinnustarfsmanna og sé þess kostur tilfærslur í dagvinnustörf ef rekja má heilsufarsvandamál þeirra til næturvinnu.

Frávik frá meginreglu vinnutímatilskipunar eru heimilaðar. Slíkar heimildir byggjast m.a. á því að skipulag vinnutíma í ákveðnum starfsgreinum kunni að vera með þeim hætti að æskilegt sé að heimila tiltekinn sveigjanleika við beitingu þeirra.

Flest ákvæði um vinnutíma hér á landi er að finna í kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins. Þó eru nokkur ákvæði um þetta efni í gildandi löggjöf. Byggist löggjöfin um vinnutíma einkum á því að vernda starfsmenn gegn óhóflega löngum vinnutíma með því að tryggja þeim lágmarkshvíld.

Í frumvarpinu eru enn fremur lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um heilsuvernd starfsmanna. Þar á meðal er lagt til að sett verði nýtt ákvæði um heimild félmrh. til að setja reglur er varða einelti á vinnustöðum. Í því efni er lagt til að heimilt verði að setja reglur um ráðstafanir til að koma í veg fyrir og uppræta einelti á vinnustöðum. Er mikilvægt að fyrir hendi séu reglur um vernd gegn einelti þar sem starfsmenn eiga ekki að þurfa að þola áreitni eða aðra ótilhlýðilega háttsemi á vinnustað. Enn fremur er mikilvægt að atvinnurekendur fái þar leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við einelti á vinnustað.

Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi beri ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Skal áætlunin fela í sér mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd, þar á meðal um forvarnir. Atvinnurekandi skal leita til þjónustuaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins hafi hann eða starfsfólk hans ekki yfir að ráða þeirri færni sem gerð áætlunar krefst. Ákveðnar reglur um hæfi þjónustuaðila eru lagðar til í frv. Er með þessu verið að innleiða efni tilskipunar nr. 89/391/EBE, um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, sem vísað er til í í 8. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Enda þótt um nýmæli sé að ræða í lögum eru þjónustuaðilar starfandi sem veita fyrirtækjum leiðbeiningar og aðstoð við gerð áhættumats, forvarnir og heilsuvernd starfsmanna. Hafa fyrirtæki í æ ríkari mæli leitað til slíkra þjónustuaðila um vinnuvernd og heilsueflingu á vinnustað, svo sem vinnustaðagreiningu, ýmiss konar fræðslu til starfsfólks og ráðgjöf við stjórnendur fyrirtækja, enda hefur ríkt samkeppni um hæft starfsfólk undanfarin ár. Slíkar aðgerðir leiða til betra vinnuumhverfis sem hefur þau áhrif að veikindaforföll starfsmanna verða minni og ánægja eykst í starfi. Útgjöld fyrirtækjanna og hins opinbera vegna veikinda starfsmanna ættu því að minnka, auk þess sem langtímamarkmið slíkra reglna er að draga úr kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er ljóst að atvinnulífið mun sennilega fá til baka þann beina kostnað sem lagður er til vegna framangreindra reglna að hluta eða öllu leyti í formi hærri veikindadaga, aukinnar starfsánægju, meiri framleiðni og betri árangurs fyrirtækja. Enn fremur má gera ráð fyrir að kostnaður atvinnurekanda vegna þessara breytinga sé að miklu leyti kominn fram, þó ekki sé rétt að fullyrða það nákvæmlega hversu stór hann er.

Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði sem banni markaðssetningu og notkun á tegundum véla og tækja sem og annars búnaðar sem fullnægir ekki settum öryggiskröfum eða formskilyrðum, svo sem um merkingar og vottorði. Í því skyni ber að tryggja að reglunum sé fylgt eftir og kveðið á um heimild Vinnueftirlits ríkisins til að banna markaðssetningu og notkun tækja sem fullnægja ekki þeim efnis- og formreglum sem settar hafa verið. Við samningu þessara ákvæða var m.a. höfð hliðsjón af ákvæðum laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæðum laganna til viðbótar við þær sem að framan greinir, ákvæði um skráningu og tilkynningu vinnuslysa og atvinnusjúkdóma, eftirlit ríkisins og dagsektir.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. félmn. að lokinni þessari umræðu.