Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 12:28:37 (3541)

2003-02-06 12:28:37# 128. lþ. 74.5 fundur 550. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímatilskipun, EES-reglur) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[12:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það mætti nú ýmislegt segja um vegferð þessa frv. í gegnum stjórnkerfið og hvernig til hefur tekist í innleiðingu hvíldartímaákvæða þess, reglusetningar á Evrópska efnahagssvæðinu. Það má svo sem velta fyrir sér að hve miklu leyti þetta er skynsamlegt fyrirkomulag í sjálfu sér, að búa til einhvern samræmdan lágmarksramma sem taki yfir heila heimsálfu eins og hér á að gera. Það vill nú verða svo að aðstæður geti þrátt fyrir allt verið breytilegar milli landa og ýmis séreinkenni á vinnumarkaði sem falla illa inn í slíkan veruleika. En hitt er auðvitað gott að því marki sem launamönnum er hald í að bera fyrir sig og verja sig með slíkum reglum ef illa er að þeim búið.

Þetta frv. er samansett úr ýmsum þáttum. Í fyrsta lagi er þar ákveðin stjórnkerfisbreyting hvað varðar stöðu Vinnueftirlitsins gagnvart ráðuneytinu. Í öðru lagi eru í frv. þessi ákvæði sem snúa sérstaklega að vinnutímatilskipuninni og eins eru hér ákveðnir þættir sem eru tiltekin nýmæli í íslenskri löggjöf, t.d. það sem snýr að ákvæðum um heilsuvernd starfsmanna. Þau ákvæði sem í gildandi lögum eru hafa a.m.k. ekki verið mjög virk í þeim efnum og skilgreiningar á hlutum eins og einelti á vinnustöðum og jafnvel kynferðisofbeldi eru annaðhvort nýlegar eða alls ekki í íslenskum lögum.

[12:30]

Um stjórnkerfisbreytinguna er það að segja að þetta er hefðbundin ráðherravæðing sem hefur verið mjög í tísku hér á síðustu árum og þá er eitt notað til að réttlæta annað, af því að hæstv. ríkisstjórn hafi haldið inn á þá braut að auka í raun og veru vald ráðherra, boðvald ráðherra, yfir undirmönnum og draga með vissum hætti úr sjálfstæði stofnana sé það fullgild réttlæting í sjálfu sér að vísa í að þetta sé þróunin. Ég hef svo sem aldrei haft neina sérstaka sannfæringu fyrir því að hún væri endilega rétt eða skrifað upp á hana, en út af fyrir sig geta menn sagt sem svo að það sé heppilegt að samræmi ríki í þessum efnum. Hvort það er endilega t.d. þróun í rétta átt að reglusetning á tilteknum fagsviðum, eins og á sviði vinnuverndar, færist frá viðkomandi stofnun til ráðuneytis hef ég efasemdir um. Ég held að í sumum tilvikum sé þessum hlutum jafnvel betur komið í öflugri stofnun og að ráðuneytið sé frekar fámennari yfirstjórn og eftirlitsaðili með því að stofnanir sem undir það heyra sinni verkefnum sínum.

Mér sýnist að þær breytingar sem hér eru á ferðinni séu í þessa átt án þess að þær séu stórvægilegar. Stjórn Vinnueftirlitsins fær minna hlutverk, þar með dregur úr beinni aðild og beinni þátttöku, t.d. aðila vinnumarkaðarins, að þeim verkefnum sem þar eru á ferðinni. Er það endilega jákvætt? Ég hef efasemdir um það. Það dregur nokkuð úr sjálfstæði Vinnueftirlitsins og vægi sem stofnunar, og þetta færist til. Að því marki sem þar er flutningur á ferðinni er það flutningur til ráðuneytisins. Þetta teiknar þá til þeirrar þróunar í íslenska Stjórnarráðinu að ráðuneytin tútna út, miðstýringin vex og þau verða meira afgerandi í meðferð mála.

Það stendur nú svo á, herra forseti, að einmitt á þessu þingi kom til umfjöllunar ný ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella lækna í starfsnámi og fleiri hópa sem höfðu með tilteknum hætti verið undanþegnir ákvæðum vinnutímatilskipunarinnar undir þá hópa þannig að eftir stendur ákveðinn aðlögunartími sem ríkjum er heimilt að hafa í þessum efnum. Það er þá hægt að taka það fyrir í einu lagi þar sem Íslands bíður nú hvort sem er að taka þá inn undir ákvæði þessara vinnuverndarákvæða. Um það var m.a. deilt og var eitt af því sem var ásteytingarsteinn þegar fyrri frv. um sama efni komu hingað inn á þing og strönduðu þar.

