Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 13:40:12 (3548)

2003-02-06 13:40:12# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[13:40]

Flm. (Kristján L. Möller):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram að ræða till. til þál. um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni sem ég ásamt ýmsum öðrum þingmönnum jafnaðarmanna á Alþingi er flutningsmaður að. Skemmst er frá því að segja að þetta er þriðja atlaga okkar að því að klára þetta mál og ég verð að segja að ég er mjög ánægður með þá umræðu sem farið hefur fram um þetta mál þó að ég sakni þess að sjá ekki stjórnarþingmenn ræða þessi mál, en það er svo oft sem ég sakna þess.

Ég vil, herra forseti, í upphafi ræða lítils háttar um þann lið tillögunnar sem snýr að fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu, samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu, og segja að það er auðvitað þar sem hallar mjög á og það er annað aðalatriði rakanna fyrir því þegar ég segi að lækkun flutningskostnaðar sé brýnasta byggðamálið sem við fjöllum um í dag og það er mál sem þolir ekki nokkra bið. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er, herra forseti, að það olli mér töluverðum vonbrigðum þegar loksins kom út skýrsla nefndar um flutningskostnað sem þrír ráðherrar höfðu tilnefnt sitt fólk til að starfa að og það tók nefndina 15 mánuði að skila þeirri niðurstöðu sem í skýrslunni er.

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að ekkert nýtt kemur fram í þeirri skýrslu, því miður. Það er upptalning á löngu þekktum staðreyndum úr atvinnulífinu, frá vöruverði á landsbyggðinni, um áhrif þungaskatts á flutninga, um áhrif opinberra gjalda en fram hefur komið í máli nokkurra flutningsaðila sem við mig hafa talað að allt að 40--50% af tekjum þeirra, sem eru náttúrlega af flutningsgjöldum, renna á einn eða annan hátt til baka til ríkissjóðs í formi þungaskatts, virðisaukaskatts, gúmmígjalda, alls konar eftirlitsgjalda eða hvað allir þessir skattar eða gjöld nefnast.

Í skýrslunni er líka fjallað um það hvernig virðisaukaskatturinn sem leggst á vöruverð í síðustu álagningu og flutningum íþyngir landsbyggðarfólki umfram höfuðborgarbúa. Í lokin þar sem koma niðurstöður og tillögur er vitnað í þær tillögur og í þau lönd sem eru í þeirri till. til þál. sem við jafnaðarmenn höfum flutt og ég gat um áðan. Allt sem kemur fram í skýrslunni er í þáltill. okkar. Í raun og veru hefði mátt spara sér þessa 15 mánuði í skýrslugerðinni vegna þess að ekkert nýtt kemur þar fram. Og það er kannski engin furða, þess var varla að vænta að róttækar tillögur kæmu frá þeirri nefnd sem þrír ráðherrar hafa tilnefnt í. Ég leiði líkur að því að út úr svona nefndarstörfum fulltrúa ráðuneyta komi ekki fram róttækar tillögur, heldur komi þar fram tillögur sem ráðherrunum geðjast að eða þegar þeir vilja ekki ganga mikið lengra.

Herra forseti. (LB: Er byggðamálaráðherra ekki í húsinu?) Ég vil nota vel þann stutta tíma sem ég á eftir, ég er búinn að ræða um áhrif vöruverðs, ég skýrði frá því í þeirri tillögu sem ég hef lagt fram, þar er verðkönnun sem ég hef gert á eigin spýtur í nokkrum verslunum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Hún er lögð fram sem fskj. og tafla 1, og þar er sýnt hversu miklu hærra útsöluverð er í landsbyggðarverslunum en á höfuðborgarsvæðinu. Munurinn getur orðið allt að 100%. Þar er fjallað um áhrifin á virðisaukaskattinn þar sem landsbyggðarbúar borga allt að helmingi hærri virðisaukaskatt af sínum vörukaupum en höfuðborgarbúar þar sem lægsta vöruverðið er. Það er því sýnt fram á alla þá landsbyggðarskatta sem settir eru hér inn.

Ég vil líka, herra forseti, vekja athygli á því að í fskj. í frv. okkar er ágætt erindi sem Ásgeir Magnússon, forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins á Akureyri, hefur birt og sent inn. Það sýnir hvernig þessi háu flutningsgjöld eru að ganga af fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni --- ég vil ekki nota það orð sem kemur upp í huga minn --- hvernig þau íþyngja rekstrinum.

[13:45]

Það er rétt að geta þess, herra forseti, að hin ágæta grein Ásgeirs Magnússonar er jafnframt birt með skýrslu ráðherranna. Skýrslan er keimlík tillögu okkar.

