Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:01:56 (3552)

2003-02-06 14:01:56# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi svarað öllu sem fram kom í fyrra andsvari. En bara til þess að ítreka það og segja um póstinn hefur það áður komið hér fram í umræðu um Íslandspóst að ég er þeirrar skoðunar --- við ræddum m.a. verð fyrir dreifingu blaða, fréttablaða og pólitískra blaða, sem við vitum að hefur stórhækkað --- ég hef sagt það áður á Alþingi og skal endurtaka það að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að koma fé frá ríkissjóði til Íslandspósts til að halda þessari dreifingu áfram niðurgreiddri eins og hún var. Ég er þeirrar skoðunar. Ég er ekki endilega að andmæla því að póstinum hafi verið breytt í hlutafélag.

Nei, ég hef ekki skipt um skoðun á strandsiglingunum. En það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, og vitnað er til þess í þessari skýrslu sem kemur óyggjandi fram, að við það að flutningastarfsemi á landinu er að leggjast á tvo aðila, Eimskip og Samskip, þar með taldir landflutningar, kenna þeir því um að m.a. lítil samkeppni hækki flutningsgjöldin og það er sannarlega rétt. Við skulum hafa það í huga, herra forseti, að í dag er það eingöngu Eimskipafélagið sem siglir á ströndina. Við skulum líka hafa í huga hvernig það íþyngdi atvinnurekstri á landsbyggðinni þegar Eimskip gerði strúktúrbreytingu sína og lækkaði flutningsgjöldin frá Evrópu til Íslands og setti kostnaðinn meira út í --- kostnaðargreiningu eins og sagt var --- til hækkunar á flutningum í strandsiglingum, þ.e. þegar þeir tóku upp svokölluð gámagjöld. Þetta fór mjög illa með mörg fyrirtæki á landsbyggðinni.

Varðandi verslunarreksturinn sjálfan hef ég sagt það áður, og það kemur fram í tillögu minni og verðkönnun sem við flm. gerðum og birt er í þessari tillögu, að það ánægjulega er t.d. að hinar stóru verslunarkeðjur Bónus, Nettó og Hagkaup eru með sama vöruverð, sama hvort þær eru með rekstur á höfuðborgarsvæðinu, vestur á Ísafirði, norður á Akureyri eða austur á Egilsstöðum. Það er með öðrum orðum flutningsjöfnun á vegum þessara fyrirtækja. En ég vil líka, herra forseti, segja að ég hef hvergi séð eins lág flutningsgjöld og hjá þessum stóru aðilum sem fá auðvitað mikla magnafslætti.