Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 12:57:47 (3546)

2003-02-06 12:57:47# 128. lþ. 74.5 fundur 550. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímatilskipun, EES-reglur) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[12:57]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um þetta frv., segja örfá orð um það engu að síður. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta frv. kemur fyrir þingið, það hefur gert það í tví- eða þrígang, en það hafa verið ákvæði í frv. sem hafa vakið mótmæli, sérstaklega innan verkalýðshreyfingarinnar, og hæstv. félmrh. hefur orðið við óskum um að frv. yrði tekið til endurskoðunar. Það eru vinnubrögð sem a.m.k. ég kann að meta og tel hafa orðið til góðs.

Þetta frv. á eftir að fara til umsagnar hjá aðilum vinnumarkaðar, reyndar hafa verkalýðssamtökin fengið drög að því áður og þeim hefur gefist tóm til að skoða það. Nokkur atriði hafa einnig valdið ágreiningi af hálfu atvinnurekenda og ein ástæðan fyrir því að það versnaði mjög á einhverju stiginu var krafa Vinnuveitendasambandsins, sem Sjálfstfl. var tilbúinn að hlýða, um að draga úr fjárframlögum til þessara mála, og verkalýðshreyfingunni þótti ekki nóg að gert í því efni.

Það er rétt sem hæstv. félmrh. segir, við megum ekki búa svo um hnúta að þessi lög verði dauður bókstafur en svo hefur reyndar verið allar götur frá 1980 þegar lögin voru sett. Það hefur verið ákvæði í lögum þess efnis að það eigi að sinna þessum heilsufarsþáttum á vinnustöðum en það hefur ekki verið gert. Og hvers vegna ekki? Vegna andstöðu frá atvinnurekendasamtökunum. Þau hafa staðið í vegi fyrir því að veittir væru fjármunir til þessara mála. Og það er alveg sama hvert skipulagsformið er, þessara fjármuna er þörf.

Atvinnurekendasamtökin hafa lagt mjög ríka áherslu á að þessi hluti heilbrigðisþjónustunnar verði einkavæddur, að einkafyrirtæki muni reka þessa þjónustu. Við innan verkalýðshreyfingarinnar og sérstaklega innan BSRB höfum haft miklar efasemdir um þetta. Eitt af því sem við höfum bent á er að líklegt megi telja að til verði sérhæfð fyrirtæki sem sinni þessari þjónustu. Og hvar er líklegt að þau verði staðsett? Þau yrðu að öllum líkindum staðsett á höfuðborgarsvæðinu og mundu síðan bjóða þjónustu sína víðs vegar um landið. Það er nákvæmlega þetta sem hefur gerst í eftirlitsiðnaðinum á öðrum sviðum, t.d. í rafmagnseftirlitinu. Þar eru það skoðunarstofur sem eiga að hafa eftirlitið með höndum og menn töldu að þær yrðu víðs vegar um landið. Niðurstaðan varð sú að það urðu til tvær eða þrjár skoðunarstofur, það hefur verið svolítið breytilegt, allar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er sú hætta sem við stöndum einnig frammi fyrir á þessu sviði.

Síðan náðu menn eða reyndu að ná ákveðinni millilendingu um að þeir aðilar sem sinntu þessu eftirliti væru ekki með alla heilsufarsþjónustu á vinnustaðnum. Það er leið sem menn hafa farið í Finnlandi t.d., þar er búið að færa vinnustaðinn inn í heilbrigðisþjónustuna, eða heilbrigðisþjónustuna inn á vinnustaðinn. Þetta teljum við ekki vera heppilega leið, heldur vænlegri þá leið sem Norðmenn hafa farið, að greina þarna á milli.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta eigi að vera á vegum almannaþjónustunnar, hins vegar tel ég að menn séu að reyna að finna ákveðna málamiðlun í þessu frv. Það þurfum við hins vegar að setjast yfir og verður gert að sjálfsögðu í nefnd en þetta voru örfá orð sem ég vildi viðhafa um frv. á þessu stigi.