Ég ætla að nefna nokkur dæmi, herra forseti, tekin af handahófi af fólki sem í mig hefur hringt og sagt mér sitthvað um flutningskostnað. Bónda á Norðausturlandi datt í hug að kaupa sér nýjan vatnabát sem var náttúrlega keyptur í Reykjavík. Báturinn var u.þ.b. 2,73 rúmmetrar mældir til flutnings. Báturinn kostaði 133 þús. kr. Áætlaður flutningskostnaður og tilboð í að flytja þennan bát á þennan bæ á Langanesi var 69 þús. kr. Með því að flytja hann með skipi til Húsavíkur og bíl frá Húsavík til Kópaskers, bóndinn keyrði svo ansi marga kílómetra til að ná í bátinn á Kópasker, var flutningskostnaðurinn orðinn um 25--30 þús. kr. Algengur kostnaður, miðað við þá flutningsreikninga sem ég hef séð, við flutning vöru til verslana á Norðausturlandi, t.d. rúm 150 kg, er 35--40 kr. á kg.

Herra forseti. Hér erum við ekki að tala um flutningsgjaldskrána sem er margfalt hærri. Við erum að sýna fram á hvernig fyrirtæki lækka flutningskostnað eins og þeim er mögulegt og fá það sem þau telja bestu niðurstöðuna.

Ef hótelhaldarinn á Raufarhöfn verður skyndilega uppiskroppa með allan bjór þarf að ná í nýjar birgðir. Hann fær þær fluttar 60 km leið, frá Þórshöfn til Raufarhafnar með póstinum. Þá kostar 1.200 kr. að flytja hvern kassa. Það er með öðrum orðum, herra forseti, eins og ein kippa af bjór hafi dottið út úr kassanum á leiðinni. Vertinn fær bara að selja þrjár kippur. Einhver ætlar sér kannski að kaupa eintak af blaði, e.t.v. danskt eða norskt, frá Akureyri og flytja til smærri staðanna í nágrenninu. Blaðið kostar 500 kr. en flutningsgjöldin til næsta nágrennis eru 650 kr. með póstkröfu.

Þegar við í fjárln. funduðum með sveitarstjórn Þórshafnar kom fram að sem dæmi kostaði jafnmikið að flytja 20 feta gám frá Þórshöfn til Húsavíkur með bíl og að flytja 20 feta gám frá Rotterdam til Íslands. Það hefur líka komið fram, herra forseti, að flutningskostnaður tveggja stærstu kjötiðnaðarfyrirtækjanna á Norðurlandi er um 80--100 millj. kr. á ári, kostnaður við að flytja vörur þeirra á stærsta markaðinn, á höfuðborgarsvæðið. Það hefur líka komið fram, herra forseti, að í tveimur litlum en vel þekktum fiskiðnfyrirtækjum á Norðurlandi er flutningskostnaður að sliga starfsemina. Þetta eru fyrirtæki sem senda margar litlar sendingar. Þar er flutningskostnaðurinn, sama hvort er með pósti eða með bíl, um 45--150 kr. á kg. Framleiðslufyrirtæki með síldarafurðir á Norðurlandi, sem eru vel þekkt vörumerki, greiðir að lágmarki að meðaltali 60 kr. á kg í flutningskostnað. Sláturhús á Austurlandi hafa greint frá því að þau greiði að meðaltali 25 kr. á kg fyrir flutning afurða sinna, nautakjöts, á höfuðborgarsvæðið. Þau segja enn þá dýrara að flytja dilkakjöt.

Herra forseti. Hér hef ég tiltekið örfá vel þekkt dæmi úr atvinnulífinu um flutningskostnað og hvernig hann íþyngir atvinnurekstri á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Það er sennilega sama hvort við ræðum um flutning frá Reykjavík til Norðurlands, Austurlands eða frá Reykjavík til Suðurlands. --- Ég sé að hingað er kominn einn hv. stjórnarþingmaður sem heiðrar okkur með nærveru sinni, hv. þm. Drífa Hjartardóttir. --- Þær flutningstölur sem maður hefur séð frá Reykjavík á Suðurland, sama hvort það er á Hvolsvöll, að maður tali ekki um allt austur á nýja staðinn í kjördæminu, Hornafjörð, eru svipaðar á hvert kíló (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég hef sagt að ég tel að lækkun flutningskostnaðar sé mikilvægasta byggðamálið í dag. Þess vegna verð ég að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar þessi skýrsla sem ráðherrar í ríkisstjórn, bæði byggðamálaráðherra og samgrh., hafa talað um og vitnað í þegar við höfum rætt tillögu okkar varðandi flutningskostnað. Ég vil reyndar geta þess að þetta er þriðja þingið í röð sem við flytjum þessa tillögu. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna af þessum tillögum. Það tók, eins og ég sagði áðan, 15 mánuði að setja saman þessa 30 síðna skýrslu. Það hefði mátt spara sér þessa mánuði með samþykkt á tillögunni okkar, skipa þá þverpólitísku nefnd sem við leggjum til að fari ofan í þessi mál og skili af sér tillögu um bráðaaðgerðir. Það hefði reynst betur.

