Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:22:31 (3560)

2003-02-06 14:22:31# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:22]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Formaður Samfylkingarinnar, hv. 7. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, lauk ræðu sinni hér áðan með því að segja: ,,Það þarf að skoða þetta.`` Í miðri ræðu sinni sagði hann: ,,Það þarf að skoða þetta.`` Í upphafi ræðu sinnar sagði hann: ,,Það þarf að skoða þetta.`` Hvað er það sem hv. þm. segir að þurfi að skoða og sagði að þyrfti að skoða fyrir fjórum mánuðum þegar hann tók til máls í sama máli? Þar talaði hv. þm. um, svo ég vitni til ræðu hans, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í fyrsta lagi blasir við að hækkun þungaskatts af völdum þessarar ríkisstjórnar hefur leitt til þess að flutningskostnaður hefur orðið mjög hár, allt of hár.``

Hann rekur það m.a. til þungaskattsins og segir síðan, með leyfi hæstv. forseta:

,,Það er t.d. bent á að í Noregi er landinu skipt í mismunandi svæði og þungaskattur mismunandi. Þetta væri hægt að gera á Íslandi með þeim hætti að þungaskattur yrði minni eftir því sem fjær dregur frá höfuðborgarsvæðinu.``

Svo mörg voru þau orð. Þetta er sá tónn sem þessi formaður Samfylkingarinnar ætlar að hafa þegar hann fer um landið með hinum formanni Samfylkingarinnar einhvern tíma á næstu vikum. Hann hefur haft fjóra mánuði til að velta því fyrir sér hvernig hann ætlar að hafa þungaskattinn stighækkandi frá einu landsvæði til annars.

Ég bað forseta Alþingis um að hlé yrði gert á umræðunni þá til þess að þessi formaður Samfylkingarinnar gæti skýrt það fyrir mönnum í hvaða svæði hann ætlaði að skipta þungaskattsálagningunni og sömuleiðis virðisaukaskattsálagningunni. Hann gerir því skóna að hann vilji hafa mismunandi virðisaukaskatt á landinu og bætir síðan við: ,,Það þarf að skoða þetta.``

Spurning mín til hv. þingmanns er: Hvenær ætlar hann að hætta að skoða þetta?