Það sem ég held að sé ástæða til að vekja athygli á og hefði auðvitað þurft að skoða ítarlega í sambandi við þetta mál, og aðeins er vikið að í greinargerðinni, eru hin efnislegu áhrif evrópsku vinnutímatilskipunarinnar, ef tekin yrði upp að fullu og öllu hér, vegna sérkenna á íslenska vinnumarkaðnum og þá fyrst og fremst vegna langs vinnutíma, vegna mun lengri vinnutíma hér á landi heldur en ég held í öllum öðrum Evrópuríkjum og vegna þess að vinnumarkaðurinn íslenski er enn að hluta til árstíðabundinn. Þó að verulega hafi dregið úr því gætir enn nokkurra árstíðabundinna áhrifa. Það eru meiri vinnutarnir og kannski lengri hlé á milli heldur en á skipulagðari og grónari heilsársvinnumarkaði sumra annarra Evrópuríkja.

Það er t.d. nokkuð sláandi að í mörgum hópum launafólks, ég hygg t.d. meðal iðnaðarmanna, er þó nokkuð algengt að vinnuvikan fari upp í 50 klukkustundir. Ég man eftir því að fyrir tveim, þrem árum komu niðurstöður úr samanburðarkönnun milli íslenska og danska vinnumarkaðarins þar sem teknar voru nokkrar stéttir og bornar saman. Út úr því kom að í tilteknum hópum var vinnuárið akkúrat mánuði lengra á Íslandi en í Danmörku. Þetta átti sérstaklega við um tiltekna hópa iðnaðarmanna.

Hér kemur það fram að um 40% launafólks í fullu starfi vinni lengur en 48 klst. á viku að jafnaði og það er jú einmitt þessi hámarkstími sem vinnutímatilskipunin gerir ráð fyrir að geti orðið. Af þessu mætti draga þá einföldu ályktun að upp undir eða um 40% af vinnumarkaðnum gæti orðið fyrir beinum áhrifum af þeim takmörkunum sem vinnutímatilskipunin felur í sér.

Nú er það ekki svo að sá sem hér talar gréti það að vinnuvikan styttist á Íslandi en það verður að horfa til samhengis hennar við kjaramálin í landinu. Það er nú einu sinni dapurleg staðreynd en staðreynd samt að lífskjör á Íslandi eru verulega háð hinum langa vinnutíma fólks og þar með tekjuöflun með mikilli vinnu. Nægir að skoða samanburð annars vegar á greiddu tímakaupi hér á landi og annars staðar og svo hins vegar heildarráðstöfunartekjum þegar allt er talið og er þá auðvitað fyrst og fremst um það að ræða að Íslendingar bæta sér upp lágt tímakaup með mikilli vinnu og ná þannig að halda í við ráðstöfunartekjur eða lífskjör í nágrannaríkjum. Þó leifir víst ekkert af því í mörgum tilvikum.

Þetta hefði að mínu mati, herra forseti, gjarnan mátt kanna miklu nánar og það hefði verið ástæða til að fá samhliða þessu frv. skýrslu um þennan þátt málsins inn á okkar borð. Nú eru að vísu ýmis gögn til frá hinum og þessum tímum sem má sjálfsagt notast við en það hefði verið heppilegt að fá algjörlega nýja og vandaða könnun á samsetningu íslenska vinnumarkaðarins að þessu leyti, lengd vinnuvikunnar og t.d. hversu algeng vaktavinna og næturvinna er hér og hvaða áhrif hin efnislegu ákvæði vinnutímatilskipunarinnar mundu þá hafa miðað við samsetningu og eðli íslenska vinnumarkaðarins þannig að menn a.m.k. áttuðu sig á því hvað þarna væri á ferðinni.

Herra forseti. Þessar reglur gera ráð fyrir tveimur mögulegum aðferðum til þess að fullgilda ákvæði vinnuverndar og vinnutímatilskipananna, sem sagt annaðhvort sé um þá hluti samið í kjarasamningum og/eða fyrir þeim sé beinlínis mælt í lögum. Reyndin er sjálfsagt víðast hvar eitthvert sambland af hvoru tveggja og þannig hefur það verið hér á landi. Að vísu var upphaflega ákveðið að velja þá leið, og það gerðist í samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, að samtök aðila vinnumarkaðarins mundu semja sín á milli um innleiðingu þessara reglna. Niðurstaða þeirra samninga var síðan auglýst í Stjórnartíðindum og öðlaðist þannig sess. En ákveðin ákvæði voru fyrir í vinnuverndarlögum og verða það áfram.

Með þessu frv. er sem sagt lagt til í reynd að utan um þetta allt saman komi síðan lagarammi. En auðvitað er til næsta lítils að setja um þetta lög ef ekki tekst sæmilegt samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um að hrinda þeim í framkvæmd. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. félmrh., af því að ráðherra skautaði alveg yfir það í framsöguræðu sinni: Hver er staða málsins nú gagnvart samskiptum við aðila vinnumarkaðarins? Er sæmilegt samkomulag um þessa útfærslu málsins sem nú lítur dagsins ljós í frumvarpsbúningi?

