Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:21:09 (3559)

2003-02-06 14:21:09# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mig rekur minni til þess að ég hafi áður átt viðræður af þessu tagi við hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson. Mitt svar þá, eins og núna, er að það er hugsanlegt. Það er hugsanlegt að þarna sé um mismunun að ræða og í þessum sölum, í þessari umræðu, hafa verið færð rök að því af hálfu hv. þm. Kristjáns L. Möllers að það kunni að brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrár um jafnrétti þegnanna að mismuna þeim með þessum hætti eftir búsetu. Við erum kannski farnir að toga málið þegar við erum komnir út í þessa umræðu því þá má líka setja það upp með þessum hætti: Erum við að mismuna þegnunum, erum við þá að fara á svig við ákvæði um jafnræði í öðrum málum? Við vitum t.d., herra forseti, að þegnarnir búa ekki allir við sömu þjónustu af hálfu hins opinbera. Ég nefni læknisþjónustu og spítalaþjónustu. Erum við þar með að brjóta ákvæði stjórnarskrár um jafnrétti? Mér er það til efs.

Herra forseti. Að því er varðar þessa skattaumræðu tel ég að þarna séu menn á gráu svæði en það er sjálfsagt að skoða þetta.