Ég segi eins og er, herra forseti, að ég treysti því ekki fullkomlega og tel það allt of langan veg sem ríkisstjórnin hefur valið, að vísa þessum tillögum til Byggðastofnunar til frekari aðgerðar. Það er stutt í kosningar og, eins og maður segir, gripið í ýmis hálmstrá korteri fyrir kosningar. Ég óttast að því miður verði engar efndir og engar almennilegar tillögur sem hægt yrði að grípa til í hvelli.

Ég vil aðeins leiðrétta, herra forseti, þau öfugmæli sem komu fram í stefnuræðu hæstv. forsrh. við upphaf þings. Hann sagði að flutningskostnaður hefði lækkað vegna þess að samgöngur hefðu batnað, vegir hefðu batnað og vegalengdir styst. Þá var sagt að flutningskostnaður hefði lækkað. Ég hef hvergi, herra forseti, hitt nokkurn í atvinnurekstri á landsbyggðinni sem hefur getað sýnt mér fram á að flutningskostnaður hafi lækkað.

Sama má segja um hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal. Hann hefur tuggið hið sama í ræðustól Alþingis og talar um að eina leiðin til að lækka flutningsgjöld sé að stytta vegalengdir. Flutningskostnaður mun sannarlega lækka við styttar vegalengdir en landsbyggðin þolir ekki að bíða eftir vegaframkvæmdum sem koma eftir 10 eða 20 ár, eða guð má vita um hvað hv. þm. er að tala um þegar hann talar um svokallaða Norðurleið. Landsbyggðin getur ekki beðið eftir því.

Atvinnurekstur á landsbyggðinni bíður eftir aðgerðum og krefst þess að gripið verði til þeirra tafarlaust. Það er aðstöðumunur milli landsbyggðar- og höfuðborgarfyrirtækja sem gerir það að verkum að fyrirtæki eru farin að draga úr starfsemi sinni á landsbyggðinni, jafnvel flytja atvinnurekstur sinn suður eða hreinlega hætta honum vegna þess að flutningskostnaðurinn íþyngir svo mjög sem raun ber vitni.

Herra forseti. Það mætti hafa mun fleiri orð um þau atriði sem ég hef verið að tala um. Ég hef gert að umtalsefni í ræðu minni áhrifin á samkeppnisaðstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Ég hef vitnað í grein sem Ásgeir Magnússon skrifaði, fskj. með tillögu minni. Þar er sýnt svart á hvítu hvernig atvinnufyrirtæki á landsbygginni eru að kikna undan háum flutningskostnaði.

Það er sárgrætilegt, herra forseti, og ég ætla að ljúka máli mínu á því, að að stærstum hluta er hinn hái flutningskostnaður til kominn vegna aðgerða ríkisstjórnar, samþykkta ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna og þar að auki reglna sem teknar hafa verið upp og samþykktar á hinu háa Alþingi, t.d. vökulögin. Auðvitað virka þau líka á þann veg að hækka flutningskostaðinn. Fyrst og fremst er það þungaskattur og ýmsar aðrar opinberar álögur sem auka kostnaðinn. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að ítreka og segja: Margt hefur komið fram eftir að þessi tillaga var flutt. Ég hef stundum sagt að ég hefði gjarnan viljað flytja hana núna á ný með öllum þeim upplýsingum sem ég hef fengið í samtölum við atvinnurekendur á landsbyggðinni og hjá flutningafyrirtækjum sem segja að 40--50% af tekjum flutningafyrirtækja renni beint til ríkissjóðs í formi alls konar skatta.

Að lokum, herra forseti. Niðurstaða mín er sú að verslunarrekendur á landsbyggðinni og flutningafyrirtæki eru ekki að stórgræða á starfsemi sinni. Verslunarrekstur berst í bökkum, verslunareigendur eru ekki með háa álagningu. Flutningafyrirtækin berjast í bökkum vegna þess að stærsti hluti tekna þeirra rennur til baka í ríkissjóð. Þeir verða ekki saddir af tekjum sínum þó að flutningsgjöldin séu há.