Þegar málið var komið til kasta Alþingis og jafnvel inn í félmn. kom því miður í ljós að menn lögðu mjög misjafnan skilning í ákveðna hluta textans og sumir stóðu á því fastar en fótunum að vinnuveitendur reyndu jafnvel að halda því fram að verið væri að ganga lengra en þyrfti í vissum tilvikum og því væru þeir algjörlega andvígir. Þeir nálguðust þetta mál með algjöru lágmörkunarhugarfari, að það ætti hvergi og í engum tilvikum að ganga lengra en algjörlega óumflýjanlegt væri vegna þessara efnislegu ákvæða sem við værum skuldbundin af, en frá hinni hliðinni héldu talsmenn samtaka launafólks því fram að í sumum tilvikum væri verið að hafa af þeim rétt, gengið væri skemmra en ákvæði tilskipunarinnar segðu til um auk þess sem, eðlilega, frá þeirra bæjardyrum séð væri að sjálfsögðu ekkert að því og í mörgum tilvikum rétt og skylt að réttur íslenskra launamanna væri ríkari en lágmarkskröfurnar einar og sér tryggðu. Þeir sem sagt nálguðust þetta ekki með þessu mínímalistahugarfari Vinnuveitendasambandsins, þ.e. Samtaka atvinnulífsins eins og það heitir víst nú, að það væri meiri háttar kórvilla ef íslenskir launamenn fengju nokkurs staðar meiri réttindi heldur en þessi evrópsku ákvæði tryggðu.

Ég hlýt að spyrja um þetta, bæði í ljósi þessarar forsögu, herra forseti, en líka vegna þess að það er alveg augljóst að þetta verður meira og minna ómögulegt í framkvæmd, meira og minna dauður bókstafur, nema um það sé mjög gott samkomulag aðila vinnumarkaðarins og tekið sé mið af þessu í kjarasamningum, þeir sniðnir að þessu og hlutir útfærðir þannig í samningum og á vinnustað, t.d. hvað varðar hvíldir í vinnu, hvað varðar skipulagningu vaktavinnu eða næturvinnu og tilhögun um frítöku og annarra slíkra hluta. Þetta verður gjörsamlega ómögulegt að framkvæma ofan frá með tilskipunum eða lagaákvæðum. Ég spyr því hæstv. ráðherra að því.

Ég vil aðeins spyrja um heilsuvernd starfsmanna. Um það ákvæði var líka deilt því að í fyrri útgáfum þessara frv. átti að læða inn frjálshyggju og koma inn lymskulegum ákvæðum um að þetta yrði þá meira og minna einkarekstur sem tæki að sér gerð heilsuverndaráætlana og skoðun starfsfólks. Mér sýnist að það hafi eitthvað verið bakkað með það og það sé skilið eftir opnara í þessu frv., en ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann eitthvað fram að færa um þann þátt málsins? Hvaða breytingum hefur það tekið og er sæmileg sátt um það?

Síðan fagna ég því eins og ég reyndar áður nefndi að hér er vikið að hlutum eins og einelti á vinnustað og reyndar síðan vísað í ákvæði annarra laga hvað varðar kynferðislega áreitni á vinnustað, þ.e. í 17. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það kann vel að vera að það sé skynsamlegur frágangur að fara ekki út í að útfæra það sérstaklega hér, í vinnuverndarlöggjöfinni eða þessum ákvæðum hennar, heldur vísa þá til þeirra skilgreininga sem til staðar eru annars staðar í lögum. En það er alveg augljóst mál að þessir hlutir eiga að koma hér inn, og þótt fyrr hefði verið, sem hluti af lögvernduðum rétti fólks til þess að sæta ekki slíkri framkomu á vinnustað. Alveg eins og við höfum á síðari árum orðið upptekin af því vandamáli sem einelti í skólum er hljótum við líka að viðurkenna og horfast í augu við þá staðreynd að þetta fyrirbæri skýtur líka upp kollinum á vinnustöðum, bæði einelti og kynferðisleg áreitni af ýmsum toga. Reyndar er upplýst hér að í evrópskum könnunum, svo seint sem frá árinu 2000, komi fram að um 2% launafólks telji sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og 9% að þau hafi verið lögð í einelti. Það er þá ekki svo lítið, herra forseti, ef upp undir tíundi hver starfsmaður á vinnustað telur sig hafa sætt slíkri framkomu.

Oftast hafa kannanir hér sýnt mikla tölfræðilega fylgni við niðurstöður frá nágrannalöndum okkar, Evrópulöndum, enda ekki skrýtið, margt er jú með svipuðu sniði hér og þar. Þannig gætum við út frá þessu --- þó að ekki væru aðrar upplýsingar tiltækar, sem reyndar kann vel að vera að séu, að eitthvað hafi verið reynt að skoða þetta hér --- því miður reiknað með því að þessi vandamál væru þó nokkuð útbreidd á íslenskum vinnustöðum. Í raun og veru kæmi meira á óvart ef svo væri ekki, ef staðan hér væri eitthvað verulega frábrugðin því sem annars staðar er. Það er því að sjálfsögðu fagnaðarefni, svo langt sem það nær, að á þessum hlutum sé eitthvað tekið eða um þá fjallað.